Módelið er hannað af Rüdiger Götz, einum af ritstjórum þýska tímaritsins Modell, sem er gefið út af Neckar Verlag (http://www.webshop.neckar-verlag.de/). Þeir eru með nokkuð gott úrval teikninga, svo það er vel þess virði að kíkja á síðuna hjá þeim þó ekki sé til annars en að hressa pínulítið við þýskukunnáttuna. Ég get líka mælt með þessu tímariti.
Hér eru staðtölur um módelið eins og þær koma fyrir á vefsíðunni hér fyrir ofan:
Vænghaf 4550 mm
Lengd 2030 mm
Þyngd ca. 9000 g
Vængprófíll FX 60-126
Vængflötur 143 dm²
Vænghleðsla 60 g/dm²
Fyrirmyndin sem ég ætla að nota (ég vel mér alltaf fyrirmyndir um leið og módel) var sviffluga sem Þjóðverjar komu með til landsins í júlí 1939. Þeir komu hingað bæði 1938 og 1939 til að kenna íslenskum flugáhugamönnum að fljúga (og hugsanlega eitthvað annað) og höfðu með sér mikinn og flottan búnað, m.a. Klemm L25 sem enn er til og líklega á leiðinni á flugsafnið á Akureyri, Minimoa og tvær Grunau Baby.
Sú sem ég ætla að nota var flutt hingað glæný og ónotuð með aðeins eitt flug í logginu fyrir utan skoðunarflugið. Loggbókin og skoðunarskírteinin eru til sýnis á flugsafninu á Akureyri. Hér er mynd sem var tekin á Melgerðismelum 20. ágúst 1939 þegar haldinn var flugdagur þar.

Lemgst til vinstri er Grunau Baby vélin sem ég ætla að gera, með skráningarnúmerið D-4-874. Við hliðina á henni er Grunau 9 rennifluga sem var smíðuð á Akureyri 1938 og er enn til í flughæfu ástandi á flugsafninu. Lengst til hægri er síðan Klemm L25 sem Þjóðverjar komu með sumarið 1938. Hann hafði þá skráningarnúmerið D-ESUX, en hann fékk síðan skráninguna TF-SUX þegar hópur íslendinga keyptu hann. Þessi Klemm er enn til og næstumþví í flughæfu standi.
Ég set meira inn þegar ég byrja að smíða (ef einhver nennir að lesa þetta). Ég er nýbúinn að fá útskorna hluta módelsins frá fyrirtæki í Þýskalandi sem sker þá út með CNC fræsara (http://www.cnc-modellbautechnik.de/) og er rétt í þessu að losa bútana af brettunum og skoða hvað ég er með í höndunum.