19.05.2008 - Smá útskýring á 2.4GHz

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11599
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 19.05.2008 - Smá útskýring á 2.4GHz

Póstur eftir Sverrir »

2.4GHz útskýrt
- Hvernig virkar þetta Spread Spectrum eiginlega?

Ef þú átt eða hefur verið að hugsa um að versla 2.4GHz Spread Spectrum fjarstýringu þá hefurðu sjálfsagt áhuga á að vita hvernig það virkar og vonandi hjálpar þessi grein þér. Fyrst nokkur orð um gömlu „þröngbanda“ fjarstýringarnar. Nokkuð auðvelt er að átta sig á því hvernig núverandi fjarstýringar frá 27MHz og upp í 72MHz virka því þær vinna á nákvæmlega sama hátt og AM/FM útvarpið. Þ.e.a.s. þær senda út merki sem móttakarinn nemur og sendir svo skipun um hreyfingu til servóanna.

En því miður er þetta ekki gallalaust, eins og útvarpsstöðvar þá þurfa fjarstýringarnar að vera á mismunandi tíðnum svo þær trufli ekki hvor aðra. Og það sem meira er, það má ekki mikið bera út af svo merkið fari að truflast. Sjálfvirkur hitastillir eða rafmagnsbor geta orsakað miklar rafmagnstruflanir þegar hlustað er á útvarpið. En framleiðendur Spread Spectrum halda því fram að þú þurfir aldrei framar að hafa áhyggjur af því að vera „skotinn niður" af öðrum flugmönnum og öll þessi 2.4GHz kerfi geti unnið saman þrátt fyrir að þau virðist vera á sömu tíðninni.

En hvernig virkar það eiginlega?

Til að útskýra þetta ætla ég að nota dæmi úr daglegu lífi sem ég kalla „hraðbrautar líkingar.“ Með því að nota þessi dæmi og líkingar mun ég gera mitt besta til að koma til skila flóknum heimi Spread Spectrum á formi sem flestir geta áttað sig á. Að sjálfsögðu þarf að fara frjálslega með nokkur smáatriði en þau skipta ekki máli í okkar tilfelli.


En hvaða gerð af Spread Spectrum er best?
- Já þær eru ekki allar eins.

Áður en ég skelli mér út í nákvæmar útlistanir þá er rétt að taka það fram að það eru fleiri en ein gerð af Spread Spectrum. Sú fyrsta og jafnframt sú algengasta er kölluð Direct Sequence Spread Spectrum(DSSS). Það þýðir að fjarstýringin og móttakarinn halda sér innan fyrirfram ákveðins hluta tíðnisviðsins. Seinni gerðin er kölluð Frequence Hopping Spread Spectrum(FHSS) en það þýðir að fjarstýringin og móttakarinn skipta stöðugt á milli tíðna innan 2.4GHz tíðnisviðsins.

Í dag eru aðeins Futaba og Airtronics að nota FHSS, hinir nota DSSS.

Og núna eruð þið eflaust að velta því fyrir ykkur hvor tegundin sé betri? En því verður að svara með... hvorug og báðar.

Eða með öðrum orðum, hvorug lausnin er betri við allar aðstæður, það eru kostir og gallar við þær báðar eins og þið munið komast að. Hins vegar er óhætt að segja að í kenningunni þá er Futaba FASST kerfið að nýta sér það besta úr báðum heimum því það er ekki bara FHSS heldur líka DSSS.

En skoðum fyrst hvernig hefðbundnar fjarstýringar á FM tíðnisviðinu virka, hvort heldur sem er á 27, 35, 36, 40, 41 eða 72MHz.


Hvernig virka hefðbundnar fjarstýringar?
- FM/PCM fjarstýringar

Alveg frá því að fyrstu fjarstýringarnar fyrir módel voru smíðaðar fyrir hálfri öld síðan þá hefur „þröngbanda“ tæknin verið notuð. „Þröngband“ vísar á það span sem merkið tekur á rásum þeirra tíðna sem í boði eru. FM/PCM fjarstýringar nútímans starfa á örlítilli sneið af frekar lágum tíðnisviðum(27, 35, 36, 40, 41 eða 72MHz). Þessi litla úthlutun bandvíddar fyrir hverja rás býr til númer sem líkja má við að ferðast á hjóli niður mjóan slóða og sömu vandamál skapast líka.

