Áramótaraus 2021

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11420
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Áramótaraus 2021

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt módelárið undir Covid að baki og þó ástandið hafi vissulega litað það að miklu leyti þá er ótrúlegt að horfa til baka og sjá hversu mikið var flogið þrátt fyrir allt. Innherjar tóku því rólega á árinu þó eitthvað hafi náðst af tímum í byrjun árs. Einnig skalf jörð mikið við Arnarvöll og endaði það með því að sprungur, nokkuð djúpar, opnuðust í næsta nágrenni vallarins og streymdi að múgur og margmenni.

Sumir voru auðvitað út á velli hvað sem sólargangi og snjó leið og ekkert nema gott eitt um það að segja! Ekki bar mikið á aðalfundastarfi flugmódelfélaganna en eitthvað þó. Samkomur voru á sínum stað yfir sumarið í Covid lægð sem þá geisaði og gerði mönnum auðveldara fyrir að flakka um landið.

Þann 25. maí var svo Flotflugkoma FMS haldin á Seltjörn og tókst hún svo vel til að skipulögð voru 3 önnur flotflugkvöld sem haldin voru við góðar undirtektir næstu mánuði.

10. júlí var svo komið að Júlímótinu í F3F sem haldið var í Kömbunum í góðum aðstæðum, 10-11 m/s og nokkuð stöðugur vindur allan daginn. Keppnin gekk vel fyrir sig og urðu engin óhöpp á mönnum né vélum fyrir utan einstaka rispur eins og gengur og gerist. Eins og árinu áður voru það 5 keppendur sem mættu til leiks á júlímótið en að auki komu 3 aðstoðarmenn sem létti talsvert undir. Upplýsingaskjárinn stóð sig líka mjög vel í frumraun sinni og voru viðstaddir sammála um að hann væri til mikilla bóta fyrir þá sem eru að fylgjast með þar sem það heyrist ekki alltaf svo vel í rokinu á hvaða tíma flugmennirnir eru að fljúga á auk þess sem hann birtir upplýsingar um næstu flugmenn og vind. Eftir níu umferðir fór svo að í 1. sæti með 7991 stig var Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 7610 Erlingur Erlingsson og í 3. sæti með 6997 stig Böðvar Guðmundsson.

Undir lok mánaðar eða þann 24. júlí var svo komið að Stríðsfuglaflugkomu Einars Páls sem haldin var á sínum stað á Tungubakkaflugvelli. Flugkoman var ekki mjög fjölmenn að þessu sinni en einstaklega góðmenn. Þann 7. ágúst var haldin flugkoma á Melgerðismelum og var mikið flogið í góðu veðri. 14. ágúst var svo komið að stórskalaflugkomu Einars Páls sem var að venju haldin á Tungubökkum en að þessu sinni hófst dagurinn á bleytu og lágum skýjum en í kringum hádegið reif Kári það af sér og var mikið flogið fram eftir degi.

21. ágúst var svo komið að Íslandsmeistaramótinu í hangi, F3F, sem að þessu sinni var haldið í Kömbunum. Eftir fimmtán umferðir urðu úrslitin þau að í 1. sæti með 12912 stig var Sverrir Gunnlaugsson, í 2. sæti með 12426 stig Erlingur Erlingsson og í 3. sæti með 7223 stig varð Guðjón Halldórsson.

2015 urðu þau tímamót í sögu Fréttavefsins að gefið var út á prenti tímarit Fréttavefsins, Flugmódelárið, með því helsta sem gerðist á árinu. Þökk sé góðum viðtökum hefur orðið framhald á og leit sjöunda tímarit Fréttavefsins dagsins ljós í byrjun desember. Tímaritið er einnig aðgengilegt á rafrænu formi svo mögulegt er að skoða það á spjaldtölvum og öðrum nútíma tækjum og endilega dreifið því sem víðast!

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum.

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2020 annálinn en 2021 útgáfan fer í vinnslu á næsta ári og verður frumsýnd við gott tækifæri.

Icelandic Volcano Yeti
Svara