[quote=Gaui K]Þá mætti líka kanski benda að Þorsteinn Jónsson (Sæbjörnsson) sem er nú reyndar látin ekki fyrir löngu samt, var að fljúga svona vél.Hvaða vél það var nákvæmlega veit ég ekki en það gætu nú kannski einhverjir góðir gúgglara fundið út úr því:; Það er td. til á vídeóspólu viðtal við kallin í hótel selfoss mynnir mig þar sem hann segir frá ýmsu sem hann lenti í þa. á mustang.[/quote]
2 mjög skemmtilegar bækur sem hann gaf út með frásögnum. Í þeirri fyrri segir hann frá æsku- og stríðsárunum og þeirri seinni frá lífi sínu seinna í Evrópu, hjálparfluginu til Biafra ofl. Einnig eru til þónokkur sjónvarpsviðtöl við hann og útgefnar frásagnir í öðrum bókum. Þó er margt sem aldrei hefur verið ritað og mun aldrei koma fram.
Dæmi um það er saga sem ekki hefur komið fram opinberlega mér vitanlega. Þessa sögu sagði mér flugmaður á Akureyri sem reyndar er sestur í helgan flugstein. Þessi maður sagði mér að þettta atvik hefði ekki verið tilkynnt eða bókað.
Þorsteinn var við hestflutninga til Þýskalands á DC-4 um tíma. Hann ásamt ungum pilti voru að nálgast Akureyrarvöll og komin var nótt eða mjög seint að kvöldi. Þeir voru aðeins 2 í vélinni og Þorsteinn hafði hallað sér aftur og ákveðið að fá sér kríu á leiðinni en skipaði piltinum að vekja sig þegar þeir myndu nálgast Akureyrarvöll. Þorsteinn var flugstjóri í þessum ferðum. Þegar kom að aðfluginu ákvað pilturinn að vekja ekkert Þorstein þar sem hann svaf svo vært og lenda bara sjálfur.
Úti var kolniða myrkur enda sá árstími. Aðflugið hófst í suður en eitthvað fipaðist stráksa þannig að hann undirskaut malbikið og hjólin fóru í sandinn norðan við brautarenda. Þegar hjólastellið lenti á malbiksendanum varð mikið högg, vélin kastaðist við það upp og Þorsteinn rauk upp með andfælum. Hann barði eldsneytisgjöfina fram til að hætta við lendingu og botnaði fjarkann. Það er yfirleitt ekki gert þannig að eldsúlurnar stóðu aftur úr hreyflunum og lýstu vel upp völlinn og nágrenni hans. Þorsteinn áttaði sig fljótt á stöðunni og ungi pilturinn fékk ekki að snerta stjórntækin meir. Þorsteinn ákvað strax að taka vinstri beygju til að taka annað aðflug. Þegar hann tekur vinstri beygjuna er fjarkinn ekki á nógum hraða til að halda nógri hæð þannig að Þorsteinn neyðist til að rétta vélina af til að halda hæð og stefnir þá beint á vaðaheiðarhlíðina.. Nú eru góð ráð dýr því vaðlaheiðin fyllir út í glugga stjórnklefans og eftir stutta stund myndi fjarkinn enda þar. Þorsteinn náði með hjálp lendingarljósanna að rétt svo að halda áfram vinstribeygju í norðurátt. Hann var alveg við það að smyrja hlíðina í beygjunni.
Þegar beygjunni var lokið og búið að rétta vélina við var haldið í norðurátt til að undirbúa annað aðflug. Í flugturninum þetta kvöld voru ásamt flugumferðarstjóra 2 gestir og annar þeirra er sá er sagði mér þessa sögu fyrir almörgum árum.
Nú þegar Þorsteinn undirbýr aðflugið kemur fljótlega upp sú spurning hvort hjólabúnaðurinn sé í lagi eftir hið mikla högg sem kom þegar pilturinn undirskaut brautina. Þorsteinn biður flugumf.stjórann að finna ljóskastara og gera sig tilbúinn til að standa úti í turninum og lýsa undir vélina í flyby og athuga hvort sýnilegar skemmdir séu á hjólabúnaðinum. Þetta er gert og þorsteinn nálgast nú úr norðri. Úti standa flugumf.stjórinn ásamt 2 gestum sínum. Þegar þorsteinn nálgast taka þeir er í turninum standa eftir því að fjarkinn er óþarflega mikið vestan við braut, og þegar nær kemur sjá þeir fram á að hægri vængurinn mundi lenda beint á turninum. Við það stekkur annar gesturinn í örvæntingu niður stigann en hinir tveir standa frosnir og sjá vænginn koma og þá rétt í tíma þegar Þorsteinn rétt vippir vængnum yfir turninn þannig að hjólastæðan var alveg ákaflega sýnileg þeim flugumferðarstjóra og gesti hans. Þeir gátu þá séð og vottað að ekkert sýnilegt væri að hjólastellinu þeim megin og best væri að lenda bara vélinni áður en bæjarbúar færu að athuga hvað væri á seyði. Lending gekk snuðrulaust en þegar Þorsteinn og hans ungi lærisveinn komu úr vélinni las Þorsteinn honum pistil með þvílílku orðbragði að ekki verður haft eftir enda varð ungi maðurinn ákaflega lítill þá.
Ég veit ekki hvort sagan sé sönn, og því síður hvort hún gengur upp flugfræðilega, en skemmtileg er hún
Reyndar er sá er sagði frá mjög trúverðugur og virtur maður.