Í fyrsta lagi þá getur þú ekki hjólað mjög hratt einfaldlega af því að stígurinn er svo þröngur að þú þarft að gera þig eins mjóan og hægt er til að rekast ekki utan í gróðurinn. Á fjarstýrimáli þýðir þetta að þú getur ekki sent upplýsingarnar mjög hratt milli fjarstýringarinnar og móttakarans. Í öðru lagi ef þú mætir öðrum hjólreiðamanni á þessum mjóa slóða þá eru miklar líkur á því að þið dettið báðir af baki og meiðið ykkur. Á fjarstýrimáli þýðir þetta að að næstum því hvaða merki annað á „þröngbanda“ tíðninni sem þú notar veldur truflunum(gloppum eða sambandsleysi).

Augljóslega er þetta ekki besti leiðin til að stjóra dýrum og jafnvel hættlegum fjarstýrðum módelum en með skipulagðri tíðnistjórnun þá hefur þetta kerfi dugað okkur vel síðustu áratugina.


Distributed Spread Spectrum(DSS)
- Spread Spectrum útskýrt
Mynd

Distributed Spread Spectrum fjarstýringum má líkja við margra akreina hraðbrautir þar sem bílinn þinn virðist birtast handahófskennt á mismunandi akreinum. Í raun og veru þá birtist hann og hverfur svo hratt að hann virðist næstum því vera á öllum akreinunum á sama tíma. Á fjarstýrimáli þá notar fjarstýringin breitt bil tíðninnar til að senda gögn til móttakarans frekar heldur en mjóa bilið sem gömlu fjarstýringarnar notuðu.

En hver er tilgangurinn með því að dreifa sér út um allt?

Jæja, ef þú stoppar og hugsar málið þá kemstu að því að ef DSS bílinn þinn hittir annan slíkan á hraðbrautinni þá skiptir það frekar litlu máli. Bílinn þinn lokast ekki inni því hann heldur einfaldlega áfram og birtist á annari akrein sem var ekki lokuð. Á fjarstýrimáli þýðir það að ein(eða nokkuð margar) sendingar hafa ekki mikil áhrif á fjarstýribúnaðinn því þær loka einungis á lítinn hluta merkisins sem sent er. Þannig að ef hraðbrautin er ekki algjörlega lokuð þá ætti a.m.k. smá hluti merkisins frá fjarstýringunni að skilar sér til móttakarans.

Enn betra er að ef annar DSS sendir(eða nokkrir) er í gangi á sömu rás þá er hann ólíklegur til að trufla því hann mun vera að hoppa á milli akreina með annari tíðni og öðrum hraða. Þannig að í DSSS kerfi, þá standa síðustu SS fyrir Spread Spectrum og fyrstu tveir stafirnir fyrir Direct Sequence. Þetta hefur beint samhengi við röð og tíðni sem bílinn þinn hoppar á milli akreinanna.


Hvernig tekur DSSS á truflunum
- Vígvalla samlíkingin

Önnur leið til að hjálpa þér að skilja hvernig DSSS kerfið kemst hjá því að vera „skotið niður" af truflunum er vígvalla samlíkingin.

Þegar her fer á nútíma vígvöll þá er þeim yfirleitt skipað að dreifa úr sér og það er nákvæmlega það sem DSSS gerir, það dreifir merki fjarstýringarinnar yfir mikið víðara tíðnisvið heldur en FM/PCM útbúnaður. Alveg eins og á vígvellinum þá er mikið erfiðara að drepa óvin þegar hann hefur dreift úr sér yfir stórt svæði, alveg eins og DSSS merkið. Líkurnar á því að eitt stakt skot hitti hermann á vígvellinum eru takmarkaðar mjög mikið þegar þeir hafa dreift úr sér. Með DSSS þá er fjarstýrimerkið þitt álíka dreift yfir tíðnisviðið og þess vegna nánast ónæmt fyrir skothríð óvinanna, nema hún sé þeimur meiri.

