Það sem skiptir máli er að þekkja hvað á við okkur og hvað við þurfum að gera til að uppfylla þær kröfur sem hafa tekið gildi. Kannski óþarfi að taka það fram en ef að óhapp verður þá munu tryggingarnar okkar ekki gilda ef menn fara ekki eftir þeim reglum sem gilda um flug flugmódela, hvet því sem flesta til að fara í gegnum kennsluefnið, taka prófið og skrá sig.
Við tilheyrum svokölluðum "Opnum flokki" en hann inniheldur "áhættulitla starfsemi dróna sem vega minna en 25 kg."
Fyrir okkur eru nú komnar kröfur um skráningu flugmanns en til að geta það þarf að fara í gegnum kennsluefni og standast próf á skráningarsíðunni (og auðvitað að greiða 5.500 kr). Ef þú ert nú þegar skráður sem umráðandi dróna í öðru EASA ríki þarftu ekki að skrá þig á Íslandi.
Í opna flokknum gilda eftirfarandi reglur:
- Dróninn verður að vega minna en 25 kg
- Fjarflugmaðurinn verður að hafa drónann ávallt í augsýn (VLOS)
- Dróninn má ekki fljúga hærra en 120 m frá jörðu
- Það má ekki fljúga yfir mannfjölda
- Það má ekki fljúga með hættulegan varning
- Það má ekki sleppa hlutum af drónanum
- Dróninn verður að vera merktur með skráningarnúmeri umráðandan
- Opna flokknum er skipt í þrjá undirflokka: A1, A2 og A3. Munurinn á þeim er eftirfarandi:
A2 – Leyfilegt að fljúga drónum í þéttbýli með 50 m lágmarksfjarlægð frá óviðkomandi fólki (30 m með C2 merktum dróna, 5 m með hægflugsbúnaði).
A3 – Leyfilegt að fljúga drónum allt að 25 kg að þyngd, með 150 m lágmarksfjarlægð frá byggðum svæðum.
Eins og menn kannski sjá föllum við undir A3 flokkinn með okkar flugmódel.
Skráning og hæfniskröfur
Til að geta flogið í opna flokknum þurfa allir flugmenn að vera skráðir á skráningarsíðu Samgöngustofu (nema flugmenn C0 dróna án myndavélar). Til að geta flogið dróna sem vegur meira en 250 grömm þurfa flugmenn að lesa kennsluefni og standast A1/A3 hæfnipróf á skráningarsíðunni. Þeir sem standast prófið öðlast réttindi til að fljúga drónum allt að 900 grömm að þyngd í undirflokki A1 og allt að 25 kg að þyngd í undirflokki A3. Í undirflokki A2 er leyfilegt að fljúga mjög nálægt fólki og þar af leiðandi talinn áhættumesti undirflokkurinn í opna flokknum. Það eru gerðar meiri kröfur til hæfni flugmanna í undirflokki A2 og þarf að standast sérstakt A2 próf sem er aðeins haldið í húsakynnum Samgöngustofu eða hjá samþykktum aðila.