Því næst fór Steinþór yfir árið í ræðu formanns og sagði frá því helsta sem gerðist. Jón V. Pétursson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og voru þeir lagðir fram til samþykktar. Samþykkti fundurinn þá eftir stuttar umræður. Þá fór Jón yfir fjárhagsáætlun næsta árs og var ákveðið að hafa óbreytt félagsgjöld en einnig nefndi hann 40 ára afmæli félagsins sem haldið verður upp á með pomp og prakt á næsta ári.
Frímann Frímannsson sagði frá mótum svifflugnefndar á þessu ári, Pétur Hjálmarsson ræddi um Piper Cub flugkomuna og Böðvar Guðmundsson hélt góða tölu um Fjölþrautamótið. Þá var komið að því að kjósa gjaldkera og tvo nýja meðstjórnendur en Jón V. Pétursson, Einar P. Einarsson og Björn G. Leifsson voru komnir á tíma, hlutu þeir rússneska kosningu. Skjöldur Sigurðsson og Guðjón Halldórsson gáfu áfram kost á sér sem endurskoðendur og voru þeir kosnir með yfirburðum.
Þá var komið að stóra málinu sem var kosning um lagabreytingu og eftir miklar umræður milli fundarmanna þá fóru leikar svo að 12 kusu með lagabreytingunni en 8 á móti henni.
Kosning í nefndir fór þannig að Frímann Frímannsson gaf áframhaldandi kost á sér í svifflugnefndina, Pétur Hjálmarsson heldur áfram að sjá um einkabarnið sitt Piper Cub mótið og Böðvar Guðmundsson verður með lendingarkeppni/Fjölþrautamót.
Þá var komið að verðlaunaafhendingu og voru verðlaun veitt fyrir Kríumótið, Íslandsmeistaramótið í F3B/F3F og Fjölþrautamótið
Undir liðnum önnur mál spunust svo umræður um allt milli himins og jarðar, vefmál, Hamranesið, brautirnar, félagsstarfið, lagabreytingar og veitumál svo fátt eitt sé nefnt.
Að því loknu tók Steinþór til máls, þakkaði fundarmönnum fyrir komuna og bauð upp á dýrindis marsipanköku, kaffi og kakó og voru því gerð góð skil ásamt því sem menn spjölluðu saman og horfðu á myndasýningu sem Eysteinn setti saman úr myndum sumarsins.
Flottur fundur og takk fyrir mig!
Hægt er að skoða fleiri myndir í myndasafninu.


Fundarmenn(smellið fyrir stærri útgáfu).


Verðlaunahafar í svifflugsmótum sumarsins(aðrir verðlaunahafar voru ekki viðstaddir).

Eysteinn sigraði Fjölþrautamótið(aðrir verðlaunahafar voru ekki viðstaddir).

Hin heilaga þrenning.


Kakan góða, var Steini lengi að baka?
