Síða 1 af 1

Áramótaraus 2020

Póstað: 31. Des. 2020 00:04:21
eftir Sverrir
Þá er enn eitt módelárið að baki og þó Covid ástandið hafi vissulega litið það að miklu leyti þá er ótrúlegt að horfa til baka og sjá hversu mikið var flogið á árinu þrátt fyrir allt. Eins og fyrr þá voru Innherjar önnum kafnir alla sunnudaga í innifluginu, alla vega fram í mars þegar öllu var skellt í lás.

Sumir voru auðvitað út á velli hvað sem sólargangi og snjó leið og ekkert nema gott eitt um það að segja! Aðalfundir flestra flugmódelfélagana voru haldnir á tímabilinu janúar til mars og bar ekki til mikilla tíðinda umfram hefðbundin aðalfundarstörf. Samkomur voru á sínum stað yfir sumarið á milli Covid bylgja og var fjöldi þeirra í ár nokkuð yfir meðallagi. Gaman er frá því að segja að í fyrsta skipti í langan tíma tókst að halda Íslandsmeistaramót bæði í hangi og hástarti á sama árinu.

Þann 21. maí var vormótið í F3F haldið á nýjum stað í Þorlákshöfn og lukkaðist það ljómandi vel þrátt fyrir minni háttar óhöpp hjá nokkrum keppendum. Fimm keppendur mættu til leiks og skemmtu sér vel við frábærar aðstæður. Eftir sex umferðir fór svo að í 1. sæti með 5000 stig var Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 4667 Erlingur Erlingsson og í 3. sæti með 3889 stig Jón V. Pétursson.

1. júní var svo komið að Kríumótinu en það var haldið á Sandskeiði eins og síðustu ár. Að þessu sinni voru sjö keppendur mættir til leiks og skemmtu þeir sér vel þó augljóslega væru þeir allir að koma undan vetri. Böðvar Guðmundsson tók svo saman smá klippu frá mótinu. Þegar upp var staðið fór svo að í 1. sæti með 3749 stig var Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 3674 stig var Rafn Thorarensen og í 3. sæti með 3669 stig var Guðjón Halldórsson.
2. júní var svo flotflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja haldin á Seltjörn en fimm flotvélar mættu til leiks þó einungis fjórar hafi hafið sig til flugs að þessu sinni. Formaðurinn bauð upp á Covid veitingar sem hurfu eins og dögg fyrir sólu. Smáskalamótið var svo haldið á Hamranesi þann 25. júní og voru allir helstu smáskalalávarðar landsins saman komnar til að sýna sig og sjá aðra.

Þann 11. júlí var haldið hástartmót á Sandskeiði og var fínasta þátttaka en 5 keppendur mættu til leiks. Leikar fóru svo að í 1. sæti var Böðvar Guðmundsson með 4000 stig, í 2. sæti Guðjón Halldórsson með 2966 stig og í 3. sæti Steinþór Agnarsson með 2554 stig.
Draugahlíðar komu svo sterkar inn 18. júlíi en þá var haldið Júlímótið í F3F í norðurhlíð þeirra og var vindur alveg upp í 23 m/s. Skemmst er frá því að segja að þarna voru nokkrir af hröðustu tímum sumarsins, og sá hraðasti, flognir í topp skilyrðum, smá afföll urðu í lendingum en flestar, ef ekki allar svifflugurnar hafa flogið aftur eftir þetta. Eftir sex umferðir fóru leikar svo að í 1. sæti með 4978 stig var Erlingur Erlingsson, í 2. sæti með 4830 stig Sverrir Gunnlaugsson og í 3. sæti með 4313 stig Böðvar Guðmundsson.
Undir lok mánaðar eða þann 25. júlí var svo að Stríðsfuglaflugkomu Einars Páls sem haldin var á sínum stað á Tungubakkaflugvelli. Flugkoman var ekki mjög fjölmenn að þessu sinni en þó mætti gestur alla leið að norðan og flaug nokkur flug við góðar undirtektir.

Þann 8. ágúst var ekki haldin flugkoma á Melgerðismelum en þannig hittist á að þó nokkur fjöldi flugmódelmanna átti leið þar um og ákvað að taka flugið sér og öðrum til skemmtunar. 15. ágúst var svo komið að stórskalaflugkomu Einars Páls sem var að venju haldin á Tungubökkum en að þessu sinni hófst dagurinn á bleytu og lágum skýjum en í kringum hádegið reif Kári það af sér og var mikið flogið fram eftir degi. Íslandsmeistaramótið í hástarti, F3B, var svo haldið á Sandskeiði 22. ágúst í brakandi veðurblíðu. Eftir fjórar umferðir voru úrslitin sem hér segir, í 1. sæti með 5793 stig Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 4904 stig var Guðjón Halldórsson og í 3. sæti með 4596 stig var Jón V. Pétursson.

Í september, nánara tiltekið þann 12., var svo komið að Íslandsmeistaramótinu í hangi, F3F, sem að þessu sinni var haldið í Kömbunum. Eftir níu umferðir urðu úrslitin þau að í 1. sæti með 7814 stig var Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 7726 stig Erlingur Erlingsson og í 3. sæti með 7223 stig varð Guðjón Halldórsson.

Saman mynduðu þessi 3 hangmót sumarsins svo Meistaramótsröðina 2020 og þegar upp var staðið fóru leikar svo, 1. sæti með 2970 stig Sverrir Gunnlaugsson, 2. sæti með 2915 stig Erlingur Erlingsson og 3. sæti með 1767 stig Guðjón Halldórsson.

Innherjar hófu sig svo aftur til flugs í byrjun október en náðu ekki nema örfáum tímum í haust á milli Covid læsinga.

2015 urðu þau tímamót í sögu Fréttavefsins að gefið var út á prenti tímarit Fréttavefsins, Flugmódelárið, með því helsta sem gerðist á árinu. Þökk sé góðum viðtökum hefur orðið framhald á og leit sjötta tímarit Fréttavefsins dagsins ljós í lok nóvember. Tímaritið er einnig aðgengilegt á rafrænu formi svo mögulegt er að skoða það á spjaldtölvum og öðrum nútíma tækjum og endilega dreifið því sem víðast!

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum.

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2019 annálinn en 2020 útgáfan fer í vinnslu á næsta ári og verður frumsýnd við gott tækifæri.