Til samanburðar þá má gera út af við þéttan hóp hermanna með einni sprengjuvörpu, fallbyssukúlu eða vélbyssuskothríð. Það væri eins og gamli fjarstýribúnaðurinn þinn væri „skotinn niður" ef truflun eða kveikt væri á annari fjarstýring á sömu tíðni þegar þú værir að fljúga.

En hvað ef einhver kveikir á öðru DSSS kerfi sem notar sömu rás og þú ert nú þegar á?

Af því að DSSS dreifir hermönnunum þínum út um allan vígvöllinn þá er nóg pláss fyrir aðra herdeild frá allt öðrum her að valsa um svæðið án þess að þær rekist á. Þess vegna geta mörg DSSS kerfi verið í gangi á sömu rás án truflanna.


Hvaða fjarstýringar nota DSSS?

Af þeim sem eru í boði núna þá nota þau öll eitthvað form DSSS en önnur s.s. Spektrum/JR og Futaba FASST nota aðrar tækni til að bjóða upp á enn meiri vernd gegn truflunum. Mörg önnur kerfi hafa eignast lítinn hóp fylgjenda, t.d. XPS, Assan og iMax. Þau nota einnig DSSS en virðast ekki hafa nein úrræði til að ráða við lamandi truflanir sem önnur kerfi gætu staðist.

Meira um það síðar...


Hvernig virka FHSS fjarstýringar
- Frequency Hopping Spread Spectrum
Mynd

Frequency Hopping Spread Spectrum kerfi virka með því að hoppa stanslaust á milli ákveðina tíðna. Ef þú hefur lesið lýsinguna á því hvernig DSSS kerfi virka þá ertu sennilega að velta því fyrir þér hver munurinn sé?

Þar sem DSSS virkar eins og bíll sem skiptir ört á milli akreina á hraðbraut á það miklum hraða að hann virðist nánast vera á þeim öllum á sama tíma en með FHSS skiptir hann ekki bara ört milli akreina heldur yfir á nýjar hraðbrautir. Á fjarstýrimáli þá þýðir þetta að merkið sem fjarstýringin sendir frá sér hoppar ekki eingöngu innan ákveðinnar tíðnar heldur á milli margra mismunandi tíðna. Það getur virst þannig, alla veganna á blaði, að FHSS kerfi ættu að vera enn frekar ónæm gagnavart umferðarhnútum sem mundu valda vandamálum með DSSS kerfum. Það er vegna þess að á meðan ekkert kemst áfram í miklum umferðarhnút þá getur skiptingin yfir á aðra, og fáfarnari, hraðbraut leyft fjarskiptunum að halda óhindrað áfram.

Við venjulegar kringumstæður þá hoppar FHSS kerfi milli fyrirfram ákveðina rása eftir handahófskenndri röð. Þegar mörg FHSS kerfi eru í notkun á sama tíma þá þýðir þetta handahófskennda hop að það er mjög ólíklegt að þú lendir í því að nokkrar fjarstýringar séu að reyna að nota sömu rásina(hraðbraut) á sama tíma.


Hvernig tekur FHSS á truflunum
- Vígvallar samlíkingin

Í hreinu FHSS kerfi þá eru hermennirnir þétt saman eins og með gömlu kerfin á „mjóu tíðnunum" en af því að þeir eru alltaf á ferðinni milli vígvalla þá eru áhrif af skothríð óvinar á hverjum vígvelli mjög takmörkuð. Ímyndað þér að heill her sé fluttur á vígvöll en áður en þú áttar þig á því þá er búið að færa hann yfir á annan vígvöll. Augljóslega veldur þetta því að FHSS kerfi eru erfið skotmörk.

Hinsvegar eru FHSS kerfin sem við sjáum notuð í fjarstýringum í dag blanda af bæði DSSS og FHSS. Það þýðir það að merkið er ekki bara dreift yfir heila rás heldur hoppar stöðugt á frá einni rás til annarar. Það þýðir að FHSS kerfi er einstaklega erfitt skotmark til að hæfa, fyrir hvaða truflun sem er... og þegar þú ert að fljúga fjarstýrðum módelum þá eru það mjög góðar fréttir.


