Ég ákvað að setja smávegis „bling“ á módelið mitt áður en ég sprauta það. Þetta „bling“ er úr áli og er þeir hlutar af venjulegri flugvél sem maður horfir stöðugt á en „sér“ ekki samt: gluggarammarnir og álklæðningin.
Ég byrjaði á álklæðningunni framan á flugvélinni. Til að búa þetta til klippti ég niður prentplötuál, málaði nefið á módelinu og plöturnar með Jötungripi og staðsetti plöturnar varlega á sínum stað.
Það eru tvær aðskildar álplötur sem skarast og þær ná allan hringinn í kringum nefið. Hér er sú aftari komin á sinn stað. Hún liggur frá hurðaropinu hægra megin, undir skrokkinn og svo upp að glugganum á vinstri hliðinni:
Hér er svo hin komin á sinn stað. Hún liggur yfir nefið að ofan og undir botninn. Platan sem ég notaði náði ekki allan hringinn (ég fékk ekki nógu stóra prentplötu), svo að ég þurfti að setja smá plötu á miðjan botnin fyrst:
Ég notaði srúfur nr. 00 frá Mikka Ref til að gefa þetta skala-útlit.
Næst klippti ég alla gluggana út úr 1mm þykku plasti. PVC plastið sem fylgdi með frá Toni Clark er glært, en þar sem frumgerðin mín er með litaða glugga keypti ég litað plast. Því miður er það örlítið þykkara en plastið frá Toni, en þegar búið er að líma það á sinn stað og setja álræmur á það og skrúfur númer 000, þá lítur þetta bara sæmilega út.
Hér er gluggin hægra megin og rofarnir tveir (móttakari og kveikja) á þægilegum stað. Ef þú skoðar vel, þá getur þú séð VoltSpy sem ég límdi á hilluna fyrir aftan aftursætið.
Mig langaði til að setja smávegis innréttingar í flugmannsklefann, þó ég ætlaði alls ekki að gera einhverja súperskala vél úr þessu, svo ég límdi sæti úr 4mm balsa á sína staði og tálgaði bleikt frauðplast í sætispúða. Síðan málaði ég allt saman með Vitretex málningu sem ég átti inní skáp:
Hérna er svo framsætið. Mælaborðið er bara ljósmynd af subbulegasta Super Cub sem ég gat fundið á Internetinu. Ég prentaði það í réttri stærð, límdi það á balsa og límdi á sinn stað. Þetta lítur ágætlega út þegar maður horfir á það í gegnum blátt gler:
Og hér er svo flugmaðurinn kominn á sinn stað. Guðfinna hans Didda málaði hann fyrir mig og þetta er bara flott hjá henni:
Framglugginn var smá vandamál vegna þess hver plastið er þykkt og stíft. Ég byrjaði á því að klippa til máta úr þunnu plasti sem ég átti uppí hillu og síðan sagaði ég þykka plastið í rétt lag með tifsög. Hérna er ég að stilla plastinu á sinn stað og bera það við:
Eina leiðin til að fá þetta plast til að leggjast eins og til var ætlast og taka á sig þá boga sem þurfti var að nota mikið af heitu lofti. Ég notaði hitablásara sem maður notar venjulega á plastfilmu og hitaði plastið mikið þar til það gaf sig. Ég notaði líka gott lím. Ég setti 6mm breiða álrenninga á hliðarnar á glugganum og boraði göt á þá. Síðan sletti ég Hysol á hliðarnar og skrúfaði fast öðrum megin. Þá var hægt að draga hina hliðina á sinn stað og sulla Hysol undir allt sem þurfti að límast niður. Þetta tók meiri partin úr einum degi og ég mæli með því við Dr. Björn að hann fái sér aðstoðarmann við þetta: maður þarf svo sannarlega á nokkrum hjálparhöndum að halda.
Nú vildi ég búa til fallega feringu af nefinu upp á framrúðuna, en það var ekki nokkur lifandi vegur að gera hana úr áli. Ég skellti því niður sex ræmum af málningarlímbandi um 6mm fyrir framan rúðuna og öðrum sex um 6mm uppá hana:
Þetta fyllti ég síðan með P38 bílaspartli:
Eftir að ég pússaði spartlið niður og tók límbandið burt leit þetta svona út:
Næst sprautaði ég nokkrum umferðum af fylligrunni og blautpússaði feringuna þar til hún var orðin eins slétt og ég vildi hafa hana. Þá boraði ég röð af 1mm götum, sneri 3,2mm bor í þeim og skrúfaði nokkrar 00 skrúfur í. Ég get ekki neitað því að ég er smá stoltur af þessu!
Hurðin er komin á hægra megin með læsingum og öllu:
Og hér er lúgan ofan á skrokknum. Hún verður að vera þarna svo maður komist til að setja vængina á og taka þá af, en er svosem ekki í „skala“:
Það síðasta sem ég gerði í dag var að setja nokkur hnoð á álklæðninguna framan á módelinu. Á mynd sem Einar Páll sendi mér er greinlega röð af hnoðum fram eftir hliðinni á vélinni og þar sem þau eru ekki neitt vandamál þegar maður hefur sprautunál og hvítt lím, þá skellti ég þeim á, svona bara til gamans:
Nú er ég að gera tilraun með hvíta Vitretex málningu og glansandi húsgagnalakk. Ég sprauta Super Cubbinn líklega í næstu viku ef þær takast vel.
Skjáumst þá.