Skrapp á Pálsvöllinn snemma í morgun í þessu fína veðri. Tók með mér gamla Typhoon sem er búinn að fá stærri dekk þar sem völlurinn er frekar ósléttur.
Ingi kom svo síðar með rafsvifflugu og tók nokkur flug.
Við sunnanmenn getum ekki kvartað yfir veðrinu í sumar og ekki var siðasta sumar verra þannig að ekki ætlar allt góða veðrið að vera bara fyrir norðan.
Ekið er af Suðurlandsvegi inn á Bláfjallaveg. Vestan eða hægra megin Bláfjallavegar er stór áberandi klettur og hefur þar verið komið fyrir listaverki sem er eins konar viti (hálfviti). Mig minnir að vegarslóðinn liggi frá Bláfjallaveginum að þessum kletti og síðan suður (upp) fyrir hann að Pálsvelli.
"2) Pálsvöllur: Þetta er grasvöllur skammt frá Sandskeiði. Hann hefur aðallega verið notaður fyrir svifflug. Þar er öllum félögum í Þyt frjálst að vera án gjalds. Leiðarvísir: Ekið er í átt til Sandskeiðs og inn á Bláfjallaveg. Á móts við hliðið inn á Sandskeið er beygt af Bláfjallavegi til hægri og ekið eftir vegarslóða um 1 km. (ónákvæmt). Vegurinn liggur fyrst hornrétt á Bláfjallaveginn, en sveigir síðan í átt að skíðasvæðinu. Um það bil miðja vegu er komið að stórum hraunkletti og er haldið áfram eftir veginum um 500 m. þar til komið er að flugvellinum"
Eiður já svæðið hentar jafnt stórum sem litlum modelum enda bara opin víðátta og engar hindranir í aðflugi. Í mínum huga er það undarlegasti gjörningur í sögu sportsins þegar Þytsmenn yfirgáfu Pálsvöll, eftir að hafa eytt tíma og fyrirhöfn í að hreinsa grjót af svæðinu og sá grasfræi, fyrir verri svæði eins og Leirdal Kóp og Geirsnef Rvk sem bæði voru of nálægt byggð enda kvartað undan hávaða frá modelunum í Leirdal og Geirsnefið fór fljótt í hundana. Sjálfum fannst mér skemmtilegast að fara með svifflugurnar á Pálsvöllinn og notaða þá teygju til að koma þeim á loft. Og þó Hamranesflugvöllur hefði verið kominn í gagnið þá vorum við nokkrir félagarnir sem héldum áfram að fljúga mótorvélum á Pálsvellinum, kipptum bara með okkur sláttuvél og þá var komin braut á nokkrum mínútum. En auðvitað lítur völlurinn ekki vel út í dag en það myndi hjálpa mikið ef valtað væri að vori meðan jarðvegurinn er enn blautur. Ef þú hefur áhuga á að koma og skoða svæðið þá getum við hist þar.