Arnarvöllur - 3.desember 2022 - 30 ára afmælisflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja
Póstað: 3. Des. 2022 23:31:24
Um þessar mundir eru rétt tæplega 30 ár liðin frá því að Flugmódelfélag Suðurnesja var stofnað en það gerðist þann 9. desember 1992 og í tilefni af því var efnt til afmælisflugkomu á Arnarvelli í dag. Fyrstu menn voru mættir á svæðið rétt fyrir 11 og tók þá þessa líka flotta frostþoka á móti þeim ásamt glampandi sól, enda öllu tjaldað til í tilefni dagsins.
Flugmódelmenn létu þokuna ekki stoppa sig og hófu sig óðara til flugs enda hreyfði ekki hár á höfði mestu bítla svæðisins sem þó voru húfulausir! Frostþokuna tók þó að létta þegar nær dróg hádegi þannig að enn meira varð um flug við það og svona hélt fjörið áfram fram eftir degi.
Félagið bauð svo upp á veitingar í tilefni dagsins sem menn gerðu góð skil í hlýjum skúrnum.
Við þökkum þeim sem sáu sér fært að mæta út á Arnarvöll og samfagna með okkur í tilefni af deginum.