Ég hef notað svokallað væng-gíró (Wing Gyro) frá Ikarus í tvö módel; Cap232 og Super Stearman. Bæði eru af .40 stærð, sem sagt meðfærilegar flugvélar frá Kyosho. Þessi gíró eru tveggja rása, þ.e. fyrir tvö hallastýrisservó. Þessi módel eru þannig að ég get flutt þau samsett í bílnum. CAP232 er með OS70FS fjórgengismótor og Stearman lengst af með OS45 tvígengismótor, nú OS52FS.
Ég fjallaði um svona gíró fyrir mörgum árum í þræði sem nefndist
Vindflug.
http://frettavefur.net/Forum/viewtopic.php?id=626
Í stuttu máli þá var niðurstaðan þessi:
Það er mikil hjálp í að geta stillt mögnun gírósins frá sendinum, en Ikarus gíróið er þannig. Maður vill jafnvel hafa meiri mögnun þegar flogið er hægt, því þá eru hallastýrin áhrifaminni.
Módelið virkaði stærra með gíró. Það fékk aðeins eiginleika stærra flugmódels því það var ekki eins vakurt á flugi. Kannski má segja að .40 módel hafi fengið flugeigileika .60 módels. Gíróin trufluðu ekkert flugeiginleikana að öðru leyti.
Mér fannst meira gaman að nota væng-gíróið í Super Stearman tvíþekjunni en CAP232. Mér fannst það sérstaklega þægilegt í sveitinni þar sem oft er vindur. Flugið varð einfaldlega mun þægilegra og öruggara. Ég gat siglt vélinni inn til lendingar af öryggi í töluverðum vindi, hún kom bara inn eins og á hún væri á teinum.
Skemmtilegast væri auðvitað að vera með gíró á öllum þrem ásunum, en ekki bara langásnum eins og þegar væng-gíró er notað. Vera með gíró líka á hæðarstýrinu og hlðarstýrinu.