Áramótaraus 2019

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11420
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: Áramótaraus 2019

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt módelárið að baki og sumarið sunnan heiða eitt það besta í langan tíma og það er ótrúlegt að horfa til baka og sjá hversu mikið var flogið á árinu. Sem dæmi má nefna að á Arnarvelli var skráður flugdagur annan hvern dag að meðaltali á árinu sem er að líða!

Eins og fyrr þá voru Innherjar önnum kafnir alla sunnudaga í innifluginu og sást það á flugi margra eftir veturinn hvað menn koma klárir í slaginn út á völl með hækkandi sól. Sumir voru auðvitað út á velli hvað sem sólargangi og snjó leið og ekkert nema gott eitt um það að segja!

Aðalfundir flugmódelfélagana voru haldnir á tímabilinu janúar til mars og bar ekki til mikilla tíðinda umfram hefðbundin aðalfundarstörf. Samkomur voru á sínum stað og var fjöldi þeirra í ár nokkuð yfir meðallagi.

Í fyrsta sinn í langan tíma náðist að halda nokkur hangmót en betur hefur gengið með hástartsmótin á seinni árum. Hraðflugskeppni var einnig haldin eftir langt hlé og voru 4 mót haldin á árinu en ekki mættu nema 5 flugmenn til leiks sem eru viss vonbrigði. Vonandi taka fleiri þátt næst þegar blásið verður til leiks!

Þann 4. maí var F3F vormótið haldið á Bleikisteinshálsi suður og mættu 7 flugmenn til leiks. Böðvar Guðmundsson tók saman vídeó frá mótinu sem má sjá hér neðar í póstinum. Þann 16. maí var svo komið að fyrsta hraðflugsmótinu sem haldið var á Arnarvelli en þar mættu 4 keppendur til leiks.

Þann 19. júní var svo komið að öðru hraðflugsmótinu sem haldið var á Hamranesi en þar mættu 5 keppendur til leiks. Þann 20. júní var svo Smáskalamótið haldið á Hamranesi þó ekki hafi komið smáskalaveður.

Þann 1. júlí var F3F sumarmótið haldið á Bleikisteinshálsi norður og mættu 8 flugmenn til leiks, á fjölmennasta hangmót áratugarins. Þann 9. júlí var svo komið að þriðja hraðflugsmótinu sem haldið var á Arnarvelli en þar mættu 3 keppendur til leiks.

Þann 6. júlí var svo haldið hástartsmót á Sandskeiði og mættu 8 keppendur til leiks sem er með fjölmennari hástartsmótum í langan tíma. Þann 20. júlí var svo haldið Íslandsmeistaramótið í hástarti á Sandskeiði en þar mættu 6 keppendur til leiks. Mótið tók óvenju langan tíma í framkvæmd vegna sífelldra flutninga en þetta hafist að lokum og úrslit urðu sem hér segir, 1.sæti Sverrir Gunnlaugsson, 2.sæti Jón V. Pétursson og 3.sæti Böðvar Guðmundsson.

Ekkert varð úr stríðsskalaflugkomunni vegna veðurs en 7. ágúst var komið að Piper Cub flugkomunni og þrátt fyrir tveggja stafa hitatölur var óneitanlega hrollur í mönnum í kvöldsólinni. Þann 10. ágúst var svo komið að flugkomu FMFA á Melgerðismelum og þrátt fyrir kulda skemmtu menn sér konunglega og mikið var flogið og spjallað yfir daginn og í grillinu um kvöldið.

Þann 14. ágúst fór svo fjórða hraðflugsmótið fram á Hamranesi en þar mættu 4 keppendur til leiks. Saman mynduðu þessi 4 hraðflugsmót Hraðflugsmótaröðina 2019 og þegar upp var staðið fóru leikar svo, 1. sæti með 8000 stig Jón V. Pétursson, 2. sæti með 7771 stig Lúðvík Sigurðsson og 3. sæti með 7252 stig Eysteinn H. Sigursteinsson. Þann 17. ágúst var svo komið að Stórskalaflugkomu Einars Páls en vegna mikillar yfirferðar á logninu varð ekki mikið úr flugum þó nokkur hafi verið flogin.

Þann 23. ágúst var haldið Íslandsm, afsakið hangmótið mikla á Bleikisteinshálsi suður í bongóblíðu þar sem 5 keppendur mættu til leiks. Saman mynduðu þessi 3 hangmót svo Meistaramótsröðina 2019 og þegar upp var staðið fóru leikar svo, 1. sæti með 2984 stig Sverrir Gunnlaugsson, 2. sæti með 2918 stig Guðjón Halldórsson og 3. sæti með 2532 stig Erlingur Erlingsson.

Innherjar hófu sig svo aftur til flugs í byrjun október og munu vera að út apríl 2020.

2015 urðu þau tímamót í sögu Fréttavefsins að gefið var út á prenti tímarit Fréttavefsins, Flugmódelárið, með því helsta sem gerðist á árinu. Þökk sé góðum viðtökum hefur orðið framhald á og leit fimmta tímarit Fréttavefsins dagsins ljós í byrjun desember. Tímaritið er einnig aðgengilegt á rafrænu formi svo mögulegt er að skoða það á spjaldtölvum og öðrum nútíma tækjum og endilega dreifið því sem víðast!

Árið gekk að mestu stórslysalaust fyrir sig en eitthvað tjón varð á vélum seinni hluta sumars.

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.


Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum.

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2018 annálinn en 2019 útgáfan fer í vinnslu strax í byrjun næsta árs og verður frumsýnd á aðalfundi Flugmódelfélags Suðurnesja 2020.



Vídeó frá F3F vormótinu sem Böðvar Guðmundsson gerði.

Icelandic Volcano Yeti
Svara