31.12.2007 - Áramótaraus

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11420
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2007 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Eins og mörg fyrri ár þá rennur algjört skrifæði á ritstjóra í kringum áramótin og duldar tölfræðiþrár streyma fram á yfirborðið.

Ekki var mikið um keppnishald á þessu sumri en menn voru þeimur duglegri að fljúga þegar vel viðraði. Lendingarkeppni Flugmódelfélags Suðurnesja var vel sótt en 10 manns tóku þátt að þessu sinni. Íslandsmeistaramótið í hástarti var haldið síðustu helgina í júní og tókst vel til. Af öðrum samkomum ber helst að telja Vínarbrauðs- og Vöfflusamkomurnar sem haldnar voru í byrjun vertíðar.

Í júlí brá ritstjórinn undir sig betri fætinum og fór til Cosford að taka út hina árlegu flugkomu LMA, sem var frekar stutt að þessu sinni þar sem ekki voru nógu margir bátar á svæðinu til að hægt væri að halda flugkomuna í syndaflóðinu sem gerði á sunnudeginum þannig að laugardagurinn var látin duga.

Að venju var nóg um að vera á Melgerðismelum í ágúst og sást þar mikið af mönnum og módelum þótt ekki hafi veðurguðirnir verið okkur jafn hliðhollir og svo oft áður en þó gáfu þeir grið fram undir kvöldmat.

Betur fór svo en á horfðist á flugkomunni á Tungubökkum þegar þotan ein fór í gegnum áhorfendahóp, óhætt að segja að þar hafi módelsamfélagið sloppið með skrekkinn en þetta atvik vakti óneitanlega upp ýmsar spurningar. Að öðru leyti skemmtu menn sér vel þennan fagra sumardag.

Flugmódelfélag Suðurnesja hélt svo hina árlegu Fréttavefsflugkomu á sama tíma og Ljósanótt var fagnað, þátttakan hefur oft verið betri en þeir sem mættu nutu þó veitinganna þeimur betur.

Á árinu hófst vinna klúbbana í landinu að sameiginlegri framtíðarsýn og stefnumörkun í öryggismálum og unnið er í átt að stofnum landssamtaka. Í nefndinni eru allir núverandi stjórnarmenn flugmódelfélaganna og aðrir sem málið kann að varða(tilvonandi klúbbar og eða litlir hópar út á landinu). Þeir sem telja sig eiga erindi í vinnuhópnum eru vinsamlegast beðnir um að senda línu á sverrirg hjá gmail.com.

Fréttavefurinn fékk hátt í 100.000 heimsóknir frá um 13.000 gestum á árinu og voru skoðaðar ríflegahálf milljón vefsíðna. Einnig er gaman að segja frá því að 10.000 pósta múrinn var rofinn á spjallinu á Þorláksmessu af engum öðrum en Ágústi H. Bjarnasyni á þræði sem fjallaði um Svetlana Kapanina. 97 fréttir birtust á árinu. Um 25% aukning varð í fjölda pósta á spjallinu frá síðasta ári og um 22% í fjölda þráða.

80 notendur póstuðu á spjallinu á þessu ári, þar af voru 12 hundraðshöfðingjar og nokkrir þeirra afrekuðu að pósta nokkur hundruð póstum. Gaman er að geta þess að í þessum hópi eru formenn úr öllum klúbbunum nema einum. Í augnablikinu eru 130 skráðir notendur. Um 92% heimsókna á Fréttavefinn eru frá Íslandi enAusturríki og þá sérstaklega Vín hefur verið í mikilli sókn seinni hluta ársins, hvernig svo sem á því stendur(Knútur er sterklega grunaður).

Um 65% gesta notar Internet Explorer vafra, helmingurinn af þeim er kominn í útgáfu 7.0, þeim sem nota enn eldri útgáfur af IE bendi ég á uppfæra eða verða sér út um aðra vafra. Björn og aðra eplaaðdáendur verð ég að hryggja með þeim fréttum að rétt rúmlega 1% heimsókna eru frá eplaheimum, en það toppar þó *nixheima þar sem um 0.3% heimsókna eru þaðan.

Eins og við bara að búast var mesta lífið yfir sumarmánuðina. Júlí var langbesti mánuðurinn en minnst var að gera í febrúar og október. Þriðjudagur er vinsælasti dagur vikunnar en svo falla heimsóknir fram á laugardag en taka svo að aukast frá sunnudegi.Flestar heimsóknir koma milli kl.13 og 14 en umferðin er í hámarki milli 13 og 16.

Það stefnir allt í að næsta ár verði viðburðaríkt hjá módelmönnum, fréttst hefur af mörgum flottum módelum sem ættu að koma ný inn á næstu vertíð, af öllum stærðum og gerðum, en einnig virðist rafmagnið sífellt vera að sækja í sig veðrið og verður gaman að fylgjast með því á næstunni.

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Tölfræðin tekin saman kl.08:00 þann 30.desember.

Efni til að stytta mönnum stundir fram að eftir degi.
Vídeóleigan
Myndasafn fréttavefsins
Búðu til flugvélar í innnanhúsáramótaflugið
Flugmyndir af Lancaster Frímanns Frímannssonar
Myndir af B-17, B-24 og B-25
Gamall radíóbúnaður o.fl í Danmörku
Icelandic Volcano Yeti
Svara