Ég get samt ekki að því gert að leiða hugann að því að gera smíðarnar að “félagslegri” viðburði. Ég held að það sé afar gagnlegt að hittast eitt kvöld í viku, en hafa jafnframt aðgang að aðstöðunni á öðrum tímum (svo maður geti nú haldið dampi þegar andinn kemur yfir).
Sameiginleg aðstaða hefur marga kosti:
• Þetta verður félagslegur viðburður
• Menn skiptast á skoðunum og spjalla um sportið og skiptast á sögum
• Reyndari smiðir miðla af ótæmandi visku sinni
• Menn geta samnýtt verkfæri og jafnvel efni (t.d. þegar einhver gleymir að kaupa lím)
• Menn geta dáðst að afrekum annarra á sviði smíðanna
Óreyndari smiðir njóta góðs af visku hinna reyndari, sem á móti gangast endalaust upp í endalausri aðdáun hinna fyrnefndu!

Ég sæi alveg fyrir mér að Þytur sem félag myndi sækjast eftir svona aðstöðu, í boði einhvers góðhjartaðs bæjarapparats á höfuðborgarsvæðinu. Til greina kæmu lagnakjallarar og ýmis konar ónotuð rými í stærri byggingum á vegum sveitarfélaganna, s.s. skóla, íþróttamannvirkja o.fl. Það eru fordæmi fyrir þessu, s.s skotfimi og fleira. Því ekki flugmódelsmíði? Það mætti líka leita til einkaaðila með samskonar húsnæði í huga. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það sé hægt að finna svona húsnæði, ef menn leggja hausinn í bleyti og vinna að því saman.
Hitt er að menn myndi einhvers konar smíðagrúppu og verði sér úti um húsnæði saman. Þetta er lakari kostur, því hann myndi væntanlega kalla á leigu.
Nú er ég bara að hugsa upphátt, en hvað finnst mönnum. Myndi vera einhver stemning fyrir því að kanna möguleikann á svona löguðu? Hugmyndir? Tillögur? Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að göslast eitthvað í þessum málum í nafni Þyts og jafnvel óþökk, en mér finnst hugmyndin góð! Hvað um ykkur?