31.12.2011 - Áramótaraus

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11427
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2011 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt árið á enda og ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða það helsta sem gerðist á árinu.

Mörg ný og glæsileg módel litu dagsins ljós á árinu og má finna þó nokkuð marga smíðaþræði hér í smíðahorninu tengda þeim. Því miður kvöddu líka nokkur módel á árinu en það er veruleiki sem við búum alltaf við þrátt fyrir að framfarir á tæknisviðinu hafi dregið nokkuð úr afföllum á þessu svið á síðustu árum.

Flugmódelfélag Akureyrar hélt aðalfund sinn í byrjun febrúar og Flugmódelfélag Suðurnesja fylgdi svo rétt á eftir með sinn aðalfund. Engar hallarbyltingar urðu en nýr maður kom inn í stjórn FMFA. Inniflugið kom sterkt inn og var flogið nánast alla sunnudaga eða svona þegar stórhátíðir og veðurofsi voru ekki að trufla.

Veðrið var ekki mikið að trufla okkur í sumar en þó þurfti að slá nokkrum samkomum á frest. Allir klúbbarnir voru með fastar samverustundir á félagsvöllunum í sumar og voru þau kvöld vel sótt af félagsmönnum sem og gestum.

Kríumótið var að venju haldið á Höskuldarvöllum og nú lenti það á 14.maí. Í byrjun júní var haldið í víking á Bickley Jets flugkomuna í Englandi. Lendingarkeppni FMS var haldin þann 7.júní en fáir mættu til leiks þar sem menn voru að láta veðurspánna trufla sig. Þetta var „stærsta“ lendingarkeppni sem haldin hefur verið en keppendur voru á 39%, 33% og 25% vélum.

Helgina 18.-19.júní var svo komið að fyrstu flugkomunni sem haldin hefur verið á Vestfjörðum þegar módelmenn fjölmenntu á Patró International og skemmtu sér þar við módelflug. Vonandi verður leikurinn endurtekinn að ári.

Stærsta flugmódel landsins skipti svo um eigendur á árinu en Steinþór keypti það af Þresti og hóf það sig svo til lofts hjá nýjum flugrekanda þann 8.júlí á Tungubökkum. Var því svo mikið flogið það sem eftir lifði sumars.

Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls var haldin þann 23.júlí en ekki varð mikið úr flugi sökum veðurs en menn eyddu morgninum í módelspjall og skoðanir áður en haldið var í góðan hádegismat fyrir samkomuslit.
Piper Cub flugkoman var svo haldin í 15 skiptið þann 3.ágúst í fínasta veðri og gekk mjög vel.

Sjötta ágúst var svo komið að hinni árlegu flugkomu Norðanmanna á Melgerðismelum, stíf gola var en menn létu það ekki á sig fá og flugu stíft! Stórskalaflugkoman hans Einars Páls var svo haldin á Tungubökkum þann 13.ágúst í blíðskaparveðri, gekk hún ljómandi vel og var mikið flogið.

Ljósanæturflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja var svo haldin þann 3.september og mætti mikil fjöldi gesta ásamt því sem Sigurjón Valsson leit við á Super Cub. Frændur vorir í Danaveldi voru svo heimsóttir [1|2|3] í lok september ásamt því sem lítil þotuflugkoma var haldin í tilefni heimsóknarinnar.

Innherjar hófu sig svo aftur til flugs í Reykjaneshöllinni í október og verður flogið allar sunnudaga út apríl 2012. Aðalfundur Þyts var haldinn í lok nóvember og kom nýr maður inn í stjórn félagsins. Skrifari þessa pistils var gerður að heiðursfélaga í Þyt fyrir vinnu sína í þágu módelflugs á Íslandi undanfarin ár. Takk kærlega fyrir mig!

Haustið var nokkuð milt framan af og var mikið flogið fyrri hluta þess en svo skall á vetrarveður með roki og rigningu og svo í byrjun desember með snjó. Snjórinn kom ekki að sök þó þetta hafi verið einn snjóþyngsti desember í langan tíma en rigningin og rokið gerðu okkur lífið leitt og héldu módelmönnum talsvert frá flugvöllunum seint á árinu.

Það eru meiri líkur á því að ófærð við módelvellina haldi flugmódelmönnum frá þeim í dag frekar en veðurútlitið. Flugmódelmenn kalla þó ekki allt ömmu sína í þessum málum og verður eflaust reynt til hins ítrasta að koma módelum í loftið á eftir og kveðja gamla árið.

Þetta er búið að vera ágætis ár hjá okkur og eflaust verður næsta ár ekki síðra en þá fagnar Flugmódelfélag Suðurnesja 20 ára afmæli sínu með flugkomu fyrstu helgina í júní. Munið eftir að taka helgina frá því það verður líf og fjör á Arnarvelli og mikið um að vera!

Heimsóknum á vefinn hefur fjölgað um 5% frá síðasta ári, 3% fleiri síður voru skoðaðar, 3% aukning varð einnig í gestafjölda og meðal heimsóknartíminn er um 5:40 sem er einnig aukning. Mesti heimsóknarfjöldinn var svo 26.maí þegar um 350 gestir litu við en að jafnaði koma um 245 á dag. Umferðin um vefinn var ~125GB á árinu, sem er ágætis gagnamagn en það þarf um 185 geisladiska undir það! :-)

90% allra heimsókna koma frá Íslandi en á meðal efstu landa á listanum eru Danmörk, Svíþjóð, BNA, Holland, England, Þýskaland, Noregur og Frakkland. Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvaða lönd koma svo strax á eftir en það eru Saudi Arabía og Lúxemborg en það helgast eflaust af atvinnu nokkura áhugamanna í sportinu! Azerbaijan eru þó hástökkvarinn en 1700% aukning var í heimsóknum þaðan! Önnur lönd sem skjóta óvænt upp kollinum eru t.d. Pakistan, Íran og Mongólía.

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.


Myndasöfn:
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Myndasafn Þyts
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó:
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélag Akureyrar
Icelandic Volcano Yeti
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11427
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2011 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Ido Segev á EXFC 2011.


IL-62 lendir á 1000 metra grasvelli(frekar stutt).


Klippa úr rússneskri mynd.


Ein gömul og góð.
http://www.nmusafvirtualtour.com/media/005/005k.html

Aðeins meira fjör en í hefðbundnu innanlandsflugi!
http://english.aljazeera.net/programmes ... 49621.html

Stór heimur en samt svo lítill oft á stundum.


C-130 á flugvélamóðurskipi.
Icelandic Volcano Yeti
Svara