Það fyrsta sem hann gerir er að skoða vandlega allar myndir sem hann finnur af frummyndinni, TF-TOG.

Það sem hann sér á myndunum ber hann saman við þríhliðateikningu af flugvélinni og ákveður þar hvernig plötuskilin eiga að snúa.

Hann mælir allt vandlega og reiknar út hvar línurnar eiga að koma.

Þá getur hann merkt hvar línurnar eiga að vera

og síðan strikað eftir reglustiku (eða í þessu tilfelli mjúkri plastræmu)

Hér eru komin strik fyrir öll plötuskilin ofan á vængnum.

Nú sest hann niður og ákveður í hvaða röð skilin eiga að koma. Þetta getur skipt máli upp á að réttu plöturnar virðist liggja ofan á en aðrar undir.

Til að gera plötuskilin eru tvær ræmur af límbandi (þetta er plastlímband sem notað er þegar bílar eru málaðir) límdar niður réttu megin við strikið. Það eru settar tvær ræmur til að fá nægilega hæð á plötuskilin.

Og þá er strokið þunnu lagi af fylliefni á vængskinnið og spaðinn látinn renna eftir límbandinu.

Þegar fyrri umferðin er þurr, þá er annað lag af fylliefni sett á.

Eftir margar tilraunir erum við búnir að komast að því að þetta er miklu fljótlegra svona heldur en að setja eitt þykkt lag af fylliefni. Þunnu lögin þorna á nokkrum mínútum, en þykkt lag getur tekið marga klukkutíma að harðna í gegn.
Þegar fyllirinn er harður, þá má pússa hann niður að vængskinninu og límbandinu með blaut-pappír. Athugið að Mummi er með vatn í úðabrúsa til að úða þar sem hann ætlar að pússa. Þetta er miklu þrifalegra en að vera með vatn í fötu og sletta drullugu vatninu út um allt.

Fylliefnið er pússað niður þar til öll brúnin á límbandinu er komin í ljós.

Þá má rífa límbandið af.

Ef fylliefni liggur yfir brúnina á límbandinu, þá er hætta á að það brotni upp þegar bandið er tekið.
Nú má pússa plötuskilin létt til að taka skörpustu brúnina burt. Fylliefnið er þó nokkuð hart, svo það er lítil hætta á að pússa of mikið ef maður einbeitir sér að verkinu.

Og þá eru fyrstu plötuskilin komin:

Smá fylligrunnur til að sjá hvernig þetta lítur út:

og þá er bara að gera næstu línu.

Þegar allar línur eru komnar á vænginn, þá reynum við að taka mynd sem sýnir þær í réttu ljósi og setjum hérna inn.
