Þá er enn eitt árið á enda liðið, seint verður sagt að þetta hafi verið besta flugmódelsumar á seinni árum en þó náðu menn að nýta tækifærin nú eða hreinlega búa þau til þegar færi gafst.
Mörg ný og glæsileg módel litu dagsins ljós á árinu og má finna þó nokkuð marga smíðaþræði hér í smíðahorninu tengda þeim. Stóri svifflugurnar áttu sterka innkomu á árinu ásamt því sem það fjölgaði í þotuheimum. Fjölþyrlurnar koma einnig sterkar fram á sjónarsviðið og þá sérstaklega í fjölmiðlum landsins enda mikil gróska búin að vera. Því miður kvöddu líka nokkur módel á árinu en það er veruleiki sem við búum alltaf við á meðan við stundum sportið í raunheimum.
Flugmódelfélag Suðurnesja hélt sinn aðalfund í byrjun febrúar en engar hallarbyltingar urðu. Guðni V. Sveinsson og Gunnar M. Magnússon voru endurkjörnir sem vallarstjóri og meðstjórnandi. Flugmódelfélag Akureyrar hélt svo sinn aðalfund á árinu en Árni Hrólfur Helgason hætti í stjórn og í hans stað var kosinn Jón Guðmundur Stefánsson, aðrir í stjórn sátu áfram. Flugmódelsmiðja Vestfjarða hélt sinn aðalfund í lok mars en því miður bárust ekki miklar fréttir af niðurstöðu hans.
Inniflugið kom sterkt inn og var flogið nánast alla sunnudaga, eða svona þegar stórhátíðir og veðurofsi voru ekki að trufla, út apríl og var þráðurinn tekinn upp eftir sumarfrí í byrjun október.
Veðrið var því miður ekki nógu samvinnuþýtt stóran hluta sumars en þó komu einstaka góðviðriðisdagar inn á milli. Grunsamlega oft þegar Einar Páll átti í hlut og hefur því verið ákveðið að hann muni hér eftir sjá um allar uppákomur í flugmódelsportinu!
Allir klúbbarnir voru með fastar samverustundir á félagsvöllunum í sumar og voru þau kvöld vel sótt af félagsmönnum sem og gestum.
Rétt fyrir Páska fékk Fréttavefurinn svo smá andlitslyftingu en þetta er sjötta útgáfa hans síðan 2003. Að þessu sinni var einnig gerð stór breyting á sniðmáti vefsins þannig að hann aðlagar sig að ólíkum skjástærðum og tækjum sem notuð eru til að skoða hann.
21.apríl hóf svo stærsta módelsviffluga landssins, Ka-8B í eigu Steinþórs Agnarssonar, sig til flugs á Tungubökkum í öruggu togi Bleika Pardusins. Hún kom gríðarvel út og var mikið flogið á árinu, til hamingju með gripinn Steinþór.
Flugmódelfélag Suðurnesja hélt sína árlegu flotflugkomu þann 20.maí, fjórir mættu galvaskir til leiks. Þrír á flotflugvélum og einn á skuttogara! Ekkert kom í trollið að þessu sinni og engum flotvélum þurfti að bjarga í land.
Helgina 15. - 16.júní var svo komið að Patró International en þetta er í þriðja skiptið sem flugkoman er haldin. Það er alltaf líf og fjör á þessari flugkomu þeirra Patreksfirðinga og alltaf bætast nýjir menn(og konur) í hópinn og sjá mikið eftir að hafa ekki mætt á fyrri flugkomur! Geri ekki ráð fyrir öðru en við sjáumst hress og kát í júní(14.-15.???) á Patreksfirði!
Laugardaginn 29.júní hóf svo stærsta flugmódel landsins sig til flugs frá Tungubökkum en þar var á ferðinni 50% Cub í eigu Gunnars M. Magnússonar félaga í Flugmódelfélagi Suðurnesja. Óskum við honum til hamingju með vel heppnað frumflug og skemmtilega vél sem lífgar upp á flugmódelflota landsmanna.
Ein óvæntasta samkoma sumarsins „gerðist“ sunnudaginn 30.júní þegar ein mesta veðurblíða seinni tíma hitti á óvenju stóran fjölda gesta á Tungubökkum. Einar Páll var ekki seinn á sér að kalla þetta Miðsumarsflugkomu og úr varð hin mesta skemmtun þar sem þeir allra aðframkomnustu komu frá Patró!
Um miðjan júlí voru nokkrir félagar í Flugmódelfélagi Suðurnesja búnir að gefast upp á vætutíðinni suður með sjó og ákváðu að halda í sólarátt norður yfir heiðar en Sólin hafði ráðgert að eyða helginni í Skagafirðinum. Þar undu þeir félagar svo við flug næstu daga ásamt því sem Siglufjörður var heimsóttur og floginn.
Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls var svo haldin á Tungubökkum laugardaginn 27.júlí í brakandi blíðu. Mikið var um glæsilegar vélar á svæðinu og verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu árum.
Hin árlega flugkoma Flugmódelfélags Akureyrar var haldin laugardaginn 10.ágúst á Melgerðismelum. Oft hafa fleiri flugmenn mætt en sjálfsagt hafa menn látið veðurspána letja sig en þeir sem mættu nutu sín í loftinu allan daginn. Mikið streymi gesta var yfir daginn og hefur fjölmiðlaumfjöllun síðustu dagana fyrir samkomuna staðið fyrir sínu. Vonandi munu heimamenn notfæra sér athyglina sem gömlu auglýsingaskiltin fengu og geru þau nýju þannig úr garði að fjölmiðlar komist ekki hjá því að fjalla um þau þegar þeim verður stillt upp á næsta ári!
Laugardaginn 17.ágúst var svo komið að stórskalaflugkomunni hjá Einari Páli og enn og aftur voru menn staddir á Tungubökkunum í brakandi blíðu! Ég minni á hugmyndina sem var varpað fram hér ofar um að láta EPE sjá um allar flugmódelsamkomur á næsta ári, alla vega blessa dagsetningarnar! Gunni grillmeistari mætti á svæðið og grillaði ofan í viðstadda og vakti það mikla lukku og vonandi munum við sjá hann á fleiri samkomum í framtíðinni.
Sunnudagurinn 18.ágúst og mánudagurinn 19.ágúst voru sögulegir á marga vegu en kvöldfréttatíma RÚV var lokað bæði kvöldin með myndum frá flugmódelsamkomum. Á sunnudeginum voru það myndir frá stórskalaflugkomu EPE en á mánudagskvöldinu voru það myndir frá flugkomu þeirra Norðanmanna. Aldeilis óvænt að fá svona mikla og góða umfjöllun tvo daga í röð, það lá við að maður hringdi að kvarta á þriðjudeginum þegar þeim kvöldfréttatíma var lokað með einhverjum náttúrumyndum, enda orðinn góðu vanur!!!
Ljósanæturflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja átti að vera í byrjun september en féll niður sökum veðurs. Um miðjan september hélt sérlegur útsendari Fréttavefsins í víking á JetPower samkomuna í Þýskalandi og hefur ánægjubrosið ekki farið af honum síðan þá! Innherjar hófu sig svo aftur til flugs í Reykjaneshöllinni í október.
Flugmódelfélagið Þytur hélt aðalfund sinn í lok nóvember. Jón V. Pétursson lét af störfum sem gjaldkeri og við buddunni tók Bjarni Björnsson sem mun án efa raka inn seðlum á næstunni, aðrir í stjórn sátu áfram. Næsti aðalfundur Þyts verður svo strax í febrúar 2014 en bókhaldsárið Þyts er nú almannaksárið í stað september- til ágústsmánaðar.
Eftir að hafa eytt „sumrinu“ í vorveðri þá fórum við eiginlega beint inn í haustið og einkenndist það af roki og stöku skúrum. Frekar snjólétt var á sunnanverðu landinu þó norðar hafi hvítnað ansi hressilega.
Nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum. Ef menn hafa ekki rekið augun í þetta framtak þá er þeim safnað saman undir nafninu Gullmolar.
Heimsóknum á Fréttavefinn fækkar milli ára um 11% og skoðuðum síðum um 20%. Þessar tölur lækka í 9% og 10% ef við skoðum bara innlenda umferð um síðuna. Það er áhugavert að líta á tækin sem gestirnir nota en 86% nota hefðbundnar tölvur, 8% spjaldtölvur og 6% síma. Það eru 5% færri sem nota tölvur á þessu ári heldur en í fyrra en 3% fleiri nota spjaldtölvur og 2% fleiri síma til að skoða vefinn.
Fréttavefurinn verður 15 ára á næsta ári en fyrsta útgáfa hans fór í loftið um mitt ár 1999, enn er hægt er að sjá hluta af elsta efninu hér á vefnum. Hver veit nema við gerum eitthvað skemmtilegt til að fagna áfanganum!
Það lítur bara þokkalega vel út með gamlársflug og eflaust verður reynt að koma módelum í loftið á eftir og kveðja gamla árið. Bæði Þytur og Flugmódelfélag Suðurnesja verða með skipulagðar samkomur á svæðum sínum.
Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.
Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.
Myndasöfn
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar
Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.
Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2012 annálinn en 2013 útgáfan fer í vinnslu seinni hluta janúar og verður frumsýnd eftir aðalfund Flugmódelfélags Suðurnesja.
31.12.2013 - Áramótaraus
Re: 31.12.2013 - Áramótaraus
Icelandic Volcano Yeti
- Pétur Hjálmars
- Póstar: 220
- Skráður: 5. Mar. 2005 02:23:49
Re: 31.12.2013 - Áramótaraus
Já og Fréttavefurinn stóð sig vel á árinu,
engin sérstök dasetning.
Takk fyrir okkur Sverrir, þú ert með þetta.
Óeigingjarnt starf án launa, aðeins hugsjón.
Takk fyrir árið kæri Sverrir.
engin sérstök dasetning.
Takk fyrir okkur Sverrir, þú ert með þetta.
Óeigingjarnt starf án launa, aðeins hugsjón.
Takk fyrir árið kæri Sverrir.
Pétur Hjálmars
Re: 31.12.2013 - Áramótaraus
Flottur pistill Sverrir og gleðilegt nýtt ár
Guðmundur Haraldsson Flugmódelfélag Akureyrar
A RAF engineering officers joke: Whats the difference between a fighter pilot and his aircraft? The plane stops whining when you shut down the engines.
A RAF engineering officers joke: Whats the difference between a fighter pilot and his aircraft? The plane stops whining when you shut down the engines.