Næst á dagskrá var að setja frambrúnina á stélflötinn og afturbrúnina á hæðarstýrin. Það er gert með því að samlíma fjóra 2,5mm planka á stélið. Það verður mjög sterkt og auðvelt er að hefla það til og forma með sandpappír. Til að vefja balsanum utanum hæðarstýrið þarf að bleyta hann vel í vatni. Það kemur líka í veg fyrir að hægt sé að nota annað en hvítt lím:
Við vildum hafa hliðarstýrið þannig að hægt sé að taka það af með því að losa einn stálpinna úr öllum lömunum og því byrjaði ég að gera raufar fyrir lamirnar. Það var afar erfitt, sérstaklega þar sem raufin fyrir lamirnar nær ekki í gegnum krossviðarkjarnann á hliðarstýrinu. Ég byrjaði á því að bora nokkur göt:
og svo notaði ég járnsagarblað og platínuþjöl til að laga til raufarnar:
Þetta reyndist svo erfitt og svo mikið sem gat farið úrskeiðis að á módeli nr. 2 ákvað ég að fara aðra leið. Ég sagaði langleiðina í gegnum krossviðarkjarnann og þar sem lamaraufin náið ekki í gegn sagaði ég algerlega úr fyrir lömunum:
Síðan límdi ég póstana á, en setti ekki lím þar sem lamirnar koma. Þá var auðvelt mál að bora tvö lítil göt og síðan slá bútinn úr, þar sem lamirnar eru, með skrúfjárni og hamri:
Næst settum við stélflötinn saman. Það er gert með fjórum koparrörum og tveim 4mm bútum af píanóvír:
Rörin voru fittuð í stélfletina með stálpinnana í og síðan var Hysol notað til að líma þetta fast:
Nú var hægt að rúnna brúnirnar á stélinu með balsahefli og sandpappír:
Hérna er Þröstur með stélið af fyrsta módelinu tilbúið. Það er ansi stórt, enda getur Þröstur næstumþví falið sig á bakvið það!
Næst: skrokkurinn.
Maður byrjar skrokkin með því að líma saman eldvegginn og skrokkgólfið. Við þá límingu notuðum við 30 mín. epoxý vegna þess að hvíta límið er bara of svegjanlegt við slíkar aðstæður:
Næst eru skrokkhliðarnar settar á. Hérna er verið að smíða tvo skrokka í einu:
Til að raða skrokknum saman er sett niður mjög einföld festing úr 3mm krossviði. Hún er lögð á plast og negld ofan á borðið.
Framhlutinn og allir skrokkrammarnir eru nú límdir á þessa festingu með CA lími. Hér er verið að líma fyrstu langböndin í:
Nú er stélhlutinn settur saman. Hann er sérstakt box sem er byggt undir stélflötinn og heldur annars vegar stélinu á og hýsir hins vegar servóin þrjú sem stjórna hæðar- og hliðarstýrunum:
Nú vildum við setja furu langbönd á skrokkinn, en þá kom í ljós að götin sem þessi langbönd þurftu að fara í gegnum voru alltof lítil. Það tók því smá tíma að stækka þau:
Það síðasta sem við gerðum í dag var að líma fyrstu furulangböndin í:
Það er orðið óþægilega augljóst að þetta verða STÓR módel.