Viðgerð með PU-lími

Kanntu brögð og brellur sem fleiri hafa gagn af?
Svara
Passamynd
Björn G Leifsson
Póstar: 2914
Skráður: 24. Apr. 2004 01:14:45

Re: Viðgerð með PU-lími

Póstur eftir Björn G Leifsson »

Sælir...

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá mörgum ykkar að flugtólin okkar brotna stundum. Það er ekki alltaf svo stórkostlegir áverkar sem blessaðar vélarnar verða fyrir og mesta furða er hvað hægt er að gera við.
Á þessum fáu árum sem ég hef verið virkur í dellunni og sérstaklega eftir að sonurinn ()Hjörtur) tók að fljúga, þá hef ég safnað heilmikilli reynslu af að gera við brotin módel. Hjörtur hefur átt talsverðan þátt í þessari reynslu bæði með því að sníkja brotin módel af mönnum og fá mig til að hjálpa sér að gera við, og eins og í þessu tilfelli sem ég ætla að rekja, með því að fljúga bæði lágt og hægt :)

Það sem ég ætla að kynna ykkur er aðferð við að gera við brotinn balsa og krossvið með skemmtilegu efni sem kallast Pólýúretan lím eða PU lím eða (í USA) Gorilla Glue og eflaust til fleiri nöfn. Það fæst í byggingavöruverslunum hér. Það sem ég nota er svokallað "brúnt" PU-lím. Það hentar vel í þetta. Þessi dolla sem sést á mynd hér að neðan er af merkinu Soudal og líklega úr húsasmiðjunni.


Síðasta sísoni lauk eiginlega með því að við Hjörtur vorum að fljúga á H-nesi í október að mig minnir og hann, eins og venjulega búinn að færa sig upp á, eða öllu heldur niður á skaftið og hættur að fljúga en í staðinn farinn að láta vélina hanga á hreyflinum alveg niðri við jörð. Eins og lög (Murphy's meðal annars) gera ráð fyrir þá fór eitthvað úrskeiðis og hreyfillinn hikstaði. Smá hik er nóg þegar vélin hangir varla hálfan meter ofan moldar en Hirti tókst að rétta hana eitthvað svo áverkalistinn varð ekki svo langur þegar hún kom niður. Brotinn kolfíberspaði, bogið hjolastell og brotinn endi á hallastýri öðrum megin.
Mynd

Vélin fór í þessu ástandi í geymslu en um daginn gafst ég upp á nuðinu í drengnum og hjálpaði honum að laga þetta.

Fyrir tilviljun áttum við filmubúta af þessum litum svo við vorum frekar fríkostugir með að rífa af klæðninguna til að komast að skaðanum til að greina hann og skipuleggja aðgerðir. Maður getur líka skorið upp klæðninguna varlega til þess að strauja niður aftur og kannski leggja ræmu af svipuðum lit yfir sárin.
Ég lét klæðninguna halda sér neðaná stykkinu en það hjálpaði meðal annars til að stilla af bitana og koma í veg fyrir að límið færi út um allt.
Mynd

Þetta var nú tuiltölulega einfalt brot. Hægt var að raða saman brotunum nokkuð rétt og þegar búið var að hreinsa burt flísar og lausa smábúta vantaði ekki mikið í sárin en svolítið þó. Því var greinilega ekki nóg að bara líma með hefðbundnu lími fannst mér. Sumir hefðu kannski fellt búta af balsa ofaní en þar sem þetta var frekar lítið notaði ég frauð-PU-líms-aðferðina sem hér um ræðir.

PU límið er nefnilega þess eðlis að það er vatn (raki) sem hvetur efnahvarfið sem herðir límið. Þar að auki freyðir það dálítið, ekki þó eins mikið og annað náskylt efni sem margir kannast við og er notað til einangrunar og uppfyllingar td kringum hurðakarma og freyðir og þenst eins og sprauturjómi.

