Skrokkurinn:
Skrokkurinn er settur saman á grind, eins og Nick Ziroli er frægur fyrir. Grindin er staðsett þannig að fremsta rifið, eldveggurinn, stendur útaf og niður.
Öll önnur skrokkrif eru skorin í tvennt, efri helmingurinn settur á grindina og balsaklæðning límd á. Síðan er grindin losuð upp og neðri helmingur rifjanna og klæðning sett á.
Sum rifjanna eru þannig að taka þrf spor í grindina. Þá er gott að eiga beittan hníf og gott sporjárn.
Hér eru aðal rifin í kringum flugklefann sett á. Fremra rifið, rif C, er sátt á með halla. Ég útbjó réttskeiðar fyrir það og festi rifið niður við réttan halla. Önnur rif eru lóðrétt.
Hér eru öll rifin komin á og byrjað að líma 3mm balsaklæðningu. Klæðningin heldur líka við rifin.
Þá er komið að því að festa vængina við skrokkinn. Á teikningunni er sýnd vængfesting frá Sig, sem er um 3 sm á hæð. Til að hægt sé að nota hana þurfa rif C og D að vera svo breið efst að það er alls ekki rétt. Ég mældi bitann efst í flugvélinni og komst að því að ég gæti komist af með 8mm rör ofarlega á rifinu. Ég breytti rifjunum og setti rörið á þau. Ég mun seinna hylja rörið, þannig að það mun ekki sjást.
Rif með vængprófílinn koma á rif C og D og síðan kemur vængurinn upp á.
Krossviðartungur munu síðan halda vængjunum á og stýfurnar sjá til þess að þeir fari ekki neitt.
Nú er mikilvægt að aðhalli vængjann sé réttur. Leiðbeiningarnar tala um 1° á hvorn væng. Ég á lítið hallamál með stillanlegri bólu. Ég stillti hana á 1° og lyfti svo vængendanum þar til loftbólan var í miðju. Hin loftbólan sýnir svo ekki er um vilst að það er halli á vængnum.
Nú er hægt að líma rörin við vængbitana. Ég blandaði
skornum glerfíber frá Fighter Aces við epoxý svo að úr varð þykk drulla og makaði henni á rörin og bitana. Þessi blanda harðnar síðan í klett-harða steypu sem fer ekkert við eðlilega notkun.
Seinna setti ég blöndu af epoxý og skornum trefum á krossviðarplötur sem taka við tungunum og neðan á rörin.
Nú er ég búinn að gefa skýrslu um það sem ég var búinn að gera síðan í júní, þegar fyrsta myndin var tekin. Það er líklegt að næstu innslög verði með meira millibili en þessi sem búin eru.
Næst: skrokkurinn plankaður.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.
Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði