Ég bjó til stífur fyrir stélið úr kopar rörum sem ég flatt í annan endann og boraði og skrúfaði síðan á stélið. Hvor stífa er gerð úr tveim rörum þar sem annað er minna í þvermál og passar akkúrat innan í hitt:
Nú er auðvelt að skrúfa stífuna á stélið og skrokkinn án þess að hafa áhyggjur af lengdinni og síðan einfaldlega lóða rörin saman (án þess – vonandi – að kveikja í skrokknum):
Þá eru það vængstífurnar næst – eða endarnir á þær – stífurnar sjálfar þurfa að bíða aðeins.
Ég bjó stífuendana til úr ýmsum hlutum. Neðri endana gerði ég úr koparhring úr stýrisarmi með 4mm gati, 4mm snittteini og snitthulsu. Ég stækkaði skrúfugatið á hringnum og silfurkveikti snittteininn í það. Snitthulsan verður límd inn í stífuna og þá verður hægt að stilla lengd hennar:
Hér er neðri endinn á skrokknum:
Efri endann gerði ég úr koparröri sem passar á milli festinganna á vængnum og ræmu af kopar:
Ég notaði skrúfstykki til að beygja koparræmuna utanum stáltein með sama þvermál og rörið:
Síðan silfurkveikti ég rörið og ræmuna saman:
Hérna er endinn kominn á vænginn. Ég nota síðan Hysol og hnoð til að festa þetta á stífuna:
Til að ljúka smíði stífanna vantar mig tvær spýtur sem eru 30 x 10 mm og um 500 mm á lengd.
Þá var komið að vængendunum. Ég setti hallastýrin á og festi þau rækilega í núllstöðu til að fá lögun vængendanna rétta og svo límdi ég þá á:
Til að forma endana ákvað ég að setja nýtt blað í gamla góða balsahefilinn, svo ég vippaði því gamla úr, braut það í tvennt og stakk brotunum í litla krukku sem ég nota undir gömul hnífsblöð (það er saga á bakvið þessa krukku sem ég segi kannski síðar). Þá komst ég að því að þetta hafði verið síðasta hefilblaðið mitt.
Mig langaði virkilega til að forma vængendana núna um helgina, svo ég skellti nýju blaði í hobbý-hnífinn minn og byrjaði að tálga endana (mjög varlega) eins og ég hef séð Dave Platt gera í afar fróðlegum myndum sem hann hefur gert. Ég held að ég hafi bara náð að gera þetta sæmilega og tálgunin tók minni tíma en ég hafði gert ráð fyrir:
Samkvæmt teikningunum, þá eru hallastýrin innfellt, það er, afturbrún vængendans er hluti af vængnum en ekki hallastýrinu. En þegar ég skoðaði upprunalegu Grunau Baby teikningarnar sem ég hafði náð í, þá kom í ljós að þetta er ekki rétt:
Ég gekk því úr skugga um að endinn á hallastýrunum væri rækilega límdur við vængendakubbinn og síðan notaði ég sög til að saga út úr hallastýrinu:
Hallastýrin eru nú svo til tilbúin og í næstu viku getur verið að ég byrji að klæða þau. Ég er núna að pússa vængina og að reyna að fá loftbremsurnar til að flútta við efri brún vængsins.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.
Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði