Áramótaraus

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 10720
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt módelárið að baki og því miður var veðurfarið um margt svipað því sem við fengum að kynnast 2013 en þó náðist að fljúga furðu mikið milli skúra og nokkur góð kvöld læddust inn á milli. Þar sem árið í ár er tvöfalt afmælisár þá ætla ég að breyta aðeins út af vananum og fara aðeins lengra aftur í upprifjun heldur en bara síðasta árið.

Það var fyrir 15 árum sem Fréttavefurinn birtist fyrst á netinu og svo var það 5 árum síðar sem spjallið hóf göngu sína. Talsvert hefur breyst á þessum árum en þó er margt(margir) eins og tíminn hafi staðið í stað. Fljótlega eftir að ný öld hófst þá voru Fréttavefsmót haldin til skiptis hjá Smástund og Flugmódelfélagi Suðurnesja en þau urðu síðar hluti af vorflugkomu FMS og enn síðar runnu þau inn í Ljósanætursamkomu FMS. Í augnablikinu er engin samkoma á dagskrá í nafni Fréttavefsins en það er þó aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér!

Á þessum 10 árum hafa hátt í 9.000 þræðir verið stofnaðir og um 50.000 innlegg verið skrifuð af hátt í 500 notendum. Í dag eru 6.767 þræðir á spjallinu, 41.714 innlegg og 341 notandi skráður. Fréttaskrif voru tíð í gegnum árin en seinni árin hefur spjallið tekið yfir það efni sem annars hefði ratað í fréttirnar.

Nítján greinar hafa verið skrifaðir fyrir hin ýmsu tímarit, bæði innlend og erlend, þar sem fjallað hefur verið um flugmódelsportið og það kynnt fyrir þeim er áhuga hafa ásamt því sem milliganga hefur verið höfð um að útvega ljósmyndir af viðburðum sem íslenskir flugmódelmenn hafa sótt fyrir erlend tímarit.

Á þessum 15 árum hafa þó nokkrir góðir gestir komið í heimsókn, má m.a. nefna Steve Holland, Sharon Stiles, Richard Rawl, Olaf Sucker og Ali Machinchy. Öll eiga þau það sameiginlega að hafa komið hingað til að skemmta okkar og sýna okkar aðrar hliðar á flugmódelsportinu en við eigum að venjast og öll hafa þau orðið hrifin af land og þjóð.

Vonum bara að næstu ár og áratugir verði ekki síðri fyrir flugmódelsportið á Íslandi!

Nokkrir atburðir* á tímabilinu; * Þetta er alls ekki hugsað sem tæmandi upptalning.

Það hefur greinilega verið líf og fjör hjá okkur frá aldamótum og greinilegt að flugmódelmenn eru ekkert að gefa eftir í áhuga og elju á sportinu og það verður gaman að fá að fylgjast með hvað næstu ár og áratugir munu bera í skauti sér! Vonandi verður Fréttavefurinn, eða arftaki hans, þá á sínum stað til að deila gleðinni á meðal flugmódelmanna og gesta þeirra.

En snúum okkur þá aftur að hefðbundinni dagskrá!

Innherjar voru að sjálfsögðu á sínum stað yfir dimmustu vetrarmánuðina og er óhætt að segja að menn hafi komið vel undan vetri eins og svo oft áður. Það munar um minna að geta komist vikulega í klukkutíma flug!

Rétt rúmum tveim mánuðum eftir síðasta aðalfund Þyts var svo aftur komin tími á aðalfund en það skýrist af því að á aðalfundinum í nóvember 2013 var bókhaldsár Þyts samræmt við almannaksárið og þar með færðust aðalfundir yfir á byrjun ársins. Sennilega eitt stysta uppgjörstímabil í sögu íslensks flugmódelfélags og þó víðar væri leitað!

Þýsku vinir okkar Stephan og Ur voru við nám hér á landi veturinn 2013-2014 og flugu aðeins með okkur fyrri hluta ársins. Undirritaður hélt í víking í lok maí og heimsótti kollega okkar í Írlandi, Danmörku og Noregi og má sjá ljósmyndir og vídeó frá þeirri för hér á vefnum.

Flotflugkoma Flugmódelfélags Suðurnesja var á sínum stað og vel var tekið á vatninu og svo var líka flogið frameftir á Arnarvelli. Því miður féll Patró International niður af óviðráðanlegum ástæðum en skv. síðustu fréttum stendur til að halda samkomuna á næsta ári þó nánari tímasetning liggi ekki fyrir að svo stöddu. Óskum Lúlla til hamingu með frumflugið á Futura sem fór fram í lok júní. Svo sannarlega glæsileg vél sem gaman er að fylgjast með svífa um loftin blá grá!

Brytjað var upp á nýjung í mótahaldi sumarsins en Örn blés til leiks í 3D Kóngnum um miðjan júlí. Fimm flugmenn tóku þátt og skemmtu sér og áhorfendum konunglega. Leikurinn verður að sjálfsögðu endurtekin á næsta ári. Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls var á sínum stað og þó oft hafi verið betri þátttaka þá sveik veðrið okkur ekki og nóg var af gestum á svæðinu. Í lok dags hóf Þrumufleygurinn sig til flugs eftir langa meðgöngu.

Eftir Verslunarmannahelgina var svo komið að hinni árlegu Piper Cub flugkomu og hefur hún sjaldan verið glæsilegri. Allt frá 8% og upp í 50% Cub-ar mættu á svæðið og var flogið vel og lengi. Hin árlega flugkoma Flugmódelfélags Akureyrar var að sjálfsögðu á sínum stað en óvenju fámennt var á henni í ár og spurning hvort menn hafði látið glepjast af veðurspánni eða bara verið uppteknir á öðrum vígstöðvum!? Það breytir því þó ekki að þeir sem mættu uppskáru fínasta flugveður og var vel tekið á því.

Helgina eftir var svo stórskalaflugkoma Einars Páls á sínum stað í frábæru veðri og ekki er laust við að meiri hluti viðstaddra hefði fengið snert af húðkrabba ef ekki hefði verið fyrir mikla notkun á sólarvörn. Velkomin tilbreyting frá hinum oft dimmu og/eða köldu dögum sem vilja hrjá okkur yfir sumarmánuðina. Til stóð að Ali myndi koma í heimsókn þessa helgi en sökum anna í nýjum starfi hjá Horizon Hobby varð því miður að slá það út af borðinu en við munum eflaust hitta hann síðar.

Innherjar hófu sig svo til flugs í byrjun október og var mikill kraftur í mönnum eftir sumarið. Í desember kom svo tímaritið Flugið út en þar var að finna grein um flugmódelsvifflug.

Nokkrar vélar yfirgáfu okkur í sumar og aðrar voru hætt komnar því hið einfalda og fljótlega atriði að athuga hvort stýrifletir væru að hreyfast í rétta átt fyrir flugtak gleymdust. Svo sannarlega lítið skref sem getur kostað mikið ef menn gleyma sér eitt andartak!

Heimsóknum á Fréttavefinn fækkar milli ára um tæp 15% og skoðuðum síðum um 20%. Nýjir notendur eru um 1% fleiri en í fyrra og heimsóknir þeirra hafa aukist um 10%. Það er áhugavert að líta á tækin sem gestirnir nota en 81% nota hefðbundnar tölvur, 10% spjaldtölvur og 9% síma. Það eru 5% færri sem nota tölvur á þessu ári heldur en í fyrra en 2% fleiri nota spjaldtölvur og 3% fleiri síma til að skoða vefinn.

Ég byrjaði að halda tölfræði yfir tilraunir spam-ara til að skrá sig á spjallið í maí 2013, síðan þá eru að meðaltali 101 tilraun á dag til skráningar á spjallinu og þegar verst lét þá voru 479 tilraunir á dag. Allt í allt voru þetta 59.388 tilraunir á 590 dögum þegar ég tók til í skráningartöflunni(60MB) á Þorláksmessu. Ekki erum við stórt skotmark svo menn geta rétt ímyndað sér hvað gengur á bak við tjöldin hjá stóru aðilunum!


Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum. Böðvar hefur nýverið komist yfir Beta tæki svo það gæti bæst vel í bunkann á komandi árum!

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2013 annálinn en 2014 útgáfan fer í vinnslu í janúar og verður frumsýnd á aðalfundi Flugmódelfélags Suðurnesja.

Icelandic Volcano Yeti

Passamynd
Pétur Hjálmars
Póstar: 219
Skráður: 5. Mar. 2005 02:23:49

Re: Áramótaraus

Póstur eftir Pétur Hjálmars »

Til hamingju með Fréttavefinn.
Gleðilegt nýtt ár og góða framtíð.

Góður annáll.

Bestu kveðjur.
Pétur Hjálmars

Passamynd
lulli
Póstar: 1095
Skráður: 1. Des. 2006 21:14:09

Re: Áramótaraus

Póstur eftir lulli »

Frettavefurinn er einfaldlega bara langbestur!

Megi næsta ár verða kryddað með svo rótsterku flugmódel-kryddi , að jafnvel rigningin sleppi því
að reyna að kæla okkur niður.
Takk fyrir góðan pistil og gleðilegt nýtt ár kæru félagar.
Kv.Lúlli.
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Suðurnesja

Passamynd
einarak
Póstar: 1534
Skráður: 7. Nóv. 2006 08:16:54

Re: Áramótaraus

Póstur eftir einarak »

Módelsportið á íslandi væri ekki á þeim stað sem það er í dag ef fréttavefsins nyti ekki við. Takk fyrir þitt framlag kæri vefstjóri, og gleðilegt ár kæru vinir.

Passamynd
Örn Ingólfsson
Póstar: 271
Skráður: 24. Apr. 2012 15:12:29

Re: Áramótaraus

Póstur eftir Örn Ingólfsson »

Takk kærlega fyrir árið Sverrir.
Takk kærlega fyrir alla hjálpina á árinu sem var að lýða...
C-skoðun,3D kóngur, akureyri og allt það sem ég nenni ekki að skrifa;)

Ef ekki væri fyrir þig og nördið sem þú ert þá værum við hinir ekki á þeim stað sem við erum :)

Kær áramótakveðja Örn.

Passamynd
arni
Póstar: 232
Skráður: 3. Okt. 2012 18:55:55

Re: Áramótaraus

Póstur eftir arni »

Takk fyrir liðið ár. Ég þarf að þakka svo mörgum að mér entist ekki aldur til.
Gleðilegt ár til ykkar allra.Kær kveðja Árni F. :)

Svara