Cessna 140 - TF-ÁST

Sýnið hvað þið eruð að smíða eða setja saman
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Mig hefur lengi langað til að gera módel af Cessnu, næstum alveg sama hvaða týpu. Reyndar setti ég saman Cessna 182 fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna og ég var í mörg ár með Cessna Birddog á, eða nálægt smíðabekknum mínum þangað til Mummi tók við honum og er næstum búinn að klára hann.

Ég á teikningar af ýmsum Cessnum og sú sem er hvað mest spennandi er Cessna 150 í 33% skala frá Wendel Hostettler. Hún er STÓR -- kannski of stór, svo ég hef eiginlega bara aldrei gert meira en stúderað teikninguna. Ég er nefnilega farinn að efast um að ég hafi pláss fyrir fleiri módel í 1/3 skala.

Þá rakst ég á teikningu af Cessna 140 í 1/4 skala. Þessi teikning var gefin út af RCM í ágúst 1992 (RCMplans ref:1123) Hönnuðurinn er Burnis Fields og módelið er sagt vera með 92 tommu vænghaf, eða um 234 sm. Þetta er alveg sæmilega stórt, svo ég sótti teikninguna og lét prenta hana út fyrir mig í Stíl á Akureyri.

Ekki skemmir heldur fyrir að Gestur Einar Jónasson safnvörður í Flugsafni Íslands og góður vinur minn, er skráður fyrir svona flugvél og að ég hef ótakmarkaðan aðgang að henni á safninu hvenær sem ég vil eða þarf.

Mynd
ljósmyndari: Baldur Sveinsson

Ég byrjaði smíðina fyrir nokkrum vikum og var í vafa hvort ég ætti að setja smíðaþráð hérna inn, en þar sem ég er búinn að gera fullt af mistökum, þá sýnist mér að einhver kunni að geta lært af þeim. Næst verður skrifað um stélið.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Það fyrsta sem ég gerði var auðvitað að skera út eins mörg af rifjunum og ég gat. Sum þeirra eru þannig að maður þarf að samlíma tvær 3mm plötur til að fá 6mm "krossvið". Ég gerði þetta og setti fullt af múrsteinum ofan á til að fergja þetta niður. Þá kom Mummi!

Mynd
Fyrstu handtök og myndin tekin 4. júní 2016

Stélið:

Leiðbeiningar með teikningunni segja að maður skuli búa til frambrúnir á stélið með 0,8mm krossviðsræmum sem eru límdar saman til að fá ógurlega sterka brún. Ég átti ekki 0,8mm krossvið, svo ég bjó brúnirnar til úr 1mm balsa. Mér datt í hug að þetta yrði líkast til alveg nógu sterkt vegna þess að ég ætla að klæða stélið með glerfíber.

Mynd

Það er asuðvelt að sveigja 1mm balsa utan um mót sem sagað er úr afgangs-spónaplötu.

Hér er það sem þarf í stélflötinn. Ég bætti við endunum: þeir eru ekki á teikningunni. Ég ímyndaði mér að brúnin, sem ég var búinn að búa til áður, myndi ekki fylgja útlínunni nákvæmlega.

Mynd

framan á afturbrúnina á að líma 3mm furulista, en ég sá ekki nógu snemma á teikningunni að þetta ætti að vera fura og notaði bara balsa. Ef stélið brotnar af, þá vitið þið af hverju.

Mynd

Frambrúnin er 3x3mm balsalisti og rifin eru ekki formuð fyrirfram. Ég gerði 3mm rauf í miðjuna á hverju rifi og lét frambrúnina liggja þar í á meðan ég límdi.

Mynd

Þá er grindin í stélfletinum svona. Endinn sem ég bjó til hjálpar mikið við að fá rétt lag á stélið.

Mynd

Nú er hægt að pússa rétt form á rifin, mjókka þau niður að frambrúninni. Þarna er ég búinn að setja saman og pússa skinnið sem kemur ofan á stélflötinn.

