Jæja, förum að smíða.
Ég skar öll rif og þil út úr balsakrossviðnum sem ég fékk frá CNC Modelbautechnik í Þýskalandi. Hérna er ég búinn að raða þeim öllum saman. Takið eftir laserskornum stálfittingsinum sem ég fékk líka:
Ég ákvað að byrja á stélinu, aðallega vegna þess að ég treysi mér ekki til að brjóta ekki 3mm balsakrossviðarkjarnann í stélið. Hann er næstum metri á breidd (lengd?) og kom hingað til lands á milli tveggja frauðplastplatna.
Ég negldi krossviðarkjarnann á smíðaborðið, klippti hausana af nöglunum og rak svo naglana niður þar til þeir flúttuðu við krossviðinn.
Svo límdi ég allan balsann sem sýndur er á teikningunum:
Ég sneri stélinu við og límdi balsa líka hinum megin:
Hérna er stélið eftir að ég pússaði það og formaði frambrúnina eins og sýnt er á teikningunum. Ég boraði líka götin fyrir festiboltana í miðjunni og stífurnar. Ég ákvað að nota Robar Hinge Point lamir á skala stöðum.
Nú er ég í smá vanda því ég get ekki ákveðið hvort ég að að sameina hæðarstýrin í miðjunni (eins og á frummyndinni) og nota einhvers konar horn í miðjunni til að hreyfa þau eða hvort ég á að hafa þau sjálfstæð og nota tvær stýristangir. Ég sendi Rüdiger Götz tölvupóst með fyrirspurn um þetta en hann er ekki búinn að svara mér.
Þangað til ákvað ég að byrja á skroknum. Það fyrsta sem maður þarf að gera er að búa til 10x10mm langbita úr 10x5mm furulistum. Þar sem furulistarnir eru bara metri á lengd, þá þarf að líma þá saman. Ég útbjó smá græju á tifsögina til að geta sagað sama fláann á alla listana:
Síðan valdi ég saman tvo og tvo lista sem virtust vera nokkurn vegin eins og lagaði til fláann á þeim til að fá þá nákvæmlega eins.
Ég límdi þá svo saman með hvítu trélími (CA lím virðist ekki líma svona feitan við og furan er) og festi þá á breiða 10mm stálplötu með þvingum til að fá þá alveg beina:
Svo setti ég endana á listunum í fötu fulla af vatni og lét þá standa þar í fjóra tíma áður en ég beygði þá í rétt form. Hér er fyrri efri langbitinn í límingu á sniðmáti sem ég bjó til. Það þarf að beygja þennan bita mjög mikið og það virtist auðveldara með sniðmátinu:
Hér er fyrri neðri bitinn formaður ofaná teikningunni með nöglum:
Ég verð lengi að búa bitana til því að ég get bara gert tvo í einu og ég þarf að búa til fimm. það tekur minnst sólarhring fyrir þá að þorna. Sjáumst síðar.