Áðan setti ég búnaðinn í Bixler og flaug í stífum vindi. Eiginlega óþægilega stífum. Með búnaðinum frátengdum kastaðist vélin til og frá eins og laufblað og stóð nánast kyrr á móti vindinum. Í hliðarvindi vildi hún fjúka upp á rönd. Eiginlega óskemmtilegt að fljúga þannig. Samkvæmt mæli Vegagerðarinnar sem er í um 2ja km fjarlægð var vindhraðinn um 6m/s með gustum í 8m/s. Ég var með litla 1,3Ah rafhlöðu í Bixlernum þannig að vélin var mjög létt.
Ég kveikti á búnaðinum með rofa á sendinum. Vélin flaug nú nánast eins og í logni! Ótrúlegt.
Þetta er 3ja ása stabilizer, eins konar 3ja ása gíró. Notar gíró skynjara til að skynja hornhröðun og er með fjölhæfri innbyggðri tölvu. Vinnur inn á halla-, hliðar- og hæðarstýri. Græjan er líklega minni en eða svipað og hálfur eldspýtustokkur og fislétt. Sjá hér: http://eagletreesystems.com/guardian/.
Ég tengdi einn útgang á viðtækinu við inngang á græjunni til að hafa möguleika á að skipta um ham með 3ja stöðu rofa á sendinum. Hann virkar þannig:
1) Rofi í miðstöðu: Tækið frátengt og allt eins og venjulega.
2) Rofi niðri: Svokölluð 3D stilling. Vélin virkar að mestu eins og áður, hægt að rolla og lúppa eins og venjulega, en vélin verður þrælstöðug jafnvel þó vel gusti.
3) Rofi uppi: Svokölluð 2D stilling. Vélin réttir sig af þegar pinnanum er sleppt eða hann settur aftur í miðstöðu. Fer í rétta stöðu jafnvel ef hún lendir á hvolfi. Undarlegt að fljúga þannig, nánast eins og að aka bíl. Mér fannst það óþægilegt í fyrstu, en þetta er örugglega frábært fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref. Í lendingu svifur vélin niður eins og á rennibraut, jafnvel í miklum vindi.
Ég notaði mest 1) og 2) en prófaði stundum 3). Hér er greinilega komið tæki sem hentar vel í okkar vindasama landi. Hentar einnig sem hjálpartæki í kennsluvélum.
Ég keypti þetta frá Englandi og kostaði stykkið um 50 pund án VAT og með flutningi. Vel þess virði! Sjá: http://rc-log.co.uk/
