31.12.2012 - Áramótaraus

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 10786
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2012 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt árið á enda og manni finnst það varla byrjað! Það er því ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða það helsta sem gerðist á árinu.

Mörg ný og glæsileg módel litu dagsins ljós á árinu og má finna þó nokkuð marga smíðaþræði hér í smíðahorninu tengda þeim. Því miður kvöddu líka nokkur módel á árinu en það er veruleiki sem við búum alltaf við.

Flugmódelfélag Suðurnesja hélt sinn aðalfund í lok janúar en engar hallarbyltingar urðu. Magnús Kristinsson formaður og Sverrir Gunnlaugsson gjaldkeri fengu rússneska kosningu í áframhaldandi stjórnarsetu.

Flugmódelfélag Akureyrar fylgdi svo rétt á eftir með sinn aðalfund en Guðmundur Haraldsson lét af störfum sem gjaldkeri FMFA og kom Sigurður B. Jóhannsson í hans stað. Aðrir fengu rússneska kosningu.

Flugmódelsmiðja Vestfjarða hélt sinn aðalfund í mars en þar urðu ekki miklar breytingar en þó lét Halldór Emil Hallsson ritari af störfum sökum anna í starfi í fjarlægum löndum, Kristján Páll Vigfússon tók við keflinu af honum. Aðrir fengu rússneska kosningu.

Inniflugið kom sterkt inn og var flogið nánast alla sunnudaga, eða svona þegar stórhátíðir og veðurofsi voru ekki að trufla, út apríl og var þráðurinn tekinn upp eftir sumarfrí í byrjun október.

Veðrið var ekki mikið að trufla okkur í sumar en þó þurfti að slá nokkrum samkomum á frest. Allir klúbbarnir voru með fastar samverustundir á félagsvöllunum í sumar og voru þau kvöld vel sótt af félagsmönnum sem og gestum.

Flugmódelfélag Suðurnesja og Þytur héldu í sameiningu Íslandsmeistaramót í hraðflugi(e. pylon race) og voru 4 umferðir flognar en félögin skiptust á að halda mótin. Stinger 64 varð fyrir valinu ásamt einni tiltekinni gerð af rafhlöðu svo það var bara flugmaðurinn(og umhverfisbreytur) sem skiptu máli. Eftir að úrslitin höfðu verið tekin saman í lok sumars stóð Sverrir Gunnlaugsson uppi sem sigurvegari. Óskum við honum til hamingju með það.

Flugmódelfélag Suðurnesja hélt sína árlegu flotflugkomu þann 22.maí en að þessu sinni var hún haldin tvisvar sama kvöldið. Fyrst fyrir eina þátttakandann sem var mættur og svo tíu mínútum eftir að henni var slaufað var hún sett aftur þegar flugmaður númer tvö mætti á svæðið.

Flugmódelfélag Suðurnesja fagnaði 20 ára afmæli í byrjun júní með flugdagskrá sem hófst fimmtudaginn 31.maí, kom við á Tungubökkum 1.júní og lauk svo mánudaginn 4.júní á Arnarvelli eftir frábæra flugkomu yfir helgina. Íslandsvinirnir Ali Machinchy og Duncan Horlor hundtryggur aðstoðarmaður hans aðstoðuðu þá FMS menn við að fagna áfanganum. Það var flogið, borðað, skálað, spjallað, djammað og sólbrunnið en ekki endilega í þessari röð. Ali flaug vel á þriðja tug flugmódela, hjálpaði mönnum að fínstilla módel og leiðbeindi þeim sem þess óskuðu. Hreint út sagt frábærir dagar, heiðblár himinn og ekki ský að sjá, Bretunum tókst meir að segja að sólbrenna!

Helgina 16.-17.júní var svo komið að því að halda Patró International í annað skiptið. Eins og áður þá var um frábæra flugkomu að ræða og skemmtu flugmódelmenn sér vel og lengi. 2013 verður þriðja árið sem flugkoman verður haldin og nú er um langa helgi að ræða þar sem 17.júní ber uppi á mánudegi. Það er því full ástæða fyrir þá sem ekki hafa mætt að skella sér til Patreksfjarðar og upplifa hina miklu stemmningu sem myndast.

Þriðjudaginn 19.júní hélt svo Flugmódelfélag Suðurnesja sína árlegu lendingarkeppni. Fimm fræknir keppendur mættu til leiks og skemmtu sér konunglega í einni mögnuðustu hliðarvindslendingarkeppni sem sögur fara af! Óskum við Lúðvíki Sigurðssyni innilega til hamingju með sigurinn!

Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls var haldin þann 28.júlí við prýðisgóðar aðstæður. Var mikið flogið og skemmtu menn sér konunglega. Piper Cub flugkoman var svo haldin þann 8.ágúst en sökum úrhellis varð minna úr flugi en vonir stóðu til en menn gerðu veitingunum bara þeimur betur skil!

Þann 11.ágúst hélt Flugmódelfélag Akureyrar sína árlegu flugkomu á Melgerðismelum en að þessu sinni var einnig verið að halda upp á 30 ára afmæli flugvallarins. Íslandsvinirnir Steve Holland og Sharon Stiles mættu galvösk til leik með sendiferðabíl fullan af risamódelum. Sökum hvassviðris var þó frekar fámennt á fluglínunni en margir kusu að geyma módelin í bílum og kerrum sökum veðurs. Það kom þó ekki að sök þar sem Steve tók það að sér að halda fjörinu gangandi. Óhætt að segja að allir viðstaddir höfðu gaman af. Meira líf var þó á sunnudeginum og fengu þeir sem áhuga höfðu að taka í vélarnar hjá Steve, svo sannarlega skemmtileg lífsreynsla fyrir þá sem það þáðu!

Stórskalaflugkoma Einars Páls var svo haldin á Tungubökkum þann 19.ágúst í blíðskaparveðri, gekk hún ljómandi vel og var mikið flogið. Tvær nýjar vélar voru frumsýndar en önnur af þeim var þó eigi ókunnug flugmódelmönnum landsins.

Ljósanæturflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja átti að vera í byrjun september en féll niður sökum veðurs. Menn notuðu þá tækifæri og rifjuðu upp minningar frá afmælisflugkomunni. Innherjar hófu sig svo aftur til flugs í Reykjaneshöllinni í október og verður flogið allar sunnudaga út apríl 2013.

Flugmódelfélagið Þytur hélt svo sinn aðalfund í lok nóvember. Sökum anna þá gaf Eysteinn H. Sigursteinsson ekki kost á sér í áframhaldandi setu í formannsstól en í hans stað var Einar Páll Einarsson kosinn formaður og lét samhliða af starfi meðstjórnanda. Sigurgeir Bjarnason lét einnig af starfi meðstjórnanda en í stað hans kom Örn Ingólfsson og Guðjón Bergmann kom í stað Einars Páls. Stungið var upp á Böðvari Guðmundssyni og Skildi Sigurðssyni sem heiðursfélögum og samþykkti fundurinn það, óskum við þeim til hamingju með nafnbótina!

Haustið var nokkuð milt framan af og var mikið flogið fyrri hluta þess en þó fór að blása talsvert seinni hluta nóvembermánaðar. Snjórinn kom ekki á svæðið fyrr en milli jóla og nýja ársins en í frekar takmörkuðu magni. Hann kom þó frekar snemma fyrir norðan og hefur verið nóg af honum þar síðustu mánuði.

Það lítur sæmilega út með gamlársflug en þó einna best í Hafnarfirði. Flugmódelmenn kalla þó ekki allt ömmu sína í þessum málum og verður eflaust reynt til hins ítrasta að koma módelum í loftið á eftir og kveðja gamla árið.

Þetta er búið að vera aldeilis frábært ár hjá okkur, tveir frábærir flugmenn heimsóttu okkur á árinu og er óhætt að segja að þeir hafi rifið menn á flug með sér!

Heimsóknum á Fréttavefinn fækkaði lítillega á milli ára eða um 2.57% en á sama tíma voru 10.09% fleiri síður skoðaðar og 11.78% aukning í fjölda skoðaðra síðna per heimsókn. Meðal heimsóknartíminn jókst einnig eða um 19.92% þannig að gestir lítið örlítið sjaldnar við en stoppa lengur í hvert skipti. Svona til gamans þá má geta þess að síðustu 8 árin þá hafa um 1.3 terabyte(1300 gigabyte) af efni streymt frá frettavefur.net og út á internetið, þar af rétt tæplega 175 gigabyte á þessu ári. :-)

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.


Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja


Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2011 annálinn! :cool:

Icelandic Volcano Yeti

Passamynd
maggikri
Póstar: 4561
Skráður: 2. Júl. 2005 01:26:30

Re: 31.12.2012 - Áramótaraus

Póstur eftir maggikri »

Flott samantekt hjá þér Sverrir eins og vanalega!
kv
MK

Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 10786
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2012 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Takk fyrir það.
Icelandic Volcano Yeti

Svara