Mynd

Og hérna er ég búinn að líma skinnið niður. Stélflöturinn liggur á rifjunum, þannig að hann helst beinn og réttur á meðan límið a efra skinninu harðnar.

Mynd

Stélkamburinn er gerður eins:

Mynd
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Árni H
Póstar: 1585
Skráður: 7. Okt. 2004 10:54:00

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Árni H »

Aldrei of seint fyrir TF-ÁST eins og Mannakorn söng um árið ef ég man rétt :)
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11427
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Sverrir »

Glæsilegt!

Um að gera að deila sem flestum verkefnum með okkur. :)
Icelandic Volcano Yeti
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Ég ætlaði að vera svaka sniðugur og smíða stýrin úr nútímalegum efnum, pressuðum glerfíber, G-10. Ég ákvað að gera frambrún stýranna úr 10mm rúnnlista, líma balsaprik aftan á hann, setja rif og afturbrún og síðan klæða með 0,6mm G-10.

Hér er frambrúnin aftan á stélfletinum með balsalistann aftan á. Robart lamir á réttum stöðum.

Mynd

Hér eru rif og afturbrún komin á. G-10 plöturnar tilbúnar. Það er fjandanum erfiðara að skera þær, þarf helst demanthjól í dremlinum. Ef maður asnast með þetta efni í bandsögina, þá er blaðið ónýtt um leið.

Mynd

Hér eru búið að líma G-10 plöturnar á stélið. Þetta er gífurlega flott, þó ég segi sjálfur frá.

Mynd

Mér datt í hug að skella stýrinu á vogina, aðallega vegna þess að mér fannst það síga smávegis í. Kom í ljós að það var alveg heil 162 grömm.

Mynd

Ég ákvað að prófa að setja saman léttara stél, skar út miðju í laginu eins og stýrin úr 0,6mm krossviði og límdi 6mm balsa ofan og neðan. Ég setti síðan stýrin og miðjustöngina á vogina og sú sýndi 154 grömm. Þá átti ég eftir að hefla og pússa megnið af efninu burt.

Mynd

Ég kom mér upp aðstöðu til að pússa stýrin niður í spíss: setti spýtukubb að glerplötunni sem er á borðinu og hafði svo smá sprek til að halda við. Svo hamaðist ég á stýrinu með balsahefli og grófum sandpappír þar til farið var að sjást í krossviðarmiðjuna í afturbrúninni.

Mynd

Ég ákvað að gera innri endana á stýrunum eins og er á flugvélinni: álklæðning sem ekki rúnnast utan um stýrið. Það er gert með því að líma krossviðarbúta í laginu eins og endinn á stýrið.

Mynd

Krossviðurinn er felldur í balsann með því að pússa með þar til gerðum kubbi eins og hér sést.

Mynd

Þá fær maður spor sem krossviðurinn límist í.

Mynd

Hér er svo stélið í allri sinni dýrð.

Mynd

Næst: glerfíber og grunnur.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Næsta skref er að húða stélið með glerfíber og grunna og pússa svo að út komi slétt og fellt yfirborð. Ég nota 50 gramma glerfíber dúk og Z-Poxy epoxýkvoðu. Glerfíberinn er settur á með venjulegri aðferð: dúkurinn er klipptur örlítið stærri en þarf og kvoðan er dregin á með krítarkorti.

Mynd

Þegar búið er að setja tvær umferðir af kvoðu er stélið tilbúið undir næsta skref: að gera það slétt og fínt.

Mynd

Fyrsta skrefið í því að gera stélið slétt er að sprauta helling af fylligrunni á það. Það gerir ekkert til þó hann renni til og það er betra að hafa of mikið en of lítið. Þessi fyrsta umferð af grunni er til þess gerð að fylla göt og holur sem kunna að leynast í glerinu.

Mynd

Því miður kom í ljós að grunnurinn sem ég notaði var harður og erfitt að pússa hann. Mér finnst yfirleitt ekki gaman að pússa, og ef grunnurinn er erfiður, þá verður þetta miklu leiðinlegra. Þetta getur líka verið frekar subbulegt, en ef maður notar úðabrúsa með vatni og fullt af bréfþurrkum, þá er hægt að takmarka sullið. Það er líka sniðugt að skipta ört um sandpappír.