Til þess sem sagt að hvetja bæði límingu og fyllingu þá notaði ég bómullarpinna (eyrnapinna) til þess að bleyta nokkuð vel í sárin þar sem ég ætlaði að fá límingu og fyllingu. Límið freyðir nefnilega meir eftir því sem rakinn er meiri.
Mynd

Líminu sprauta ég með lítilli sprautu og nál sem ég slípa oddinn af og beygi lítillega.
Passa að setja ekki mikið en maka því allst staðar þar sem það á að líma og með reynslunni veit maður nokkurn veginn hversu mikið þarf til að frauðið fylli.
Hér spenni ég upp sprungu i bitanum og renni lími í.
Mynd

Og fylli í hornin
Mynd

Ég treysti nú ekki alveg bara líminu og því styrkti ég bitann með bambuspinna. Fyrst bora ég fyrir honum frá horninu og inn eftir endilöngum bitanum með löngum 2,5 mm bor Mynd

Og treð inn bambus-grillpinna sem fyrst er bleyttur og síðan strokið PU-lími á hann. Klippi svo af flútt við opið þegar hann er kominn í botn.
Mynd

Aðeins að bæta betur í brotalínur hér og hvar en samt ekki allt of mikið
Mynd

Svo legg ég leyfarnar af filmu yfir og set fíberlímband utanum endann. Það er nefnilega eðli límsins að þenjast og freyða og það getur þrýst sundur brotunum ef ekki er vel frá gengið.
Mynd

Og svo kemur lokafrágangurinn. Allt verður að vera bæði beint og rétt svo hér koma álprófílarnir (sem bróðir minn húsasmiðurinn hirti fyrir mig) að góðum notum. Ég legg fyrst byggingaplastræmu undir og raða svo á þá klemmum og þvíngum sem maður á aldrei nóg af.
Mynd
Mynd

Öruggast er að láta þetta liggja yfir nótt en af því að ég bleytti vel í viðnum þornaði þetta hratt og eftir uþb fimm tíma var límið orðið grjóthart. Þið sjáið hér hvernig það hefur myndað froðu sem þrýstir sér alls staðar í sprungur og kima og styrkir svakalega. Ég notaði ekki nema um einn og hálfan millilítra af lími svo þyngdin er bara nokkur grömm.
Mynd

Aðeins þurfti lítillega að pússa og svo klæddi Hjörtur sjálfur listilega yfir skemmdina svo nú sér varla misssmíð á. Við gleymdum að taka sérstakar myndir af því en hér er mynd af henni þar sem viðgerði (vinstri) vængendinn sést og svo af henni á flugi sl fimmtudag á Hamranesi.
Mynd
Mynd

Að lokum.

PU-límið er algert galdralím. Það er frábært til að festa hluti í balsa með, til dæmis lamir og Robart pinnalamir sitja að eilífu ef borinn er smá raki í gatið og pinnanum dýft lítillega í svona lím og þrýst inn. Ég veit að sumir nota þetta til að samlíma (e. laminate) við (þar með talið balsa) og til að líma spón á frauðplastkjarna við vængjasmíði svo dæmi séu tekin.
Mér skilst að þetta sé notað í byggingariðnaðinum til að líma saman bjálka í límtrésbita.
Helst þarf að passa að límið ýti ekki stykkjunum sundur þegar það freyðir. Þess vegna þarf að skipuleggja verkið vel og festa og þvinga hlutina.
Ef gert er til dæmis við brotinn skrokk á þennan hátt getur borgað sig að hreinlega slá upp "Jig" eða ramma til að halda skrokknum í réttum skorðum meðan límið harðnar.

Límið er ógeðslegt að fá á fingurna og gjöreyðileggur föt svo farið varlega með það. Fingurnir verða alveg svartflekkóttir ef þetta fær að liggja á skinninu. Best er að þrífa með terpentínu. Geinoðir einnota plast eða latexhanskar fást í Rekstrarvörum og borgar sig að nota þá við vinnu með svona lím og fleiri varasöm efni, td epoxí.
Sprautur og nálar er hægt að sníkja ef maður þekkir einhvern, til dæmis hjúkku, sem vinnur á spítala eða heilsugæslustöð (ekki segja LSH að ég hafi sagt þetta) Best finnst mér að nota 2 ml sprautur og "uppdráttarnálar" svokallaðar með bleikri hulsu, Oddinn slípar maður helst af áður en maður fer að nota þær. Ég veit ekki hvort apótekin eiga svona en þau eru þá eflaust treg að láta það nema gegn resepti.
"For every complex problem there is a solution that is simple, neat and wrong"
H.L. Mencken
Svara