

Þess má geta að þegar ég setti þessa vél saman, þá hafði ég aldrei heyrt minnst á plastfilmu (sem var þó til í Tómo), svo þegar ég ætlað i að setja lit á hana, þá var mér bent á að kaupa epoxýmálningu, sem ég blandaði eftir kúnstarinnar reglum og penslaði beint á balsann. Ég held alveg örugglega að Nonni hafi ekki verið við í búðinni þegar þetta var.
Jæja. Svo gerðist það í dag að Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarkennslu við VMA, kallaði á mig, sagðist eiga eldgamalt flugmódel sem hann hefði aldrei klárað og ætlaði nú annað hvort að henda eða gefa einhverjum. Svo rétti hann mér kassa með örlítið smíðuðum Windy !!!

Upp úr þessum kassa komu frauðplast vængir klæddir með apakí, sem er ekki enn farið að skemmast, hálfsmíðaður skrokkur, örlítið brotinn og hinir og þessir mis-brotnir balsabútar. Einnig var þarna teikning, stýrisbarkar og lím.

Þetta lím er líklega ónýtt. Gripið er orðið hálf glært og rennur ekki lengur til í flöskunni. Epoxýið var einu sinni það besta í heimi, en ég er ekki viss um að það sé virkt lengur. Ég ætla nú samt að gera tilraunir með það

Og svo kom þetta upp úr kassanum:

Þarna sést að Ingimar hefur keypt þetta 23. janúar 1980 og fengið sent í póstkröfu til Akureyrar. Heildarverð 36.590 krónur. Þess ber að geta að árið eftir voru tekin tvö núll aftan af krónunni, svo að samkvæmt nútíma staðli, þá ætti þetta að kosta 365 krónur og 90 aura !!!
Og nú kemur það skemmtilega: Þegar lítið er að gera og dauður tími í vetur, þá ætla ég að setja þennan Windy saman, snurfussa hann og laga og gera hann fínan og flottan, eins og rúmlega 30 ára reynsla í módelsmíðum leyfir. Þegar hann er svo tilbúinn í flug, þá læt ég Ingimar fljúga honum og sýni honum fram á af hverju hann hefur misst öll þessi ár.
