Ég hef haft áhuga á Tiger Moth flugvélinni í fjölda ára og lengi langað til að smíða eina slíka. Hinrik Einarsson vinur minn í Hafnarfirði setti saman eina frá Tony Clark fyrir fjölda ára og ég var alltaf hrifinn af því hvernig hún flaug. Mér fannst hún samt ekki alveg nógu rétt, enda gerir Tony svokölluð „Practical Scale“ módel. Þegar ég svo fann teikningu af 30% Tiger Moth hjá Model Airplane News, þá keypti ég eintak og ætla nú að setja hana saman.
Ég byrja alltaf á því að finna frumgerð til að fara eftir og til þess kaupi ég helling af bókum. Ég vildi byggja H.D 82A týpuna í breskum litum, helst þar sem hliðarnar eru gular og felulitirnir ná ekki niður af bakinu. ´einni bókinni sem ég keypti, The Tiger Moth - A Tribute eftir Stuart McKay fann ég mynd af réttu vélinni.

Hér er búið að kroppa vélina út úr myndinni:

Þessi mynd var tekin á Elmond við Birmingham snemma árs 1940 og sýnir hóp flugnema í sjóhernum hlaupa út í flugvélar sínar. Það er ýmislegt athyglisvert við Tiger Moth vélina: ofan á bakinu á henni er ljósgrænn ferningur sem er svokölluð gasmálning, sem skipti litum ef það var gas í loftinu og það er ekki fánarönd á stélkambinum. Það eru sjálfvirkir raufungar (slats) á vængjunum og það eru engin spinnræmur fyrir framan stélflötinn. Svo er tjald fyrir aftan aftari flugmannssætið sem hægt var að draga yfir nemann svo hann sá ekkert út og varð að blindfljúga vélinni.
Talan á flugvélinni hefur líka merkingu fyrir mig. Ég vonast til að ljúka smíði á þessu módeli á næsta ári, en þá verð ég 54 ára gamall!