
Eftir að hafa litið á næstu veðurstöðvar kom í ljós að það var nánast SA á Þorlákshöfn sem er beint á bakkann þar svo þangað var skundað í snarheitum, enda ekki mikið að hafa í Kömbunum eins og áður hefur komið fram. Þegar þangað var komið var vindmælirinn dreginn fram og viti menn, rúmlega 10 m/s beint í fangið þannig að það var ekki eftir neinu að bíða og vélin dregin fram.
Nýviðgerðum Freestyler eftir svaðilfarir við Feggeklit í Danmörku, en þar er talið að Hamlet hafi myrt hin illa stjúpa sinn, var skellt saman og hann gerður klár í prufuflug. Fer svo sem ekki miklum sögum af því öðrum en þeim að hann virkaði sem áður fyrr og skemmti sér vel í hreina vindinum frá Suðurskautinu sem berst þarna upp að ströndum vorum.

Það er svo taka tvö eftir hádegi á morgun en þá er spáð um 7-8 m/s í Kömbunum, verður áhugavert að sjá hvort það standist!
Áhugasamir geta svo skemmt sér við að dáðst að stærðinni á Mykinesinu þar sem það liggur við festar í höfninni.