Það tók dálítið á að vera aðeins 4 keppendur framan af þar sem gangan í lendinguna er um smá spöl af vel grýttum slóðum og yfir mosavaxnar breiður þannig að við tókum smá hlé eftir 5 hverju umferð. Skrefamælirinn sýndi um 13 km eftir daginn svo það er verið að hvíla lúin bein á meðan þessar línur eru ritaðar. Mótið gekk að mestu áfallalaust fyrir sig en Elli var óheppinn og missti hallastýri á fyrri vélinni sinni og svo tók sú seinni upp á því að brjóta stélbómuna í lendingu í þrettándu umferð á eldri viðgerð. Algjör bömmer fyrir kallinn en hann tók þessu af stóískri ró eins og hans er von og vísa en við þetta styttist tíminn á milli göngutúra í lendinguna hjá hinum keppendunum.
Rétt rúmlega fimm náðum við að klára 20. umferðina og með því lauk mótinu að þessu sinni. Formleg verðlaunaafhending fer svo fram annað kvöld og við tekur hátíðarkvöldverður og almennt fjör fram eftir nóttu.

Maggi var duglegur á linsunni og skv. nýjustu tölum bíða um 118GB af vídeóum og 2000 myndir birtingar þannig að það verður nóg að gera á komandi rigningardögum að fara í gegnum allt efnið.
Það væri erfitt, ef ekki ómögulegt að standa í þessu, ef ekki væri fyrir aðstoð góðra manna. Því fá Gústi, Gunni, Gunni, Jón og Maggi okkar bestu þakkir fyrir alla aðstoðina í dag. Ómetanlegt að eiga svona félaga að þegar kemur að því að halda svona viðburði.
Þrátt fyrir dræma þátttöku þetta árið eru 3 keppendur (næstum 4) nú þegar búnir að melda sig í næsta Iceland Open F3F en það fer fram á svipuðum tíma árið 2027.
Mynd af aðstoðarmönnum ásamt keppendum, í nýju fínu keppnisvestunum frá MKS.
Svo verðum við að njóta á meðan gefur en þessi árangur skilaði okkur ofarlega á heimslistann, alla vega fram að næstu mótum.
