Fyrir skömmu keypti ég AXI 2820/10 Outrunner mótor (http://www.hobby-lobby.com/brushless-axi2820.htm). Einnig keypti ég tvo spaða; 11"x7" fyrir 8 sellu rafhlöður og 10"x6" fyrir 10 sellu rafhlöður. Með þessu er straumnotkunin um 30 amper, hvort sem notuð er 8 eða 10 sellu rafhlaða.
AXI mótorinn virðist vera mjög vandaður, og virkar á mann nánast eins og venjulegur glóðar- eða bensínmótor, sérstaklega þar sem maður finnur fyrir eins konar "þjöppun" þegar mótornum er snúið. Þar sem mótorinn er með 12 segla virkar hann eiginlega á mann sem stjörnumótor þegar honum er snúið.
Hraðastýringin fyrir burstalausa mótorinn er frá Jeti. (Ath. Jeti framleiðir tvær gerðir af hraðastýringum; venjulega með BEC-Battery Eliminator Circuit, og svokallaða OPTO gerð, sem er án BEC).
Mótorinn er jafnstór gírkassanum á "geared 600" mótornum, þannig að hægt var að færa servóin framar en þau voru. Ég þurfti að gæta þess að leggja vírana þrjá frá mótornum þannig að mótorhúsið, sem hringsnýst, nuddaðist ekki við þá.
Ég var í hálfgerðum vafa um hvort nægilegt væri að nota 8 sellu rafhlöðu, en ákvað þó að byrja með þannig rafhlöðu og 11"x7" spaða. Ég setti módelið á katapúltið og skaut því á loft. Ég varð strax var við gríðarlegan mun. Módelið var orðið eins og ótemja. Það vildi klifra svo rosalega, að það fór bakfallslykkju nema ég héldi hæðarstýris-pinnanum fram. Eftir um mínútu klifur var það komið í gríðarlega hæð, líklega ekki minna en 300 metra.
Fyrir næsta flug prógrammeraði ég mixingu í sendinum til að færa hæðarstýrið sjálfvirkt aðeins niður þegar gefið var inn. Ég notaði 30%. Eftir það klifraði módelið þægilega upp, án þess að ég þyrfti að kljást við hæðarstýrið sjálfur.
Ég var með gamlar lélegar 8 sellu rafhlöður, sem upphaflega höfðu verið 3000 og 3300 mAh, en mældust nú um 2400 mAh. Ég klifraði þrisvar í vel yfir 300 metra hæð og flaug í 20 til 24 mínútur í senn. Ég gætti þess að tæma ekki rafhlöðuna til að auðvelda lendingu, þannig að ég hefði væntanlega getað klifrað einu sinni enn.
Sem sagt, módelið er gjörbreytt. Miklu miklu skemmtilegra en með 600 eða geared-600 mótorunum. Ég flaug í talsverðum vindi, eða um 8-10 m/s samkvæmt mæli Vegagerðarinnar sem er í um 2ja kílómetra fjarlægð.
Þar sem módelið var svona ofursprækt með 8 sellu rafhlöðunni hafði ég engan áhuga á að reyna 10 sellu rafhlöður, enda eru þær þyngri. 11"x7" spaði sem snýst 7100 RPM er næstum eins og maður býst við af meðalstórum fjórgengismótor frekar en af rafmagnsmótor. 10"x6" spaðinn með 10 sellu rafhlöðupakka hefði snúist um 9100 RPM !

AXI mótorinn er ekki stærri en 1:2,8 gírkassinn við 600 mótorinn.
Hér er 10x6 spaðinn á módelinu og 10 sellu rafhlöðupakki við hlið þess. Módelinu var flogið með 11"x7" spaða og 8 sellu "sub-C" rafhlöðum.

Hér er módelið komið á skotpallinn eða katapúltið og tilbúið fyrir flug.
Þegar stigið er á fjölina skýst módelið í loftið meðan báðar hendur eru á fjarstýringunni.
Mér hefur reynst svona skotpallur ómetanlegur þegar ég er einn að fljúga.

Nærmynd sem sýnir hvernig sleppibúnaðurinn á katapúltinu er.

Flug með AXI 2820/10 í FunTime er ný upplifun

Það er ekki gat á stélinu, heldur er þar spegilfilma sem varpar stundum björtum sólarglampa þegar afstaða módels og sólar er rétt


Útprentun úr MotoCalc (http://www.motocalc.com) fyrir FunTime með AXI 2820/10 og 11"x7" spaða.