Hvaða fjarstýringar nota FHSS

Í augnablikinu eru bara 2.4GHz Spread Spectrum kerfi sem nota FHSS. Þau eru FASST frá Futaba og Airtronic.


Belti og axlabönd
- Ekki lánastarfssemi íslenskra banka heldur enn meiri vörn gegn truflunum!

Þú hefur kannski nú þegar gert þér grein fyrir því að Spread Spectrum tæknin býður upp á margar mjög snjallar lausnir til að draga úr áhrifum truflanna og leyfa mörgum fjarstýringum að vera í gangi á sama tíma án þess að þurfa á tíðnitöflu að halda. Þökk sé því hvernig þessi kerfi dreifa merkinu yfir 2.4GHz tíðnisviðið og þökk sé því hvernig þau hoppa á milli tíðna þannig að þau séu ávallt hreyfanlegt skotmark, þá þarf virkilega sterka truflun til að hafa einhver áhrif á merkið.

Það hefur nú þegar verið útskýrt, alla veganna á blaði, hvernig Futaba FASST kerfið er líkast til skotheldasta Spread Spectrum kerfið á markaðnum en JR/Spektrum kerfið hefur líka gert sig tvöfalt líklegri til að standast truflanir, ekki með því að hoppa um allt tíðnisviðið heldur með því að bjóða upp á vararás.

Eins og áður hefur verið vikið að þá getur sterk truflun á ákveðinni tíðni yfirgnæft DSSS kerfið svo JR/Spektrum dregur úr áhættunni með því að nota tvær rásir á sama tíma. Þetta þýðir að jafnvel þó að mjög sterkt truflandi merki birtist á þeirri rás sem JR/Spektrum er að nota þá missir þú ekki stjórnina og það er af því að seinni rásin er á annari tíðni og hún er nánast örugglega laus við þessa truflun.

Ábyrgir framleiðendur gera sér grein fyrir því að kerfin þeirra geta lent í því að stjórna mjög stórum, dýrum og hugsanlega hættulegum módelum sem þeir reyna að hafa ráð undir rifi hverju. Futaba með því að hoppa stöðugt milli rása og JR/Spektrum með því að nota vararás(s.s. varaleiðir).


Hvað er fjölbreytni?

Annað sem er mikilvægt við 2.4GHz Spread Spectrum kerfin er það sem er kallað fjölbreytni. Fjölbreytni er nauðsynleg af því að merkin á 2.4GHz haga sér talsvert frábrugðið frá því sem við eigum að venjast af lægri tíðnisviðum s.s. 35MHz. Þar sem gömlu „þröngbanda“ komast í gegnum flesta hluti s.s. hús, tré, girðingar og flugmódel þá haga 2.4GHz sér nokkuð svipað ljósi, hlutir í umhverfinu annað hvort gleypa eða kasta því frá sér.

Þessi gleypni og frákast 2.4GHz merkja veldur tilvikum þar sem loftnet móttakarans eru skermuð af einhverjum hluta módelsins eða verða jafnvel fyrir draugaáhrifunum, sem margir kannast við frá eldri tíð í sjónvörpunum, þar sem merkið hafði endurkastast frá trjám eða byggingum(kallað fjölstíga). Áhrif skermunnar og fjölstíga veldur því að það er vel hugsanlegt að móttakarinn heyri ekki nógu greinilega í fjarstýringunni til að geta skilið merkið sem hún er að senda.

Einfaldasta(og besta) lausnin á þessu vandamáli er að nota fleiri en eitt loftnet og/eða fleiri en einn móttakari í módelinu þínu. Með því að koma þessum loftnetum eða móttökurum fyrir á mismunandi stöðum(jafnvel bara örfáir sentimetrar á milli) þá getur annar þeirra tekið við ef hin fær ekki nógu skýrt merki. JR/Spektrum kerfið leyfir marga móttakara, allt að fjóra eða fleiri og sumir þessara móttakar hafa mörg loftnet. Án efa er þetta ein mesta fjölbreytnin sem þú getur haft. Á mjög stórum módelum getur þú verið viss um að það eru nákvæmlega engar líkur á skermun eða fjölstígum með því einu að auka fjölda, og dreifingu, móttakara í flugmódelinu. Futaba FASST kerfið notar tvö loftnet á einum móttakara. Á blaði er þetta ekki jafn gott og JR/Spektrum möguleikarnir en það virðist virka nógu vel í reynd.


