Mig langaði ekki að maska fyrir alla stafina á flugunni til að sprauta þeim á, svo ég fékk Geimstofuna hér á Akkureyri til að skera á úr plasti. Ég teiknaði upp í InkScape það sem ég vildi fá og exportaði síðan öll skjalform sem mér datt í hug að þeir gætu notað. Þeir völdu það sem þeir vildu og hér er allt dótið komið:
Ég byrjaði á að líma á skrokkinn, nafnið Fálki á nefið, númerið á hliðarnar og merki Edmund Schneider á stélpóstinn.
Því miður réði skurðarvélin ekki við stafinn G í merkinu, svo ég verð að mála hann í höndum. Kannski tek ég alla stafina af og mála þá í höndum líka.
Það tók dágóðan tíma að staðsetja númerið á vænginn. Stafirnir eru risastórir, 33 sm á hæð. Og þeir eiga að passa á milli hallastýranna.
Löng ræma af límbandi, sem ég strekkti aftan á vængbrúnina gaf mér staðsetninguna fyrir stafina. Síðan festi ég þá niður með bútum af límbandi. Þegar allt er komið á sinn stað, þá er hægt að taka bakið af fyrsta stafnum (það er skynsamlegt að vinna bara með einn staf í einu þegar þeir eru svona stórir).
Stafurinn er síðan lagður niður mjög varlega og allt loftið (vonandi) skafið í burtu með gömlu krítarkorti, sem límir stafinn endanlega niður. Þeir drengir á Geimstofunni mæltu ekki með sápuvatns aðferðinni, svo ég lét það vera og gerði þetta allt þurrt.
Nú má fjarlægja bréfið sem heldur stöfunum. Þetta er farið að líta vel út.
Og að lokum, þá er vængurinn að verða tilbúinn. Þetta tók mig næstum heilan klukkutíma, því ég vildi ekki skemma stafina.
Næstu vikurnar ætla ég að sprauta Babyinn (Fálkann) með glærri málningu. Litaland er byrjað að flytja inn nýja tegund af málningu, Gold Acrylic. Þar er hægt að fá glært sprey sem er algerlega glært og ekki alveg glansandi þó það standi Gloss á dollunni -- bara rétt nóg til að henta á dópaða svifflugu. Máningin þornar á nokkrum mínútum og er sveigjanleg þegar hún er þurr (ég prófaði á ræmu af Solartexi).
Það er ekkert lok, en hringurinn í kringum stútinn sýnir litinn í dollunni.