Mynd

Þegar fyrsta pússiumferðin er búin, þá er hægt að fara yfir og finna allar misfellur. Þær eru fylltar með góðu spartli: P38. Það fyllir vel og pússast ágætlega.

Mynd

Næst er þunn umferð af grunni -- ég notaði þunnan ryðvarnargrunn í þetta sinn, ekki fylligrunn.

Mynd

Þessi grunnur sýnir fleiri misfellur og nú notar maður akrýlspartl til að fylla. Það pússast sérlega auðveldlega, þannig að það er ekkert sem mælir gegn því að maður noti það óspart.

Mynd

Og hér er svo stélið tilbúið fyrir yfirborðsmeðferðina: að setja plötuskil og línur, hnoð og annan óþarfa.

Mynd

Ég nota aðferð sem Mummi fullkomnaði á Borðdúknum: merkja plötuskil með plastlímbandi og nota svo akrýl fylliefni til að fylla að límbandinu. Tvær þunnar umferðir af fylliefninu duga oftast til að gefa þá efnisþykkt sem maður þarf. Ef maður reynir að fylla allt í einni umferð, þá þarf maður að bíða til fimmtudags eftir að það þorni. Lág plötuskil eru gerð með einföldu límbandi, en há eru gerð með tvöföldu eða jafnvel þreföldu límbandi.

Mynd

Næst: Vængirnir
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Kjartan
Póstar: 83
Skráður: 22. Nóv. 2008 01:44:20

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Kjartan »

Þett er flott, verður gaman að fylgjast með.
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Vængirnir:

Vængirnir eru að flestu leiti nokkuð venjulegir, en vegna breytinga sem ég geri á módelinu, þá sleppi ég algerlega vængendunum. Maður byrjar vængsmíðina með því að setja saman aftari bitann. Hann er gerður úr 6mm furulistum og 6mm balsa.

Mynd

Rifin eru þrædd upp á þennan aftari bita og raðað í rétta fjarlægð hvert frá öðru ofan á teikningunni.

Mynd

Til að fá vænginn réttan þarf að búa til nokkra kubba sem eru settir undir aftari bitann þannig að rifin geti sets á neðri frambitann. Þetta lítur svolítið annkanalega út, en virkar fínt. Klæðningarefnið, 2,5mm balsi, er líka sett undir neðri frambitann svo rifin geti sest vel niður á hann.

Mynd

Hérna er ég búinn að líma rótarrifið og næstu rif fylgja fljótt á eftir. Teikningin gerir ráð fyrir að vefir séu settir aftan á frambitana tvo á milli rifjann, en vegna þess að bitarnir snúa ekki eins í rifjunum, þá er límflöturinn alveg í lágmarki. Ég útbjó vefina því á milli bitanna, þannig að þeir skorðast á milli bitanna. Þetta virkar fínt og vefirnir límast betur.

Mynd

Ég ákvað að prófa að gera vængenda úr krossviði eins og sýnt er á teikningunni, en þar sem ég átti ekki 0,8mm krossvið, þá notaði ég bara 0,6mm í staðinn. Það er heilmikil vinna að skera allar ræmurnar (10 ræmur á hvorn væng), en þær límast auðveldlega sama og út kemur verulega sterkur bogi. Svo kemur bara í ljós hvort ég nota þetta.

Mynd

Innan í plássið sem flaparnir festast í er settur balsi, en hann þarf að vera boginn, svo ég bleytti balsaplötu vel og vandlega og festi hana síðan á rörbút með smá límbandi. Þegar þetta þornar, þá er auðvelt að líma það á sinn stað.

Mynd

Og hérna er svo vinstri vængurinn að mestu kominn. Ég get ekki klárað hann fyrr en skrokkurinn er byrjaður að skríða saman, því ýmislegt í sambandi við vængfestingarnar þarf að koma í með vænginn og skrokkinn saman.

