Augu á köllum eins og Manna eru vandaverk og hér er mjög auðvelt að klúðra því ágæta verki sem komið er með því að gera úr kallinum fulgahræðu með skjaldkirtilsjúkdóm.
Það eru líka nokkur óvænt skref sem við þurfum að taka til að fá góðan augnsvip á kallinn okkar.
Það fyrsta sem við gerum er að velja eða blanda góðan rauðbrúnan lit (og nú nota ég módelmálningu það sem eftir er og eingöngu matta) og mála alveg yfir augun ásamt augnahvörmunum fyrir neðan þau. Athugaðu að þetta þarf líka að dekka tárakirtlana næst nefinu. Þetta gefur okkur smá rauðan lit í bakgrunn og hvarmarnir verða ágætlega blóðhlaupnir.
Nú er settur smá svartur litur á augnalokin þar sem augnhárin eru hvað þéttust. Til að þetta verði ekki of mikið eins og þétt blýantsstrik, þá er gott að nota smá bréfþurrku til að létta á litnum smá.
Þá er komið að hvítunum í augunum og það má ALLS EKKI NOTA HVÍTT !!! Hvítur litur er allt of skær og það verður að slá aðeins á hann með svörtum. Þetta er, semsagt, mjög ljós grár litur.
Nú þarf vandlega að staðsetja augasteinana, sérstaklega ef augun eru mikið opin. Ef þeir eru ekki rétt staðsettir, þá lítur út fyrir að kallinn okkar sér alvarlega rangeygur. Ég nota hér lítinn tússpenna (0.9mm) til að setja punkta á hvíturnar þar sem mér sýnist að augasteinninn skuli vera.
Nú mála ég augasteininn svartan. Allan. Ekki bara steininn sjálfan, heldur lithimnuna líka.
Þá er komið að því að velja augnlit. Ég fékk mér fallega bláan lit, en það er hægt að hafa grænan og brúnan líka, eða jafnvel gráan. Þessi litur er málaður þannig að svarti grunnurinn hverfi ekki alveg, heldur sjáist örlítið rönd af honum sitt hvoru megin við. Þetta gefur auganu smá útlínur og gefur sterkari andstæðu á milli hvítunnar og augnlitsins. Það gefur augasteininum líka smá form og vídd.
Og þá er það augasteinninn sjálfur, glæri parturinn sem sýnist vera svartur. Hann er málaður með svartri málningu. Aðal mistökin hér er að gera hann of lítinn. Best er að láta þennan svarta blett ná á milli augnaloks og hvarma. Þá er öruggt að kallinn okkar líti ekki út eins og eiturlyfjasjúklingur sem er nýbúinn að fá fix.
Síðasta atriðið er að setja lítinn hvítan blett hægra eða vinstra megin við báða augasteina. Best er að nota tannstöngul eða hnífsodd til að gera þetta en ekki pensil. Þetta, aftur, gefur dýpt og lítur út eins og sólin (eða annar ljósgjafi) endurspeglist í augum sem eru máluð með mattri málningu.
Hérna er svo í lokin mynd af hausnum hans Manna eins og hann kemur til með að sjást, langt í burtu í dagsbirtu. Þá renna allir litir, blettir og annað saman í eina heild.
Næst: samsetning og innsetning.

Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.
Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði