Jæja, ég lauk við að lakka skrokkinn með sellulósalakki og ákvað að festa stélið á. Eftir að ég athugaði ýmsa möguleika á að festa stélið ákvað ég að nota M5 skrúfhulsur. Þær skrúfast fastar í 8mm göt sem ég boraði á stélsætið. Ég setti líka koparrör í stélið sem eru með 5mm innanmál:
Næst ákvað ég að búa til viðhöldin sem hliðarstýriskapallinn fer í gegnum þegar hann kemur út úr skrokkhliðunum. Ég gerði þetta með því að lóða smá koparrörbúta í kopar þynnur og skrúfa það síðan á hliðar skrokksins með skrúfum númer 00. Það er gaman að búa til svona hluti.
Þegar ég var búinn að pússa skrokkinn vandlega með fínum pappír sprautaði ég hann með bílagrunni sem ég pússa svo alveg niður áður en ég sprauta lokalitinn.
Nú gat ég farið að byggja vænginn og Kjartan vinur minn benti mér á að nota þýðingarvél í tölvunni til að þýða leiðbeiningarnar úr þýsku yfir á ensku (það er ekki til þýðingarvél sem þýðir úr þýsku á íslensku og verður líklega aldrei til). Ég ákvað að prófa þetta og eyddi heilum morgni í að skanna leiðbeiningarnar inn í tölvuna mína og síðan þýða hverja efnisgrein fyrir sig á Alta Vista Babel Fish þýðingarvélinni. Niðurstöðurnar voru ... ja, athyglisverðar, svo ekki sé meira sagt.
Hér er dæmi um þýska textann:
[quote]Als Nächstes dann Hilfsholm F 2 in alle Rippen einfädeln und zunächst bündig nur mit Rippe R15 verkleben, gezeigt auf Bild 39. Erst, wenn diese Klebeverbindung ausgehärtet ist, den Hilfsholm F2 endgültig an die Rippen R14, R13 und R12 bis vor zu R1 kleben. Nur so ist gewährleistet, dass alle Rippen zwischen Hauptholm und Endleiste exakt parallel lauten. Ist das geschehen, machen wir mit Hilfs-Nasenleiste und Endleiste weiter. Diese Teile besitzen jeweils Überlänge und müssen vorab ebenfalls zusammengeschäftet werden. [/quote]
Og hér er Alta Vista Babel Fish þýðingin:
[quote]Next then into all ribs contrive false spar F 2 and stick together first concisely only with rib R15, pointed to fig. 39. Stick only, if this splicing tape is hardened, the false spar F2 finally on the ribs R14, R13 and R12 to before to R 1. Only like that it is ensured that all ribs read between main spar and end rail accurately parallel. Happened, we continue with auxiliary ledge and end rail. These parts possess in each case excess length and must first likewise together be geschaeftet.[/quote]
Það er morgunljóst að „enska“ útgáfan“ er ekkert mikið meira skiljanleg en sú þýska. Ég setti því takmarkaða þýskuna mína í hágír ásamt áralangri reynslu af módelsmíði og las báða texta í einu. Þá fékk ég út nokkurn vegin réttar leiðbeiningar:
[quote]Næst skaltu setja aftari bitann F2 ofan í öll rifin, en bara líma hann við rif R15 eins og sýnt er á mynd 39. Þegar þessi líming hefur náð að harðna má líma bitann við önnur rif. Byrjaðu á R14, R13, R12 og síðan alla leið að R1. Aðeins þannig er öruggt að rifin verði samsíða á milli aðalbitans og afturbrúnarinnar. Þegar þessu er lokið, þá er hægt að fara í fölsku frambrúnina og afturbrúnina. Þessir hlutar eru lengri en staðal efni og því verður að splæsa þá saman.[/quote]
Þegar ég var búinn að gera þetta við leiðbeiningarnar um vængsmíðina fannst mér ég hafa nægar upplýsingar til að halda áfram.
Fyrst útbjó ég allt efnið sem átti að fara í vængbitana. Allir bitarnir eru lengri en 1 metri og því þarf að splæsa þá alla og ég gat hvergi fengið lengra efni þó það sé til í erlendum verslunum:
Vængsmíðin hefst á því að maður neglir niður efri aðalbita vængsins vegna þess að hann er smíðaður á hvolfi (on the head ) og síðan eru fyrstu fjögur rifin límd við hann. Bitavefina þarf að búa til áður en smíðin byrjar og aðeins fremri vefirnir eru límdir í til að byrja með.
Þegar fyrstu fjögur rifin eru komin í, þá er neðri bitinn settur í og svo er rifjunum og fremri bitavefjunum raðað á þá, alla leið að vængenda, 23 rif í allt. Falska frambrúnin er límd á...
... og afturbrúnin búin til Sveigurinn á hallastýrinu er svo mikill að ég þurfti að rista afturbrúnarefnið í þrennt og síðan líma það saman aftur í réttu formi. Það er gert með PU lími og nokkrum nöglum:
Afturbrúnin er límd aftan á rifin, en vegna þess hve límflöturinn er lítill, þá eru styrktarhorn úr 0,8mm krossviði límd á öll rifin:
Hér er hægri vængurinn kominn á það stig að það má velta honum við:
Nú kemur mikilvægur hluti smíðarinnar. Til þess að vængurinn hafi nægan niðurvinding (washout), þá þarf aðsetja undir vængendann við rif 22, 17mm undir aðalbitann og 26mm undir afturbrúnina.
Vængurinn er fergður niður og þá er hægt að líma aftari bitavefina í til að stífa hann af og halda niðurvindingnum.
Sjáumst í næstu viku.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.
Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði