Ég er ekki enn byrjaður að rigga módelið, heldur hef ég dottið í ýmis smáverk sem ég ákvað að framkvæma fyrst. Hér eru nokkur þeirra.
Það eru festipunktar á stélfletinum sem ég þurfti að útbúa með því að innleggja krossvið í frambrúnina. Síðan er festing fyrir hæðarstýrikapalinn og stífuna í stélið sett á þessa punkta. Hér er punkturinn fyrir stífufestinguna, 2mm krossviður með 1mm þykkum koparfestingum sem ég þurfti að útbúa. Boltarnir verða seinna styttir og rærnar verða með nælon svo þær geti ekki losnað af sjálfu sér:
Ég ákvað líka að búa til skalalegri hæðarstýrishorn með því að líma 1mm krossvið sitt hvoru megin á prentplötuefni (G10). Síðan límdi ég hornin í stýrin, sem ég stóðst svo ekki að klæða með Solartexi af því að ég er svo forvitinn að sjá hvernig þetta lítur út klætt:
Ef ég ætla að rigga módelið, þá þarf ég fyrst að festa efti vængina við miðjutankinn. Hér er það sem ég gerði.
Fyrst þvingaði ég tankinn og vænginn saman og merkti götin sem ég þurfti að bora:
Á teikningunum segir að maður skuli nota 4-40 boddýskrúfur til að festa vænginn á tankinn, en ég er ekki hrifinn af svoleiðis, svo ég ákvað að nota M3 bolta og snitta þá í vængbitana. Ég byrjaði á því að bora 2,5mm göt:
Þessi göt herti ég upp með því að láta þunnt Zap leka í þau (afsakið hvað myndin er léleg):
Það er sniðugt að skjóta smá herði (kikker) á Zappið, því maður vill ekki að boltinn festist í gatinu. Nú kemur snjalli hlutinn. Til að M3 boltinn snitti sig í gatið, þá þarf maður að bora 1 til 2 millimetra oní gatið með 4 mm bor. Þetta fær M3 boltann til að grípa strax í hliðarnar á gatinu. Ef þaður gerir þetta ekki, þá annað hvort grípur boltinn ekki eða að hann fer skakkur í. Notaðu bara fingurna til að bora þetta, þú vilt ekki nota rafmagnsborvél hér:
Nú er komið að boltanum. Maður verður að nota góðan sexkant lykil, því það er þó nokkuð stíft að skrúfa boltann inn:
Ég tek boltann úr aftur og set meira Zap og kikker til að herða gengjurnar og síðan skrúfa ég boltann í aftur til að fá hreinar og góðar gengjur.
Ég víkkaði götin í vængfestingunum út í 3 mm og undirsinkaði götin í festingunni fyrir lendingarvírana. Þessa festingu boltaði ég svo á sinn stað og boraði og skrúfaði skrúfurnar í:
Hér er svo festingin öll komin:
Það síðasta sem ég gerði í dag var að líma smá balsa í kringum festinguna svo Solartexið fengi eitthvað að halda í þegar ég klæði vænginn:
