Fyrsti vængurinn er langt kominn. Ég byrjaði á því að setja bitana upp á skorður og síðan raða ég rifjunum á þá. Ég er með teikninguna undir, en læt strik á bitunum ráða. Einnig nota ég vinkil mikið til að rifin sitji rétt.
Þegar öll rifin eru komin á, þá lítur þetta svona út. Frambrúnin og afturbrúnin halda líka við.
Rótarrifið fær sérstaka umönnun: skátífur og fyllingu yfir í næsta rif til að þetta skekkist síður á flugi. Það er alveg líklegt að ég setji innfyllingu alla leiðina, en fyrst um sinn ætti þetta að duga.
Aftari vængbitinn nær auðvitað ekki alla leið upp að efri brún rifjanna, svo að þar sem hallastýrin eru þarf að líma balsakubb sem fer aðeins upp fyrir rifin.
Og rifið við hallastýrið fær sína eigin skástífu til að halda í það. Það er ekki gott ef þetta rif fær að hreyfast: það gæti hindrað hallastýrið.
Hér eru það rifjaræmurnar sem fara á. Balsinn er nógu stökkur til að ég þarf oftast að kremja hann þar sem hann liggur yfir rifin fremst svo hann brotni ekki.
Hér svo vængurinn nokkurn veginn tilbúinn að ofan. Ég er að velta fyrir mér að setja skástífur inní hann til að gera hann stífari. Í fyrirmyndinni var vængurinn krosstífaður með vír, en ég held að það væri of mikil vinna. Kannski bara grillteinar eða eitthvað svoleiðis. Ég ætla að sjá hvað er til í Nettó.
Vængendinn þarf að fylgja yfirborði vængsins samkvæmt þriggja-hliða teikningu sem ég á. Það verður þá næsta verk.
Flugvirkjar eru að læra sitt fag í safninu um þessar mundir og hér er Helgi, annar kennarinn þeirra að benda þeim á einhver athygisverð atriði á vængnum á Fokker F27, beint fyrir ofan höfuðið á mér.
