Ég hef alltaf haldið að hljóðgjafinn (summerinn eða hátalarinn) væri innbyggður í Jeti hraðastýringunum. Ég er með þannig í Fun-Time og Ultra Stick 25e. Í þeim vélum heyrist heilmikil pípsinfónía fyrst eftir að kveikt hefur verið á módelinu.
Pípið er það hávært að það heyrist marga metra. Álíka og hringing í farsíma. Þetta píp lætur mann vita hvaða stillingar í hraðastýringunni eru virkar og hvort allt sé í lagi.
Áðan var ég að prófa mótorinn í Big Excel. Heyrði nánast ekkert. Hélt að hraðastýringin væri biluð. Átti aðra uppi í hillu og tengdi hana við. Nánast ekkert píp. Smám saman kviknaði á perunni í kollinum. Lagði eyrað að móturnum og lágværa hljóðið kom þaðan.
Teygði mig aftur upp í hillu og tengdi Axi mótor við hraðastýringuna lágværu. Viti menn, nú vantaði ekki ískrið.
Ég vissi það ekki fyrr að Jeti notar mótorinn sem hljóðgjafa. Mótorinn í Big Excel er gíraður inrunner, en hinir mótorarnir eru outrunner. Outrunner mótorinn virkar miklu betur sem hátalari en inrunner!
Svona getur maður verið lengi að fatta. Ég hef alltaf haldi að hljóðið kæmi frá litlum hátalara inni í hraðastýringunni