Samantekt eftir tegundum
- Berum saman 2.4GHz Spread Spectrum kerfin

Ég er viss um að stóra spurningin sem flestir vilja svar við er hvaða Spread Spectrum kerfi er best?

Í sannleika sagt þá eru stóru nöfnin(JR/Spektrum og Futaba) bæði með mjög frambærileg kerfi sem hafa sannað sig bæði í áræðanleika og frammistöðu. Auðvitað ef þú spyrð nógu marga aðila þá hlíturðu að rekast á einhvern sem hefur lent í vandamálum með nánast hvaða fjarstýringarmerki sem er og þessi 2.4GHz kerfi eru ekkert betri.

Það borgar sig að hafa það í huga að við erum enn að fást við fyrstu kynslóðar tæki svo það er óhjákvæmilegt að við sjáum einhver vandamál og vandræði sem þarf að taka á. Bæði JR/Spektrum og Futaba hafa nú þegar lent í vandamálum en nokkurs stöðugleika hefur gætt upp á síðkastið. Ég held ekki að neinn verði vonsvikinn af því að versla annað hvort þessara stóru nafna svo valið takmarkast sjálfsagt af fjárhagnum og módelunum sem þú flýgur.

Hins vegar eru valkostir á móti stóru nöfnum þó þau hafi ekki jafn mikla reynslu og útbreiðslu.

XPS módúl kerfið er einnar rásar óhoppandi DSSS kerfi sem býður hvorki upp á fjölbreytni í loftnetum né móttökurum. Þrátt fyrir að margir hafi lýst góðum árangri af notkun á þessu kerfi þá borgar það sig að skoða hin ýmsu spjallborð á netinu til að lesa um vandamálin sem allir hinir hafa lent í með XPS. Kannski er ekki stærsta vandamálið tæknin heldur maðurinn sem stendur á bak við vöruna og það hvaða leið hann hefur ákveðið að fara til að nálgast markaðinn. Allt frá upphafi hefur XPS kerfið verið yfirlofað en ekki staðið í skilum Það er vaxandi fjöldi fyrrum aðdáenda kerfisins sem tala nú frjálslega um það hversu vonsviknir þeir eru, yfirleitt eftir að hafa tapað módelum vegna óútskýrðra læsinga eða annara bilanna.

Annar valkostur er Assan módúl kerfið sem kemur frá Kína, en það er annað DSSS óhoppandi kerfi. Hins vegar býður Assan upp á móttakara með fjölbreytni í loftnetum og það hefur lítið heyrst um vandamál hingað til.

Annar nýr aðili á markaðnum er iMax 9 rása kerfi frá Kína.

Ólíkt XPS og Assan þá er iMax kerfið með sína eigin fjarstýringu þó það sé hægt að skipta um módúl í henni. Það er allt of snemmt að segja til um öryggi, stöðugleika og afköst iMax kerfisins þar sem það er nýkomið á markaðinn(sjá úttekt á RCModelReviews.com.


Hvað er svo best?

Eins og ég sagði áður þá er ekkert „bestasta" kerfi því forgangur hvers og eins er mismunandi.

Ef þú vilt kerfi sem býður upp á breitt svið móttakara af mismunandi stærð og getu með mikilli fjölbreytni fyrir stærri módel þá hefur JR/Spektrum mikið að bjóða þér. Ef þú leitar hins vegar að tæknilega fullkomnu kerfi þá er erfitt að líta fram hjá FASST kerfinu hjá Futaba. Því miður eru ekki margir valmöguleikar þegar kemur að móttökurum og Futaba hefur verið hægt að koma sumum valmöguleikum frá sér.*

Ef þú ert tilbúinn að vera fremstur í línunni þá er nýja bylgjan af ódýrum vörum frá Kína eitthvað sem þú vilt kannski prófa. Farðu samt vel yfir lýsinguna á þeim og hafðu augun opin á spjallborðum á netinu. Sem fyrstu kynslóðar vörur þá getur verið að í þeim leynist ófundin vandamál eða takmarkanir.

