Síða 1 af 9

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 5. Nóv. 2006 21:20:18
eftir Gaui
Sælir félagar og sérstakar kveðjur til Doktors Björns

Mig langar til að lýsa hér smíði minni á Toni Clark Practical Scale Super Cub sem ég fékk nýlega hjá Þresti.
Það þarf líklega ekki að lýsa Toni Clark Practical Scale fyrir ykkur, en ef þið farið á heimasíðunna þeirra, þá getið þið skoðað allt sem þeir bjóða upp á: http://www.toni-clark.com/Default.htm

Ég er með smá reynslu af Toni Clark módelum, sá vin minn smíða Tiger Moth frá þeim fyrir fjölda ára og er, eins og alþjóð veit að setja saman Pitts Special fyrir Þröst. Ég er líka búinn að ganga með það í maganum lengi að setja saman Super Cub, svo að núna virtist vera rétti tíminn.

Venjulega byrja ég á að finna flugvél til að smíða módel af og í þetta sinn fann ég hana í James Bond kvikmyndinni "Licence to Kill". Flugvélin, sem Bond notar til að hoppa ofan á tankbíl að fullri ferð og síðan drepa vonda kallinn, er Piper Super Cub PA-18 150 með skráninguna XB-LOX.

Mynd

Hér sést allt efnið í módelið dreyft yfir smíðaborðið mitt:

Mynd

Það er búið að lóða saman hjólastellið, vélarhlífin er úr mjög þunnum glerfíber, létt og flott og dekkin eru létt. Það fylgja fimm stór blöð af teikningum, ein nýgerð tölvuteikning af vængnum. Það eru smábútar úr tré í fimm eða sex pokum og fullt af balsa og furulistum. Það fylgir líka stór poki með aukahlutum, sem ég tek venjulega og set í box með hólfum svo ég hafi betri aðgang að þeim. Hér sést að það er sæmilegur hellingur af dóti:

Mynd

Það er búið að vinna furulistana þegar maður fær þá. Þeir eru skáskornir þar sem maður þarf að líma þá og það eina sem maður þarf að gera er að finna út hvað fer hvar og líma þá saman:

Mynd

Ég hef hugsað mér að vinna í Super Cub á sunnudögum á meðan ég er líka að smíða Pitts, svo þetta verður dálítið hægt svona í byrjun.

Ég byrjaði á því að líma saman vængendana, sem eru samkvæmt venju hjá Toni, samlímdir úr fjórum 2x20mm balsaræmum. Þær eru bleyttar vel og síðan límdar með hvítu trélími. Þetta tekur alveg sólarhring að þorna, svo það er betra að vera búinn að þessu þegar maður þarf á þeim að halda. Hér sést hvar ég nota tvær farangursteygjur til að halda balsanum á sínum stað við formið, sem fylgdi með:

Mynd

Í leiðbeiningunum, sem eru mjög nákvæmar, bráðfyndnar á stöku stað og bæði á þýsku og ensku, er manni sagt að byrja á skrokknum. Hér sést hvernig maðurþarf að skera til neðri kantinn á neðri langbitunum.

Mynd

Ég eyddi góðum sunnudegi í að sortera allan viðinn, fina það sem mig vanhagaði í skrokkhliðarnar og líma þær saman. Það er sérstök teikning af skrokkhliðunum af því að á venjulegri hliðarmynd eru hliðarnar styttri vegna þess að þær eru dregnar saman inn að miðju aftast. Hér er ég búinn að líma saman hægri hliðina (sem hurðin verður á).

Mynd

Þegar þetta var orðið þurrt setti ég glært límband ofan á allar límingarnar og setti svo vinstri hliðina saman ofan á þeirri hægri. Þannig fæ ég tvær nákvæmlega eins hliðar (vonandi). Ég notaði glært límband vegna þess að það er miklu þynnra en plastið sem ég er með undir og ég vildi geta raðað listunum saman með fingrunum og látið þá passa saman eins vel og hægt var.

Sjáumst næsta sunnudag.

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 5. Nóv. 2006 21:21:44
eftir Gaui
Bæ þö wei, ég er líka að lýsa þessu á ensku á RCScaleBuilder.com. Ef eitthvað skemmtilegt kemur upp þar, þá set ég eitthvað af því hingað inn.

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 5. Nóv. 2006 22:01:56
eftir Árni H
Sem sagt hér: http://www.rcscalebuilder.com/forum/for ... PN=1&TPN=1

Ótrúleg góður vefur þessi rcscalebuilder!

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 8. Nóv. 2006 18:22:18
eftir Messarinn
Djö..... ertu act-ífur Guðjón :D ég ætla sko að verða kennari :D :D

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 12. Nóv. 2006 19:27:14
eftir Gaui
Nú höldum við á með smíðina.
Þegar ég setti hliðarnar saman, þá tók ég eftir því að balsastykkin sem koma saman í vinstri hliðinni voru ekki laveg bein, svo ég skellti þeim örstutt á sandpappírsblað til að rétta þau af og fá góða límingu. Þegar það var gert, þá límdi ég hliðarstykkin saman, en þá varð vinstri hliðin örlítið lægri en sú hægri.

Mynd

Eftir á að hyggja, þá var góð líming ekki svo mikilvæg vegna þess að innaná hliðarnar er límdur krossviður. Til að lagfæra þessa missmíð, þá setti ég ræmu af 1,5mm basla ofaná vinstri hliðina og pússaði hana síðan þar til hliðarnar voru eins.

Mynd

Næsta verk var að skera til 0,8mm krossvið sem fylgir með og líma hann innan í hliðarnar. Hér þarf maður að hafa hugann við verkið, því að annars endar maður með tvær vinstri hliðar, sem er ekki gott. Tvær 30mm MDF plötur og nokkrir múrsteinar sjá um að halda krossviðnum á síðnum stað á meðan epoxýið harðnar.

Mynd

Á meðan það gekk, þá klippti ég út fjögur horn úr afganginum af krossviðnum og límdi á sinn stað innan á servófestingarnar aftast undir stélinu.

Mynd

Hér eru hliðarnar með krossviðinn á sínum stað:

Mynd

Næst er að setja skrokkrifin saman. Tvö þeirra eru gerð úr furulistum sem koma í réttri lengd í kittinu. Hin eru gerð úr balsalistum sem maðurþarf að skera til og líma saman. Þessi skrokkrif eru sérlega létt og sterk.

Mynd

Í leiðbeiningunum segir nú að maður þurfi að velja hvar og hvernig maður kemur hljóðkútnum fyrir vegna þess að maður þarf að skera eldvegginn til eftir því hvaða kerfi maður vill hafa. Toni Clark gerir ráð fyrir að maður noti eina af þeim Zenoah mótorum sem hann selur og leiðbeiningarnar ganga alveg út á það. Ég ætla aftur á móti ekki að nota Zenoah, heldur Moki 45. Ég á tvo svoleiðis mótora og nota annan í Balsa USA sopwith Pup sem ég smíðaði síðastliðinn vetur. Það þarf ansi mikið til að sannfæra mig um að ég ætti ekki að nota Moki 45. Hann er sérlega áreiðanlegur og auðveldur í gang. Þar sem ég nota Moki-inn, þá þarf ég að gera ýmsar breytingar á framendanum.
Í fyrsta lagi, þá þarf ég að smíða sérstakt box sem heldur mótornum á réttum stað því hann er miklu styttri en Zenoah/Hydromount kerfið frá Toni Clark sem sýnt er á teikningunum.
Í öðru lagi, þá þarf ég að setja hliðarhallann sem sýndur er á eldveggnum á nýja boxið. Eldveggurinn verður þá bara beinn fyrir á skrokknum.
Í þriðja lagi ætla ég ekki að leiða útblásturinn í gegnum skrokkinn og því get ég sett tankinn á eðlilegan stað fyrir aftan eldvegginn, en ekki aftast í stjórnklefanum eisn og sýnt er á teikningunni (mjög skrýtinn staður, en skiljanlegur ef maður ætlar að fylla framhluta módelsins með eldheitum hljóðkút). Hér sést Moki 45 mótorinn og eitthvað af þeim breytingum sem ég þurfti að rissa á teikninguna.

Mynd

Síðan sagaði ég úr eldveggnum og næsta rifi fyrir aftan hann og bjó til mótorfestingu, hliðar og botn sem færa mótorinn þessa tæpu 4 sentimetra sem þarf.

Mynd

Nú gat ég farið að líma rifin á hliðarnnar. Ég byrjaði með rifi nr. 22, sem er rifið næst fyrir aftan eldvegginn. Hér situr það á sínum stað með tvo vinkla, sinn hvoru megin, ásamt blýi sem heldur því niðri.

Mynd

Þetta ver það síðasta sem ég gerði í kvöld áður.
Sjáumst í næstu viku.

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 19. Nóv. 2006 15:28:37
eftir Gaui
Hér kemur afrakstur þessarar viku
Toni Clark er húmoristi mikill og á völdum stöðum í leiðbeiningunum segir hann manni að skilja eitthvað sem maður hefur gert eftir yfir nótt svo það fái að harðna. Síðan bætir hann því við að maður ætti alls ekki að hlaupa út á næstu krá eða kveikja á heiladrepandi kvikmynd í sjónvarpinu, heldur fletta yfir á þessa eða hina síðuna í leiðbeiningunum og byrja það verk sem þar er lýst.

Ég fylgdi einni slíkri fyrirskipan og byrjaði á stélkambinum og hliðarstýrinu. Stélflöturinn og hæðarstýrin verða að bíða aðeins því ég ætla að gera dálitlar breytingar þar og efnið sem ég ætla að nota er ekki komið.
Hér sjást hlutarnir sem notaðir eru við að setja saman stélkambinn og hliðarstýrið. Toni notar samlokuaðferðina og lætur mann fá kambinn og stýrið tilbúið til að líma saman og síðan setur maður 5x5mm rifin á og samlímir brúnina á.

Mynd

Hér eru rifin komin á. Athugaðu að ég skar út vasana fyrir lamirnar áður enég límdi rifin á. Lamirnar munu passa vel í vasana þegar ég er búinn að líma þunnan balsa sitt hvoru megin. Athugaðu líka að pósturinn aftan á kambnum er úr tveim stöngum af 5mm furu. Þannig verður pósturinn mjög sterkur en jafnframt léttur.

Mynd

Hér er búið að samlíma brúnirnar. Í það fær maður fjórar ræmur af 2mm x 12mm balsa. Það stendur ekkert um það í leiðbeiningunum, en ég pinnaði kambinn og stýrið niður í réttri afstöðu og samlímdi síðan brúnina á í einu lagi. Nú eru kamburinn og stýrið föst saman í einu stykki og ég ætla að láta þau vera það þangað til ég þarf þá þessum hlutum að halda í smíðinni.

Mynd

Áfram með skrokkinn.
Ég límdi vinstri hliðina á skrokkrifin sem ég var búinn að líma á hægri hliðina áður. Hér er nauðsynleggt að gera allt mjög vandlega og með 30 mínútna epoxýi hafði ég góðan tíma til að gera allt rétt (vona ég).

Mynd

Næst þurfti ég að líma saman boxið fyrir mótorinn minn. Fyrst límdi ég inn hliðarnar og botninn:

Mynd

Síðan kom mótorfestingin og lokið:

Mynd

Til að klára daginn setti ég botnstykkin þar sem hjólastellið festist með tveim stálteinum sem eiga að taka við vængstífunum. Þetta er allt límt á með hægvirku epoxýlími.

Mynd

Og að lokum límdi ég á sinn stað innan í skrokkinn kubbana sem halda blindrónum fyrir hjólastellið.

Mynd

Komið nóg í dag --- sjáumst í næstu viku.

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 26. Nóv. 2006 19:12:13
eftir Gaui
Jæja, þá er vika liðin og Cubburinn farinn að líta Cubbslega út.

Skrokkrammarnir eru límdir í með CA lími, bandi og þvingu. Þvingan er notuð til að draga hliðarnar saman, ramminn er settur á sinn stað og límdur fastur með CA lími. Bandið er notað til að sjá til þess að skrokkurinn verði beinn. Hér er rammi númer tvö límdur í:

Mynd

Hér eru allir rammarnir komnir í. Bandið sýnir greinilega ef skrokkurinn tekur á sig banana-lögun.

Mynd

Stélsætið er gert úr tveim balsakubbum á hvorri hlið. Maður þarf að byrja á því að stilla sætið í rétta lengd áður en það er límt í:

Mynd

Síðan eru hlutarnir límdir á sinn stað aftan á skrokknum:

Mynd

Vængmiðjan er næst. Fyrst er mát sett saman með CA lími og rótar-rifin eru síðan límd á það.

Mynd

Þetta mát með rótar-rifin á er síðan sett uppá ramma 11 og 12 og maður býr til passa sem ákvarða hversu langt niður á þessa ramma rótar-rifin renna. Hér er mikilvægt að fara varlega, því þetta ákvarðar áfallshornið á vængnum. Þegar maður er ánægður með allar mælingar, þá límir maður rótar-rifin við ramma 11 og 12 með hægþornandi epoxý lími.

Mynd

Skrokkurinn er nú farinn að verða frekar Kubbs-legur.

Mynd

Sjáumst í næstu viku.

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 3. Des. 2006 18:48:09
eftir Gaui
Jæja, þá kemur vikuskammturinn þessa vikuna.

Skrokkurinn hrekkur nokkuð hratt saman og hér er ég búinn að setja ofan á skrokkrifin. Það koma listar ofaná og utaná þetta seinna.

Mynd

Ég er síðan búinn að setja rif 13 á sinn stað, afturbrúnina á milli endarifjanna og smá hluta af klefaþakinu á milli rifjanna.

Einn tilgangur með smíði þessa módels er að toga svifflugur og til að það sé hægt verður að búa til tog-festingu. Hún er með í kittinu, en það þarf að setja hana saman úr nokkrum hlutum. (það má e.t.v. segja frá því hér að ég þurfti að lesa leiðbeiningarnar nokkrum sinnum og skoða teikninguna mjög vandlega áður en ég fattaði hvað ég átti að gera.) Það erfiðasta er að bora litla rörið innan úr stóra rörinu eftir að þau hafa verið slaglóðuð saman. Þetta tók mig tvær atrennur og eins gott að ég átt auka koparrör í pússi mínu. Hér eru hlutarnir tilbúnir:

Mynd

Og hér er ég búinn að líma þá saman og ofan á skrokkrif 12. Þetta er mjög einfalt kerfi í raun og þarf bara smá lykkju á toglínuna til að festa hana í.

Mynd

Á myndini hér fyrir ofan má líka sjá smá búta af koparröri sem taka við stillipinnum úr stáli þegar vængurinn er settur á.

Næsta skref var að búa til servóbakka fyrir togfestinguna og hliðarstýrisservóið. Á þessum bakka er líka armur fyrir tog-tog böndin í hliðarstýrið. Þessi bakki er settur saman á teikningunni fyrir utan skrokkinn og síðan límdur á sinn stað inn í skrokkinn. Hér er bakkinn með arminum. Á þessa mynd vantar kubb fyrir vírinn í togfestinguna:

Mynd

Og hér er búið að líma þetta innaní skrokkinn og skrúfa servóin á sinn stað. Ég nota eld-gamalt FP-S121G hjólastellservó fyrir togið vegna þess að þannig servó draga ekki eins mikinn straum og venjuleg servó þegar þau eru ekki að gera neitt.

Mynd

Og þá var komið að lokinu yfir servóin og móttakarann. Það er gert úr 1,5mmm krossviði og furu-ramma. Ég sagaði út alla hluta rammans og límdi þá á plötuna:

Mynd

Of svo byrjaði ég á festingununum fyrir lokið. Þær eru gerðar úr 12x12mm furulistum sem ég átti að bora út með 5,5mm bor og síðan líma M3 snitthulsu inn í. Gatið reyndist afar erfitt. Ég boraði mjög varlega með súluborvél, en tókst samt að rústa tveim furubútum og meiða mig á fingrunum þegar bútarnir fóru að snúast hraðar en augað á festi. Sem betur fer átti ég 12mm krossvið í ruslakistunni svo ég gat sagað út nýja búta og borað þá.

Mynd

Þá kom í ljós að 5,5mm gatið var of stórt vegna þess að hulsurnar eru bara 5,0mm í þvermál. Þær voru því lausar í þegar ég ætlaði að fara að líma þær. Ég geri ráð fyrir að með þessu sé möguleiki að koma meira lími í götin, en það hefði verið betra að gatið væri það þröngt að ég hefði þurft að negla huslurnar í. Þetta kennir manni að mæla allt áður en maður fer bara í blindni eftir því sem stendur í leiðbeiningunum.

Mynd

Til að líma hulsurnar í setti ég smá búta af eldsneytisslöngu upp á M3 bolta, skrúfaði þá í hulsurnar, smurði líminu á og lét hulsurnar í götin þar til slöngurnar stoppuðu þær. Þannig kom ég í veg fyrir að límið færi ofan í gengjurnar í hulsunum og fékk þær til að sitja á réttum stað þangað til límið harðnaði.

Mynd

Það síðasta sem ég sýni nú er servóið frir inngjöfina. Staðsetningin sem sýnd er á teikningunum gengur ekki fyrir mig því að armurinn á blöndungnum er hinum megin hjá mér. Þetta þýðir að servóið verður að festast á hægri hliðina á módelinu en ekki þá vinstri eins og sýnt er. Hurðin er auðvitað hægra megin, svo ég varð að setja servóið smá spöl fyrir framan hana. Það kom því skemmtilega á óvart þegar ég gat sett servóið í festingunni í gatið sem ég hafði áður sagað í ramma 22. Servóið verður að líkindum sýnilegt ef maður kíkir inn um dyrnar, en þar sem þetta átti aldrei að verða „súper-skala“ módel, þá gerir það ekki svo mikið til.

Mynd

Meira í næstu viku

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 10. Des. 2006 19:05:20
eftir Gaui
Hér eru afrek vikunnar.
Ég fékk hljóðkútinn sem ég pantaði frá Stuart Mackay í Englandi (http://www.moki.co.uk/mackay.htm) Hann er mjög léttur og sterklega smíðaður og virðist vera mjög góður. Það verður gaman að heyra hvernig mótorinn „sándar“ með hann. Til að koma hljóðkútnum fyrir varð ég að skera í burtu allan neðri helminginn af frensta rammanum.

Mynd

Þetta tók þó nokkurn tíma vegna þess að ég vildi ekki skemma restina af módelinu. Þegar þetta var búið komst hljóðkúturinn bara sæmilega vel fyrir:

Mynd

Nú bjó ég til nýtt þil sem ég límdi hallandi fyrir aftan hljóðkútinn:

Mynd

Hér sést hvernig hljóðkúturinn situr fyrir framan nýja þilið. Útblástursrörin koma niður úr skrokknum smávegis fyrir aftan vélarhlífina og í kringum þau verður að vera smá op, en það gerir ekkert til vegna þess að þetta er neðan á skrokknum og kemur ekki til með að sjást. Ég bjó líka til nýjan vír fyrir inngjöfina.

Mynd

Það næsta sem ég gerði var að líma restina af gólfinu á skrokkinn. Ég pússaði það svo vel og gluðaði fylliefni á það (Red Devil One Time Spackling, http://www.reddevil.com/) til að fá það slétt. Hér sést líka krossviðarplatan sem ég sagaði utanum útblástursrörin.

Mynd

Ég bjó til gólf (loft ??) fyrir bensíntankinn úr 4mm krossviði og tveim ræmum af frönskum rennilási. Þessa plötu límdi ég síðan upp í tankrýmið með Fix-All. Það límir allt sem það kemst í samband við, en verður ekki hart, svo ég er að vona að það stoppi eitthvað af víbringnum sem annars færi í tankinn. Á meðan það harðaði (það tekur sólarhring) þá byrjaði ég að planka framaná skrokkinn fyrir framan framgluggann. Ég get ekki klárað það fyrr en Fix-Allið er orðið hart og þá get ég tekið þvinguna. Ég setti líka gluggapóstinn vinstra megin á sinn stað. Pósturinn hægra megin er ekki settur í fyrr en búið er að búa til hurðarnar.

Mynd

Sjáumst síðar

Re: Super Cub frá Toni Clark

Póstað: 17. Des. 2006 17:52:34
eftir Gaui
Jæja

Ég breytti módelinu svolítið í dag vegna þess að það er svakalegur furuplanki í miðju dyraopinu á þessu módeli. Þessi furuplanki er hluti af ramma no. 11 og honum er ætlað að halda rótarrifinu á sínum stað og þar með sjá til þess að vængurinn fari ekki neitt. Ég viðurkenni að þetta módel er ekki það sem maður getur kalla „Super Scale“, og Toni Clark viðurkennir það fyrstur manna, enda kallar hann þetta „Practical Scale“. En rammi no. 11 í miðjum dyrunum er of mikið.

Ég strikaði legu fremri hurðarpóstsins upp á rótarrifið og sagaði síðan út bil sem ég get límt 6,5x6,5 mm furulista í. Ég boraði líka með 6mm bor ofan í skrokkhliðina þar sem efri og neðri hurðarnar mætast. Síðan bjó ég til 6,5x6,5 mm furulista sem ég get límt í götin.

Mynd

Ég límdi þennan lista í með hægharðnandi epoxý lími:

Mynd

Til að vera alveg viss um að það sé nægilegt efni til að halda vængnum á sínum stað þarna hægra megin á skrokknum setti ég líka 4mm beykidíl frá rótarrifinu niður á mitt mælaborðið. Þetta er alveg í skala, en, furðulegt nokk, er ekki sýnt á teikningunni. Ég boraði með 4mm bor í gegnum rótarrifið og niður í mælaborðið. Síðan límdi ég dílinn með 30 mín. epoxi. Díllinn vinstra megin er bara límdur á rifið en ekki í gegnum það.

Mynd

Þegar kemur að því að saga furuna út úr dyraopinu, þá get ég verið alveg öruggur um að vængurinn muni sitja kyrr á sínum stað, sama hvað gengur á.

Næst kom afturglugginn. Ramminn fyrir hann er gerður úr 6mm balsa og opið síðan sagað út. Þetta er klassískt Cub lúkk og það verður ekki hægt að taka þetta módel í misgripum fyrir eitthvað annað eftir þetta.

Mynd

Það síðasta sem ég gerði í dag var að líma strengina aftan á skrokkinn. Þeir þrír sem eru efst eru gerðir úr tveim spítum hver, sá efsti úr tveim 6x3mm balsalistum og hornlistarnir úr einum furulista og einum balsalista. Þannig er miklu auðveldara að setja þá á sinn stað og líma þá með þeirri sveigju sem þarf plús það, að þeir fara ekkert eftir það. Þar að auki er þetta sterkara svona.

Mynd

Sjáumst í næstu viku.