[quote=Gaui]Ég skrúfaði svo stellið á með fimm boddí-skrúfum, eins og Steve hafði talað um, en setti ekki gaddarær og bolta eins og var og ég er vanur.
Ég vona að þetta haldi

[/quote]
Ég lenti eitt sinn í að rífa undan hjólastell sem fest var með tréskrúfum eða boddískrúfum í góðan krossvið, í stað þess að nota gaddaðar blindrær eins og venjulega.
Krossviðurinn losnaði ekki undan vélinni, en hann flagnaði allur upp þegar skrúfurnar drógust úr honum þannig að ég varð að skipta um hann. Þetta reyndist ekki vel í það sinn.
Undanfarið hef ég prófað að nota nælonskrúfur. Skipti þá út grönnu (t.d. 4mm) rónum fyrir stærri (t.d. 5mm) og fjölga þeim jafnvel aðeins, svona til vara ef fjölga þarf nælonskrúfunum til að fá aukinn styrk.
Þetta reyndist vel í fyrra þegar drapst á CAP232 með .70 fjórgengismótor í og vélin nauðlenti langt utan vallar. Þá brotnuðu skrúfurnar, en ég var búinn að gera við eftir fimm mínútur. Með venjulegum festingum hefði botninn örugglega rifnað undan og viðgerð tekið mun lengri tíma.
Til að minnka líkurnar á að nælonskrúfurnar hrökkvi í sundur geri ég tvennt: Geymi nælonskrúfurnar í nokkra daga í vatni til að nælonið dragi í sig raka. (Það gerir sama gagn að hafa þær í sjóðandi vatni í hálftíma. Þetta er gamalt húsráð sem margir þekkja). Einnig lét ég gúmmíþéttilista (svamp) milli hjólastellsins og botnsins á vélinni til að dreifa álaginu og minnka togkraftana á nælonskrúfurnar. Þetta virðist hafa virkað vel.
Annað sem skiptir máli er að krossviðsplatan, sem hjólastellið skrúfast í, sé breið. Ekki bara mjó ræma álíka breið og hjólastellið eins og oft sést. Breið krossviðsplata (t.d. 10cm) tollir miklu betur en mjó (4-5cm) plata.