Eiginlega eina kerfið á markaðnum sem ég myndi hika við að mæla með er XPS.

Eins og ég sagði áður þá eru margir sem hafa ekki lent í vandræðum með þetta kerfi og allt hefur virkað fullkomnlega hjá þeim. Hins vegar frá tæknilegu sjónarmiði þá er ekki hægt að sanna margar fáránlegar kröfur sem haldið er á lofti af framleiðandanum og vaxandi fjöldi óánægðra viðskiptavina hlítur að valda miklum áhyggjum.


Spurt og svarað um 2.4GHz
Mynd

Sp. Er það satt að það sé ekki hægt að skjóta þig niður á 2.4Ghz?
Sv. Það er satt að aðrar fjarstýringar á 2.4GHz geta ekki skotið þig niður en það eru samt alltaf líkur á því að annars konar truflanir valdi því að þú missir stjórn á módelinu. 2.4GHz tíðnibandið er notað af miklum fjölda rafmagnstækja, allt frá þráðlausu interneti og yfir í örbylgjuofna. Það er engin trygging fyrir því að eitt af þessum tækjum valdi ekki truflunum hjá þér.


Sp. Eru ókostir við módúl kerfin á 2.4GHz?
Sv. Það eru einhverjir ókostir við það að nota módúl kerfi en ekki kerfi sem eru byggð sem 2.4GHz frá grunni. Nýrri 2.4 kerfin bjóða upp á hærri upplausn og hraðari svörun. Innbyggða JR kerfið býður jafnframt upp á einstakan möguleika(Model Match) sem kemur í veg fyrir að þú fljúgir með vitlaust módel valið í minni fjarstýringarinnar.


Sp. Get ég notað þau servó sem ég á í dag með 2.4GHz?
Sv. Öll þau 2.4 kerfi sem í boði eru í dag eru samhæfð við eldri servó(hliðræn eða stafræn). Það er talað um nýja kynslóð af algjörlega stafrænum servóum sem yrðu í boði sérstaklega fyrir þróuð Spread Spectrum kerfi en ekkert hefur enn sést. Eina undantekningin er sú að nokkur stafræn servó frá Hitec virka ekki fullkomnlega(eða alls ekki) með einhverjum Futaba FASSt móttökurum vegna lágs straums á merkjavírnum.


Sp. Hvað veldur læsingu á 2.4GHz?
Sv. Spread Spectrum kerfi virka mjög svipað PCM kerfum alla veganna þegar kemur að því að bregðast við sterkum truflunum. Ef þú ert nógu óheppinn til að lenda sterkri truflun sem veldur rofi á sambandinu milli móttakara og fjarstýringar þá fer móttakarinn í biðstöðu/læsingarham og svo í failsafe(ef hann hefur verið stilltur svo). Það sem veldur svona læsingu/failsafe getur verið næstum því hvað sem er en þó ekki takmarkað við truflanir. Með Spread Spectrum þá er yfirleitt meiri líkur á því að lélegar rafhlöður eða slæm ísetning valdi truflununum.


Sp. Ætti ég að skipta yfir í 2.4GHz núna eða bíða?
Sv. Það fer algjörlega eftir því í hvaða stöðu þú ert. Ef þú hefur aldrei upplifað truflun með núverandi „mjóbandskerfi" og átt ekki í öðrum vandræðum með tíðnistjórnun á flugvellinum þínum þá er engin ástæða fyrir því að flýta sér út í búð og versla 2.4GHz kerfi. Ef þú býrð hins vegar við það að truflanir eru ekki óþekktar eða það eru langar biðraðir eftir lausri rás við tíðnitöfluna þá gæti borgað sig að skipta.

