Það er komið dálítið langur tími síðan ég setti inn nýjustu færslu hér og margt hefur gerst. Ég reyni að mjólka þetta inn í jólafríinu og verð kannski búinn að ná sjálfum mér upp úr áramótum.
Ég ákvað að setja saman vélarhlífina og gera hana einnota, þ.e. ekki búa til frumgerð og mót til að taka afsteypu. Fyrsta skrefið var að raða saman afturhlutanum, nokkrum stoðum og framhringnum. Bláu vinklarnir halda þessu í réttri stöðu þangað til hliðarnar koma á.
Hér er ég svo byrjaður að planka hlífina. Til að fá stærri límflöt setti ég 3mm balsa undir fremsta hringinn, enda er hann bara 1,5mm á þykkt. Ég setti líka heila plötu ofan á hlífina miðja og hún hjálpar til að taka af allar hliðarhreyfingar á meðan ég klæði restina. Hlífin á líka að húsa frá að neðan og þar þurfti ég að setja smá balsa til að taka við klæðningunni.
Hér er svo búið að planka allan hringinn.
Til að fá slétta fleti er gott að nota Red Devil One Time Spackling, enda er það svakalega létt og pússast einstaklega þægilega.
Nefið er þykk balsaplata sem ég límdi saman í tveim lögum af því ég átti ekki eina nógu þykka. Gott er að hafa þetta úr mjúkum balsa, vegna þess að það þarf að tálga þetta helling til, bæði innan og utan. Gott er að líma svona plötur með freyðilími vegna þess að það er ekki eins seigt að skera það og trélím.
Hér er ég búinn að hefla lag á nefið. Gott er að hafa stóran bolla af tei við höndina til að skola niður balsarykinu þegar svona verk eru í gangi.
Útlitið á nefinu er teiknað inn og síðan er kubburinn heflaður í rétt lag. Hér er gott að skoða teikninguna vel og jafnvel myndir af frumgerðinni svo vélarhlífin verði sannfærandi.
Og eftir að hafa heflað og pússað frá mér allt við er farið að koma mynd á vélarhlífina.
Næsta skref er að smella nefinu af aftur (vonandi var það ekki límt of vel) og tálga innan úr því. Það má fara mikið innanúr, því það vantar alveg örugglega pláss fyrir mótorinn og hljóðkútinn.
Það síðasta sem gerðist var að ég límdi nefið á aftur (almennilega í þetta sinn) og setti svo lag af glerfíber dúk á hlífina. Eftir tvær umferðir af epoxý kvoðu er ég hér búinn að sprauta grunn á glerið og er að safna kjarki (og sandpappír) til að pússa þetta.

Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.
Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði