Smíðabretti

Kanntu brögð og brellur sem fleiri hafa gagn af?
Svara
Passamynd
Gaui
Póstar: 3767
Skráður: 28. Nóv. 2004 18:30:14
Staðsetning: Eyjafjörður

Re: Smíðabretti

Póstur eftir Gaui »

Það hafa undanfarið komið til mín fyrirspurnir varaðandi smíðabrettið sem ég nota, svo mér datt í huga að það væri sniðugt að sýna hér hvernig ég fer að.

Í fyrsta lagi, þá er mikilvægt að borðið sé öflugt og þungt og rétt. Það borgar sig að eyða smá peningi í að búa til eða kaupa öflugt smíðaborð (eða „bekk“ eins og það er víst kallað hér fyrir norðan). Ef þú vilt smíða borðið sjálfur, þá skaltu fá góðan smíðavið sem hefur verið þurrkaður eða láta sjóða borðið úr stálprófílum. Gummi sauð saman tvo bekki sem eru í skúrnum mínum og síðan fengum við stillanlega enda undir lappirnar í Sandblæstri og málmhúðun. Ofan á rammana setti ég 25mm MDF. Hérna má líka nota hurðarblanka, en þeir eru dýrari. Hugsanlega er hægt að fá útlitsgallaðar hurðir -- það skemmir ekkert þó það sé rispa á þeim undir borðinu. Best er að láta þessi smíðaborð standa frítt þannig að hægt sé að ganga í kringum þau.

Brettin sem ég nota eru flest úr MDF. Til að þau kasti sér ekki fæ ég það þykkasta sem er á markaðnum, sem er 30mm þykkt. Ef ég á ekki bretti sem passar þegar ég er að smíða, þá læt ég bara saga út fyrir mig akkúrat það sem ég þarf. Til dæmis þurfti ég nýlega að setja saman heilan efri væng af Pitts og til þess þurfti ég bretti sem er 200x50 sm. Ég bað líka um renninga sem eru 5x200 sm til að setja undir sem leiðara og til að varna því að brettið verpist. Ég skrúfaði þetta saman og notaði Fix-All til að líma líka. Hér sést í endann á brettinu ofan á borðinu mínu:

Mynd

Það góða við þetta er að nú get ég lagt verkfæri og annað frá mér á borðplötuna og haft smíðabrettið hreint (ef ég vil). Það er hægt að negla með stálnöglum í þetta efni og þeir halda sæmilega vel.

Ef þú vilt nota títuprjóna til að raða saman módelinu (og það eru flestir sem gera það), þá er hægt að kaupa efni sem heitir trétex. Það fæst í tveim gerðum, hreint og olíusoðið. Það hreina er ljós-brúnt á lit og sogar í sig raka og vant og er oft ekki fáanlegt, en það olíusoðna er svar-grátt og ljótt, en hrindir frá sér vatni. Þegar ég setti saman vængina á Sopwith Pup, þá keypti ég stóra plötu sem er 120x74 sm og límdi trétex oná hana með jötungripi. Hér sést í hornið á því bretti:

Mynd

Þegar ég smíða á þessum brettum, þá legg ég teikningarnar á yfirborðið og annað hvort pinna þær niður eða lími með límbandi. Síðan nota ég plast sem hægt er að fá í byggingavöruverslunum í litlum pakkningum(þolplast) sem kostar lítið, en er þykkt og endingargott. Eldhúsfilma er ekki heppileg.
Ég er svona það sem kallað er Trendsetter, það bara tekur enginn eftir því.

Bara átta kveðjur
Guðjón Ólafsson - Eyjafirði
Svara