Síða 3 af 11

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 17. Jún. 2007 22:11:02
eftir Gaui
Og enn heldur skrokksmíðin áfram. Það er auðveldara en ég ímyndaði mér að klæða emð 0,8mm krossviði. Aðal málið er að gera lítið í einu og nota helling af klemmum og límbandi til að halda honum niðri.:

Mynd

Stélkamburinn er líka klæddur með krossviði. Ég notaði Ajax gluggaúða til að hjálpa mér að beygja krossviðinn. Hann inniheldur ammóníak eða salmíak eða eitthvað svoleiðis og viðurinn verður eins og bráðið smjör þegar hann er bleyttur upp í þessum skemmtilega vökva:

Mynd

Þegar ég var búinn að klæða efri hluta skrokksins þá gat ég losað hann af hækjunum. Þá var næst að líma kjölinn í:

Mynd

Ég límdi skástýfur í hliðarnar eins og eru á fyrirmyndinni á milli efri og neðri langbanda. Svo setti ég papparör í skrokkinn til að leiða vírinn frá hæðarstýrisservóinu, sem er aftast, í móttakarann sem er fremst. Gulu rörin sem sjást á myndinni eru fyrir tog-tog vírana í hliðarstýrið.

Mynd


Nú gat ég byrjað að setja krossvið á hliðarnar. Ég fékk ekki krossvið sem er nógu langur til að klæða alla hliðina með einu stykki, svo ég setti bara 5mm balsa þykkingar á rifin þar sem samskeytin komu. Þetta er eins og er gert á fyrirmyndinni.

Mynd

Framkjölurinn var næstur. Hann er gerður úr 4mm krossviði og hann er afar stýfur og harður. Þessu kjölur verður festipunktur fyrir skíðið og í hann skrúfast líka togkrókur fyrir spilstart.

Mynd

Hér er búnaður sem ég setti í nefið fyrir flugtog. Ef ég ætla að láta toga Babyinn með vélflugu, þá verður að vera togkrókur sem hægt er að sleppa. Ég ætla að setja gamalt hjólastellsservó í nefið til að opna og loka króknum. S‘iðan koma þykkar balsaplötur allt í kring til að gefa formið sem á að vera á nefinu.

Mynd

Hér er Grunau Baby með alla klæðningu nema á botninum þar sem ég á enn eftir að setja togkróksservóið í. Það er líka kostur að hafa aðgang að öllum hlutum módelsins eins lengi og hægt er.

Mynd

Þyngdin á skrokknum eins og hann er núna er 1530 grömm.

Sjáumst í næstu viku.

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 17. Jún. 2007 22:58:21
eftir Offi
Glæsilegt. Ekkert annað!

Ég er kannski með smá hint ef menn þurfa að beygja krossvið (þykkri en 0,8 mm)... og það tryggir að það verður engin sveigja til baka eftirá. Þessa aðferð notaði ég við smíði á kassagítar...! Maður setur hita á stálrör (stærðin fer eftir þeirri sveigju sem maður vill fá). Viðurinn er vættur duglega með vatni og svo rúllar maður honum fram og aftur á rörinu.... sem er sjóðheitt. Allt í einu, þegar viðurinn er orðinn nógu heitur, þá verður hann plastískur og formast að vild. Myndirnar skýra þetta kannski og svo má sjá þetta betur hér. (Og Sverrir færir þetta innlegg seinna meir á betri stað)

Mynd

Mynd

Mynd

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 2. Júl. 2007 21:39:18
eftir Gaui
Um síðustu helgi þurfti ég að mæta í brúðkaup í ættinni og því fór lítið fyrir smíðaskrifum þá helgina. Í dag höldum við á þar sem frá var horfið.

Ég festi inn servó fyrir togkrókinn og gekk úr skugga um að það virkaði eins og til er ætlast því það verður erfitt að komast að því seinna meir. Kannski hefði ég átt að setja einhvers konar togvír og hafa servóið undir vængnum eins og hliðarstýrisservóið, en eins og einhver sagði, „It seemed a good idea at the time!“:


Mynd

Nú gat ég skorið til þykkan balsa og límt hann á nefið:

Mynd

Eftir að límið harðnaði var hægt að gróf-forma nefið:

Mynd

Eftir nokkra klukkutíma með balsahefil, skröpur og ýmsa grófleika af sandpappír er nefið farið að taka á sig þetta þekkta Grunau Baby útlit:

Mynd

Næst: Hæðarstýrin. Ég ákvað að smíða þau samföst með tengingu á milli þeirra og stýrishorn á sama stað og á fyrirmyndinni. Til að búa til virka og sterka miðju setti ég tvö U-laga form úr 3mm járnteini bæði ofan og neðan á krossviðarkjarnana og límdi þau vandlega við frambrúnina á stýrunum:

Mynd

Þegar búið var að líma 3mm basla við hliðina á járnunum og síðan hlaða balsa og epoxýlími ofaná, þá var möguleiki að fá rétt form á þetta í lokin:

Mynd

Hérna eru hæðarstýrin límd saman.

Mynd

Nokkrar mínútur með balsahefli og sanpappír gefa rétta formið á hæðarstýrin:

Mynd

Stýrihornið er skrúfað fast við krossvið á milli strýranna og síðan er 10mm balsi settur ofan og neðan á. Til að hæðarstýrin geti hreyfst að vild þurfti að pússa þetta form á samtenginguna:

Mynd

Nokkrar vel staðsettar krossviðarplötur gera hæðarstýrin mjög skala-leg í útliti:

Mynd

Þegar búið er að pússa krossviðinn með grófum pappír og þjölum lítur þetta mjög vel út:

Mynd

Þá sneri ég mér aftur að skrokknum. Ég klippti út form úr pappa sem ég notaði til að búa til framglugga sem ég gat síðan snikkað til þar til ég var ánægður með niðurstöðurnar. Þetta lítur ágætlega út, en ég þarf að bera þetta saman við myndasafnið á harða diskinum hjá mér til að sjá hvort þetta er ekki nokkurn vegin rétt áður en ég lími þetta niður:

Mynd

Ég bjó til togkrók fyrir hliðarfestinguna úr nokkrum kopar-rörbútum og píanóvír. Þetta verður síðan límt undir vinstri hliðina á skrokknum og tengt við servó.

Mynd

Nú er líka hægt að byrja að klæða botninn með krossviði:

Mynd

Ég er farinn að hlakka til að setja saman vænginn bráðlega.

Sjáumst í næstu viku ...

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 9. Júl. 2007 09:43:02
eftir Gaui
Höldum á.

Ég lauk við að klæða skrokkinn með krossviði og forma nefið á honum, svo að það næsta var að byrja að gluða sellulósalakkinu á hann. Ég byrjaði á því inni í bílskúr, en það varð brátt deginum ljósara að það gekk ekki, svo ég færði mig út í garð.

Mynd

Þegar lakkið hafði þornað, þá pússaði ég það dálítið niður og málaði síðan aðra umferð. Ég gerði smá tilraun á lúgunni yfir flugmanninn með því að sprauta bílagrunn á það og síðan pússa með blautum sandpappír. Virðist virka ágætlega, en það borgar sig að fara sparlega með vatnið.

Mynd

Ég setti þykkan krossvið í hliðina þar sem spilkrókurinn kemur og límdi hann síðan á sinn stað.

Mynd

Stéldragið á fyrirmyndinni er búið til úr þrem ræmum af stáli og skál sem er slegin úr meira stáli. Þetta er síðan boltað aftan á sviffluguna. Ég bjó til stéldrag með því að lemja til 1,5mm þykkt boddýstál þar til ég var kominn með smá skál. Þá klippti ég hana til í rétt form og silfursauð hana við þrjár 0,8mm ræmur af boddýstáli. Hér er hún ofaná frumteikningunni. Þetta lítur bara ágætlega út. Strákarnir voru eitthvað að minnast á að ég hefði bara getað náð mér í teskeið inni í eldhúsi, en mér finnst þetta flottara:

Mynd

Stéldragið er fest á 6mm krossvið aftast á skrokknum.

Mynd

Þar sem ég var hvort eð er byrjaður að berja boddýstál, þá ákvað ég að búa til lamirnar fyrir hliðarstýrið eins og þær eru sýndar á teikningunni. Ég klippti niður 6mm breiðar ræmur, boraði göt þar sem þurfti og beygði á þær rétt horn.

Mynd

Þegar búið er skrúfa þetta við stýrið og stélpóstinn, þá virkar þetta bara ferlega vel. Stýrinu er haldi á með 2mm stálteini og ég skrúfaði smá plasthlut undir hann til að hann dytti ekki úr:

Mynd

Meiri járnavinnu og nú er það teygjukrókurinn. Hægt er að forma til 4mm píanóvír eins og maður vill og jafnvel bora í gegnum hann ef hann er bara hitaður nóg. Ég lék mér við einn slíkan í u.þ.b. klukkutíma og fékk út ágætis teygjukrók:

Mynd

Síðan bjó ég til skíðið úr krossviði og sagaði það í rétt form eins og sýnt er á frumteikningunni.

Mynd

Hérna er skíðið og teygjukrókurinn á sínum stað neðan á skrokknum. Nú þarf ég bara að líma þykkt ál neðan á skíðið svo það eyðist ekki upp of fljótt:

Mynd

Sjáumst í næstu viku.

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 15. Júl. 2007 19:57:08
eftir Gaui
Jæja, ég lauk við að lakka skrokkinn með sellulósalakki og ákvað að festa stélið á. Eftir að ég athugaði ýmsa möguleika á að festa stélið ákvað ég að nota M5 skrúfhulsur. Þær skrúfast fastar í 8mm göt sem ég boraði á stélsætið. Ég setti líka koparrör í stélið sem eru með 5mm innanmál:

Mynd

Næst ákvað ég að búa til viðhöldin sem hliðarstýriskapallinn fer í gegnum þegar hann kemur út úr skrokkhliðunum. Ég gerði þetta með því að lóða smá koparrörbúta í kopar þynnur og skrúfa það síðan á hliðar skrokksins með skrúfum númer 00. Það er gaman að búa til svona hluti.

Mynd

Þegar ég var búinn að pússa skrokkinn vandlega með fínum pappír sprautaði ég hann með bílagrunni sem ég pússa svo alveg niður áður en ég sprauta lokalitinn.

Mynd

Nú gat ég farið að byggja vænginn og Kjartan vinur minn benti mér á að nota þýðingarvél í tölvunni til að þýða leiðbeiningarnar úr þýsku yfir á ensku (það er ekki til þýðingarvél sem þýðir úr þýsku á íslensku og verður líklega aldrei til). Ég ákvað að prófa þetta og eyddi heilum morgni í að skanna leiðbeiningarnar inn í tölvuna mína og síðan þýða hverja efnisgrein fyrir sig á Alta Vista Babel Fish þýðingarvélinni. Niðurstöðurnar voru ... ja, athyglisverðar, svo ekki sé meira sagt.

Hér er dæmi um þýska textann:

[quote]Als Nächstes dann Hilfsholm F 2 in alle Rippen einfädeln und zunächst bündig nur mit Rippe R15 verkleben, gezeigt auf Bild 39. Erst, wenn diese Klebeverbindung ausgehärtet ist, den Hilfsholm F2 endgültig an die Rippen R14, R13 und R12 bis vor zu R1 kleben. Nur so ist gewährleistet, dass alle Rippen zwischen Hauptholm und Endleiste exakt parallel lauten. Ist das geschehen, machen wir mit Hilfs-Nasenleiste und Endleiste weiter. Diese Teile besitzen jeweils Überlänge und müssen vorab ebenfalls zusammengeschäftet werden. [/quote]

Og hér er Alta Vista Babel Fish þýðingin:

[quote]Next then into all ribs contrive false spar F 2 and stick together first concisely only with rib R15, pointed to fig. 39. Stick only, if this splicing tape is hardened, the false spar F2 finally on the ribs R14, R13 and R12 to before to R 1. Only like that it is ensured that all ribs read between main spar and end rail accurately parallel. Happened, we continue with auxiliary ledge and end rail. These parts possess in each case excess length and must first likewise together be geschaeftet.[/quote]

Það er morgunljóst að „enska“ útgáfan“ er ekkert mikið meira skiljanleg en sú þýska. Ég setti því takmarkaða þýskuna mína í hágír ásamt áralangri reynslu af módelsmíði og las báða texta í einu. Þá fékk ég út nokkurn vegin réttar leiðbeiningar:

[quote]Næst skaltu setja aftari bitann F2 ofan í öll rifin, en bara líma hann við rif R15 eins og sýnt er á mynd 39. Þegar þessi líming hefur náð að harðna má líma bitann við önnur rif. Byrjaðu á R14, R13, R12 og síðan alla leið að R1. Aðeins þannig er öruggt að rifin verði samsíða á milli aðalbitans og afturbrúnarinnar. Þegar þessu er lokið, þá er hægt að fara í fölsku frambrúnina og afturbrúnina. Þessir hlutar eru lengri en staðal efni og því verður að splæsa þá saman.[/quote]

Þegar ég var búinn að gera þetta við leiðbeiningarnar um vængsmíðina fannst mér ég hafa nægar upplýsingar til að halda áfram.

Fyrst útbjó ég allt efnið sem átti að fara í vængbitana. Allir bitarnir eru lengri en 1 metri og því þarf að splæsa þá alla og ég gat hvergi fengið lengra efni þó það sé til í erlendum verslunum:

Mynd

Vængsmíðin hefst á því að maður neglir niður efri aðalbita vængsins vegna þess að hann er smíðaður á hvolfi (on the head ) og síðan eru fyrstu fjögur rifin límd við hann. Bitavefina þarf að búa til áður en smíðin byrjar og aðeins fremri vefirnir eru límdir í til að byrja með.

Mynd

Mynd

Þegar fyrstu fjögur rifin eru komin í, þá er neðri bitinn settur í og svo er rifjunum og fremri bitavefjunum raðað á þá, alla leið að vængenda, 23 rif í allt. Falska frambrúnin er límd á...

Mynd

... og afturbrúnin búin til Sveigurinn á hallastýrinu er svo mikill að ég þurfti að rista afturbrúnarefnið í þrennt og síðan líma það saman aftur í réttu formi. Það er gert með PU lími og nokkrum nöglum:

Mynd

Afturbrúnin er límd aftan á rifin, en vegna þess hve límflöturinn er lítill, þá eru styrktarhorn úr 0,8mm krossviði límd á öll rifin:

Mynd

Mynd

Hér er hægri vængurinn kominn á það stig að það má velta honum við:

Mynd

Nú kemur mikilvægur hluti smíðarinnar. Til þess að vængurinn hafi nægan niðurvinding (washout), þá þarf aðsetja undir vængendann við rif 22, 17mm undir aðalbitann og 26mm undir afturbrúnina.

Mynd

Vængurinn er fergður niður og þá er hægt að líma aftari bitavefina í til að stífa hann af og halda niðurvindingnum.

Mynd

Sjáumst í næstu viku.

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 23. Júl. 2007 13:54:24
eftir Gaui
Það hefur ekki mikið gengið hjá mér þessa vikunna af ýmsum ástæðum.

Ég byrjaði að setja loftbremsurnar saman. Í leiðbeiningunum segir að maður skulu þekja allt yfirborð bremsanna með glerfíberdúk bæði til að styrkja þær og til að gera yfirborðið veðurþolið. Hér eru allir hlutar loftbremsanna og ég er byrjaður að þekja þær með glerfíber. Til að byggja ekki inn verpingar og skekkjur í þessa hluta, þá setti ég plast yfir og undir hlutina og fergði þá síðan með 30mm MDF plötu:

Mynd

Hér er önnur loftbremsan komin saman til bráðabyrgða.

Mynd

Loftbremsurnar koma í vænginn og þar þurfti ég að setja 10mm balsaviðbót við bitann til að taka við henni og saga rifin í burtu:

Mynd

Og hér er loftbremsan komin á sinn stað:

Mynd

Nú þarf ég að ná mér í heppilegar tengingar til að lyfta bremsunum. Ég held að sérstandandi kúlutengi munu duga. Ég er búinn að panta svoleiðis og fæ þau líklega seinna í vikunni. Þangað til....

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 29. Júl. 2007 22:27:57
eftir Gaui
Ég er loksins byrjaður að taka þakið á bílskúrnum í gegn, taka sagið sem var sett sem einangrun og skipta um járn. Smíðin á Grunau Baby heldur áfram þegar þetta er komið. Hér er mynd sem sumir ykkar hafa hugsanlega séð af saginu sem kom niður úr hluta þaksins:

Mynd

Sjáumst seinna

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 29. Júl. 2007 22:33:11
eftir einarak
ég er búinn að sitja við tölvuna og refresha á 5min fresti, hélt þú værir kanski búinn að gleyma okkur. Það er enginn sunnudagur án smíðamynda frá Gauja :D

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 29. Júl. 2007 23:49:52
eftir Björn G Leifsson
[quote=einarak]ég er búinn að sitja við tölvuna og refresha á 5min fresti, hélt þú værir kanski búinn að gleyma okkur. Það er enginn sunnudagur án smíðamynda frá Gauja :D[/quote]
Ditto... :P

Annars... var ekki búið að koma sér niður á nothæft íslenskt orð fyrir washout. "niðurvinding" finnst mér ekki passa, og forresten,,, mundi maður ekki frekar tala þá um "uppvinding" þar sem afturbrúnin er "undin" upp á við?

"útvask"? Nehhh, það gengur heldur ekki...

Re: Grunau Baby í 1/3

Póstað: 30. Júl. 2007 10:21:14
eftir Gaui
[quote=Björn G Leifsson]Annars... var ekki búið að koma sér niður á nothæft íslenskt orð fyrir washout. "niðurvinding" finnst mér ekki passa, og forresten,,, mundi maður ekki frekar tala þá um "uppvinding" þar sem afturbrúnin er "undin" upp á við?

"útvask"? Nehhh, það gengur heldur ekki...[/quote]
Þetta orð „niðurvindingur“ er fenginn úr bók íslenskrar málnefndar Flugorðasafn, sem er mér til hliðsjónar þessa dagana. Þar eru nokkur önnur gullkorn eins og „aðhalli“ fyrir „dihedral“ Orðið niðurvindingur sýnir að því er virðist misskilning orðabókarhöfundar á því sem verið er að gera þar sem frambrúnin er ekki undin niður, heldur er afturbrúnin undin upp. Með það til hliðsjónar væri „uppvask“ lang flottast.