Ef þú ert nýbyrjaður í sportinu og átt engan fjarstýribúnað þá væri eflaust viturlegt að byrja strax í 2.4GHz.


Sp. Afhverju skiptir svona miklu máli að vera með góð móttakara rafhlöður með 2.4GHz?
Sv. Inn í hverjum Spread Spectrum móttakara eru raðir af litlum tölvumkubbum sem þurfa að framkvæma milljónir flókinna aðgerða án mistaka á hverri sekúndu. Til þess að þær virki örugglega þá þurfa þær stöðugt flæði straums. Ef sá straumur er truflaður, jafnvel bara í sekúndubrot geta tölvukubbarnir hrunið eða hætt að vinna tímabundið.

Það þýðir að ef móttakara rafhlaðan, BEC eða spennujafnari eru ekki að standa sig þá muntu nánast örugglega lenda í vandræðum með nýja 2.4GHz fjarstýringuna þína.

Nema þú sért að fljúga þyrlum þar sem servóin ráða ekki við auka voltin þá er sterklega mælt með því að þú notir 5 sellu(6V) móttakarapakka eða jafnvel einn af nýju 2ja sellu A123 pökkunum(6.4V) til að draga frekar úr líkunum á að því að lenda í vandræðum vegna ónógs straums.

Mörg nútíma, kraftaservó, geta dregið gríðarlegan straum og ef rafhlaðan þín er ekki undir það búin þá getur það valdið því að straumurinn sem hún skilar frá sér minnkar stórkostlega. Ef straumurinn skyldi detta niður fyrir 4.5V sem sumir móttakarar þurfa til að starfa þá getur læsing eða endurræsing átt sér stað. Mundu að þegar tölvan í 2.4GHz móttakaranum krassar þá er mjög líklegt að módelið þitt krassi líka. Góðar rafhlöður með nógu mikla rýmd og full hlaðnar eru algjör nauðsyn þegar kemur að öruggu flugi.


Sp. Get ég notað 2.4GHz kerfi í carbon svifflugunni minni?
Sv. Því miður er carbon frekar góð skermun gagnvart 2.4GHz sendingum. það þýðir að ef þú setur upp 2.4GHz móttakara inn í carbon skrokk þá mun hann varla virka mjög vel ef hann þá yfirhöfuð virkar eitthvað. Vegna þessa þá eru margir sviflugmenn sem halda sig við gömlu „mjóbanda kerfin" þar sem ekki aðeins merkið stendur betur að vígi gagnvart carbon heldur er einnig hægt að koma einhverjum hluta loftnetsins út fyrir skrokkinn.

Sumir 2.4GHz móttakarar eins og þeir frá Futaba bjóða upp á lengd loftnet til þess að auðvelda að koma þeim í gegnum carbon skrokka og út í heim. Það er samt mjög áríðandi að vera viss um að a.m.k. eitt loftnet sjáist, sama frá hvaða sjónarhorni það er.



Þýtt af: http://www.rcmodelreviews.com/spreadspectrum01.shtml þann 11.maí 2008
_________________________________________
* Athugasemd
Síðan greinin var skrifuð þá hefur Futaba komið með fleiri gerðir af móttökurum á markaðinn.
Icelandic Volcano Yeti
Passamynd
Birgir
Póstar: 74
Skráður: 4. Apr. 2005 20:52:21

Re: 19.05.2008 - Smá útskýring á 2.4GHz

Póstur eftir Birgir »

Váá og áá.... ehe,, :) en annars frábær útskýring og að sjálfsögðu frábær þýðing .
Menn verða að gefa sér góðan tíma í að lesa þetta.
Vel gert m8 :) Takk.... Biggi
"If a Swiss banker jumps off a cliff, follow him....there's likely money in it."
Passamynd
Tóti
Póstar: 85
Skráður: 6. Mar. 2006 17:31:02

Re: 19.05.2008 - Smá útskýring á 2.4GHz

Póstur eftir Tóti »

frábær grein.
takk kærlega

kv
Tóti
Helinörd
Þórður K. Einarsson
Raptor 50 - Goblin 800 myndatökuþyrla
www.helifilms.is
Svara