Ég byrjaði samsetninguna á vængnum með því að raða vængmiðjunni saman eins og eggjabakka, eins og Vance lýsir því í leiðbeiningunum. Hún datt alveg bærilega saman og ég lenti ekki í neinum vandræðum fyrr en ég uppgötvaði að papparör í amerískum jólapappír eru stærri en í evrópskum jólapappír.
Þá var spurningin hvað ég ætti til bragðs að taka. Tvær aðferðir komu fram: klæða gatið innan með pappír og vefja límbandi utan um rörið. Ég ákvað að prófa báðar aðferðir.
Fyrst tók ég gamla teikningu sem Bob Holman hafði notað sem pakkningaefni í sendingunni til mín og vafði bút af henni tvisvar utanum gamalt vængrör. Þá gat ég stungið pappírnum í götin.
Þegar ég sleppti pappírnum og tók rörið í burtu, þá fyllti hann út í götin. Nú getur maður notað sekúndulím til að festa pappírinn í götin og svo skorið hann í burtu með beittum hníf. Þá er maður kominn með fóðringar í götin.
Hin aðferðin er að vefja rörið (sex sinnum í allt) með málningarlímbandi þar til það passar:
Ég er ekki viss um hvor aðferðin er betri, en báðar virka.
Og þá er miðjan tilbúin:
Ég teiknaði útlínur vængsins á smíðabrettið mitt og setti undirstöðurnar á strikin. En þegar ég setti vængmiðjuna á hvolf ofan á undirstöðurnar, þá kom í ljós að hún passaði ekki, vegna þess að strikin á teikningunni sýna botninn á vængnum, en það er efri brúnin á honum sem liggur í undirstöðunni. Ég þurfti því að færa undirstöðurnar báðar um sentimetra nær miðjunni:
Nú gat ég stillt öllum bitum og rifjum á sína staði eins og segir í leiðbeiningum án þess að líma nokkuð:
Nú tók ég miðjuna í burtu og límdi balsabita, rif og annað saman með gulu trélimi og
Super Phatic lími, sem er alveg frábært fyrir svona samsetningu, þar sem það er mjög þunnt og sígur inn í öll samskeyti:
Nú þarf þetta að fá að harðna til morguns