Mynd

Næst: við byrjum á skrokknum.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Skrokkurinn:

Skrokkurinn er settur saman á grind, eins og Nick Ziroli er frægur fyrir. Grindin er staðsett þannig að fremsta rifið, eldveggurinn, stendur útaf og niður.

Mynd

Öll önnur skrokkrif eru skorin í tvennt, efri helmingurinn settur á grindina og balsaklæðning límd á. Síðan er grindin losuð upp og neðri helmingur rifjanna og klæðning sett á.

Sum rifjanna eru þannig að taka þrf spor í grindina. Þá er gott að eiga beittan hníf og gott sporjárn.

Mynd

Hér eru aðal rifin í kringum flugklefann sett á. Fremra rifið, rif C, er sátt á með halla. Ég útbjó réttskeiðar fyrir það og festi rifið niður við réttan halla. Önnur rif eru lóðrétt.

Mynd

Hér eru öll rifin komin á og byrjað að líma 3mm balsaklæðningu. Klæðningin heldur líka við rifin.

Mynd

Þá er komið að því að festa vængina við skrokkinn. Á teikningunni er sýnd vængfesting frá Sig, sem er um 3 sm á hæð. Til að hægt sé að nota hana þurfa rif C og D að vera svo breið efst að það er alls ekki rétt. Ég mældi bitann efst í flugvélinni og komst að því að ég gæti komist af með 8mm rör ofarlega á rifinu. Ég breytti rifjunum og setti rörið á þau. Ég mun seinna hylja rörið, þannig að það mun ekki sjást.

Mynd

Rif með vængprófílinn koma á rif C og D og síðan kemur vængurinn upp á.

Mynd

Krossviðartungur munu síðan halda vængjunum á og stýfurnar sjá til þess að þeir fari ekki neitt.

Mynd

Nú er mikilvægt að aðhalli vængjann sé réttur. Leiðbeiningarnar tala um 1° á hvorn væng. Ég á lítið hallamál með stillanlegri bólu. Ég stillti hana á 1° og lyfti svo vængendanum þar til loftbólan var í miðju. Hin loftbólan sýnir svo ekki er um vilst að það er halli á vængnum.

Mynd

Nú er hægt að líma rörin við vængbitana. Ég blandaði skornum glerfíber frá Fighter Aces við epoxý svo að úr varð þykk drulla og makaði henni á rörin og bitana. Þessi blanda harðnar síðan í klett-harða steypu sem fer ekkert við eðlilega notkun.

Mynd

Seinna setti ég blöndu af epoxý og skornum trefum á krossviðarplötur sem taka við tungunum og neðan á rörin.

Mynd

Nú er ég búinn að gefa skýrslu um það sem ég var búinn að gera síðan í júní, þegar fyrsta myndin var tekin. Það er líklegt að næstu innslög verði með meira millibili en þessi sem búin eru.

Næst: skrokkurinn plankaður.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Passamynd
Gaui
Póstar: 3639
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Cessna 140 - TF-ÁST

Póstur eftir Gaui »

Það er ekkert spennandi að planka skrokk. Ég þurfti, að vísu, að stilla stélfletinum á sinn stað um leið og klæðningin var komin upp fyrir þar sem hann á að sitja, því að síðan þarf klæðningin að leggjast að honum að ofan:

Mynd

Eftir það var þetta bara spurning um að leggja plankana til skiptis hægra og vinstra megin til að það myndist ekki sveigja í skrokknum. Ég ákvað að reyna að leggja servó vírana fyrir halla stýrin og flapsana núna, vegna þess að eftir að skrokkurinn er full plankaður, þá er ekki minnsti möguleiki að koma þein inn í vængferinguna. Vírarnir munu síðan liggja niður skrokkinn fyrir aftan rif D og niður í móttakarann sem verður staðsettur í farangursrýminu fyrir aftan sætin.

Mynd

Og hér er svo að lokum smá sýn á skrokkinn framan frá.

Mynd

Næst: byrjað að setja neðri hlutann á skrokkinn.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Svara