Við höfum gefið okkur allt of lítinn tíma í flugdelluna undanfarið en við tókum þó með fjölþyrluflygildi alla leið hinum megin á landið. Það varð þó minna úr myndatökum en við ætluðum af ástæðum sem á eftir greinir, en við lærðum helling af því.
Ætlaði alltaf að setja saman safn af flottustu bútunum úr þessu litla sem við gerðum í sumar en svo fór tíminn í annað.
Hér er þó smá sýnishorn:
Myndaband úr GoPro á flugi virkar oft ansi „flatt“ og dimmt beint úr vélinni. Slíkt er hægt að laga að hluta eftirá í góðu myndvinnsluforriti. Þarna voru ágæt birtuskilyrði en myndbandið hafði mjög gott af smá eftirvinnslu. Þessi útgáfa er tilraun með slíkt. Fyrri tvær mínúturnar þarna eru með meiri birtu- og litaaukningu en seinni hlutinn. Kannski aðeins um of.
Það er nauðsynlegt að stilla myndavélina á að taka upp á mesta hraða til að fá út bestu gæði. Í þessu tilviki 60 ramma á sekúndu. Þá getur myndvinnsluforritið unnið miklu meira með ljós og liti og titringsleiðréttinguna. Þá er líka hægt að hægja betur á myndinni og fá þessi flottu áhrif sem oft sjást í svona myndum, af hægum tignarlegum hreyfingum. Smávægilegri titringur verður minna áberandi eða sést varla. Sýnishornið þarna er á réttum hraða
Í staðinn er ekki endilega nauðsynlegt að nota mestu upplausn, 720p nægir í flest, skrárnar miklu minni og léttara í eftirvinnslu.
Það var allnokkur vindstrekkingur niður brekkuna. Það á að hluta á sök á flöktinu (Jelly-effect) sem er erfitt að leiðrétta eftir á. Einnig á titringi sem sést stundum. Mig minnir að ég hafi sett inn smávægilega titrings-leiðréttingu í þessari útgáfu en flöktið er erfitt að losna við án þess að fá önnur hreyfiafbrigði í staðinn.
Youtube býður manni stundum (þarna til dæmis) að leiðrétta titring sem það greinir í myndböndum en mér hefur ekki fundist það koma vel út.
Titringsleiðrétting er í meginatriðum gerð með því að skera út minni ramma og leiðrétta hreyfingar með því að færa hann til.
Þarna er Hjörtur Geir að fljúga FPV. Honum bregður fyrir sitjandi á palllokinu . Það reyndist ekki svo skynsamleg staðsetning því í lokin á þessu flugi fór hann lágt framfyrir trukkinn, lenti þar í „radíó-skugga“ og missti samband augnablik, nóg til að hún sleikti fósturjörðina heldur harkalega. Þarna lærðist okkur meðal annars að næst er betra að hafa ekki bara einn auka-arm meðferðis þegar ferðast er langt að heiman og ætlunin að taka fullt af flottum flugmyndum

Best er að hafa meðferðis fullt af varahlutum og helst fleiri en eitt flygildi.
Flygildið þarna er að uppistöðu þetta hér fjögurra spaða frá Multiwiicopter, með ýmsum endurbótum, APM 2.6 stýribúnaði frá 3DR, 2ja ása rambaldi frá Mutiwiicopter, Black edition GoPro 3+ (að mig minnir), Hitec Aurora stýring.
Final Cut Pro X notað við myndvinnslutilraunirnar.
Viðbót:
Annað skemmtilegt úr sömu ferð. Takið eftir litamuninum miðað við fyrra sýnishornið.