Hvað haldiði...
Ég fann þarna eldgamlan fæl (dagsettur des 2006 en ég held að ferðin hafi verið farin 2004) með frekar væminni ritgerð sem ég hakkaði saman eftir eina Austurríkisferðina. Hlýt að hafa verið í annarlegu ástandi þegar ég skrifaði þetta,,, eða þá ekki búinn að fá kvöldbjórinn...
Ojæja, ekki alveg galið svo ég hendi þessu í ykkur hér með. Þetta átti að fara hérna inn hvort eð er. Líklega hefur mér ekki fundist það nógu gott og ætlað að laga það til.
Gerir ekkert. Þið takið viljann fyrir verkið.
Hér er listaverkið svolítið stytt og lagfært:
[quote]Ég átti leið til Vínarborgar í haustkuldanum um daginn með frúnni sem var þar á þingi fæðingarlækna.
Vín er svo sem ekki mín uppáhaldsborg, var þar að þvælast fyrir sex árum og fannst svo sem lítið þangað að sækja, nema ef vera skyldi dýragarðurinn sem ég mæli eindregið með. Þar er einn af fáum stöðum í heiminum þar sem hægt er að sjá risapandabirni og það í flottu umhverfi.
Mér fannst garðurinn heimsóknarinnar virði fyrir 5 árum en nú er búið að gera hann að miklu leyti upp og ef maður er með krakka með sér þá er hreinlega skammarlegt að leyfa þeim ekki að upplifa staðinn! Fimm ára dóttirin var með í för og mun líklega seint gleyma því.
Hvort maður lítur á svo á Schönbrunn keisarahöllina í leiðinni fer eftir því hversu hrifinn maður er af yfirgengilegum, napóleónskum glæsileika og risavöxnum hallargörðum. Það er keisaralega flott þarna.
Vín er stundum lýst sem “Austurríki með sykurhúð” og ég get alveg skrifað undir þá lýsingu.
Ég ætlaði í þetta sinn líka að gera mér ferð í mannfræðisafnið (Museum der Völkerkunde) að sjá Venus von Villendorf en eftir að hafa barist þangað með dótturina í fanginu í hávaða-haustroki sem varð að raunverulegu mannskaðaveðri úm nóttina, þá kom í ljós að það var lokað næstu árin vegna viðgerða! Hvílík vonbrigði.
Samgöngukerfið í Vín er frábært í einu orði sagt. Það eru fáar borgir þar sem jafn auðvelt er að komast milli staða. Jafnvel betra en London og þá er mikið sagt.
Ekkert mál að fara allra sinna leiða, maður þarf ekki einu sinni að taka upp vikumiðann nema maður rekist á eftirlitsfólk sem er sjaldan.
Til að fara í dýragarðinn tekur maður einfaldlega neðanjarðarlestina og fer úr á Schönbrunn. Sporvagnar ganga líka víða og meðal annars eftir Mariahilferstrasse þar sem Mega Modell er.
Mega-Modell
Það var ekki alveg þrautalaust að finna flugmódelbúð í Vín. Af einhverjum ástæðum tókst mér að ekki að finna út úr þessu á netinu áður en ég fór, jafnvel þó aðal flug-R/C búðin sé með eigin síður á
www.megamodell.com þá fór hún fram hjá mér.
Allnokkrar hobbíbúðir fann ég í miðbænum sem höndla með hvers kyns sérvöru, svo sem járnbrautamódel og eftir að hafa rakið mig eftir þeim þá fannst loksins flugvéla-sérvörubúðin steinsnar frá Schönbrunn dýragarðinum.
Ef maður er alvarlega þenkjandi flugmódelfíkill þá sleppir maður kastalanum og nýtir kraftana betur í að labba spottakorn upp framhjá Schönbrunn lestarstöðinni og upp á Mariahilferstrasse 217 og heimsækja Mega Modell.
Búðin er nokkuð stór og aktíf og hellingur af dóti til en verðið svo sem ekkert frábært. Ég fann þarna kolfiberstangir og annað smádót sem mig vantaði.
Alveg þess virði að heimsækja ef maður á annað borð er á svæðinu.
Modell Memmer
Við heimsóttum líka einu sinni sem oftar Graz í Steiermarkfylki, sem er mun alþýðlegri borg. Þar eigum við góða vini. Loks hafði ég upp á Modellbau Memmer í Mandellstrasse 8 rétt hjá Óperunni og Kaiser-Josef plats. Ef maður er góður í þýsku gengur það ábyggilega betur en mér gekk illa að ræða málin við aumingja kallinn (Herr Memmer?) og barnvænn er hann ekki. Herr Memmer hafði verulegar áhyggjur af að dóttirin, sem var með í för, mundi rústa öllu (hún var stillt og prúð) svo frúin tók tækifærinu fegins hendi og fór með hana í nærliggjandi móðinsbúð meðan ég lauk mér af.
Mig grunar að Herr Memmer sé orðinn illa kalkaður því hann þurfti alltaf að hóa í konuna sína til að finna hluti sem ég spurði um og tæknilegu upplýsingarnar sem hann hafði virtust að meðaltali tíu ára gamlar eða meira.
Schweighofer
Svo er loks ein búð sem ég fékk upplýsingar um en komst ekki að skoða.
Skammt fyrir vestan Graz, í Deutschlandsberg eru höfuðstöðvar Schweighofer sem mun vera stærsta módelbúðin í Austurríki. Þeir eru með stóra e-búð á
http://www.der-schweighofer.at/ Var ekki með bíl þarna, annars hefði auðvitað verið tekin stefnan þangað.
Kveðja
Björn Geir.[/quote]