Næstfremsta skilrúmið, númer 22, þarf að saga neðanaf til þess að búa til útloftunarop niður úr hljóðkútshóflinu.
Til þess hallaði ég landinu á gömlu Dremel tifsöginni. Það er auðvelt að nota gráðuboga til þess að sikta þetta út.
Ég valdi líka að saga út op í þetta aftara skilrúm (22) til að spara þyngd (ca 65 gr. reyndist það vera) enda alinn upp við að smíða létt. Maður lokar svo þessu opi með balsaplötu enda á heita loftið að fara niður úr hólfinu en ekki inn í flugstjórnarklefann. Eins og Gaui hefur lýst þá fer Toni mörgum orðum um ýmis svona atriði í leiðarvísinum.
Nú... að líma eldvegginn í var svo sem ekki í frásögur færandi nema það á að vera 2,5° hægriflái á honum fyrir 45cc (þennan) og 62cc mótorinn og það er eins gott að mæla og pæla áður en epoxíið harðnar svo maður fái þetta nú rétt. Ég var alveg með hjartað í buxunum því þetta virðist vera svo mikill flái en það varð rétt.
Í millitíðinni er ég búinn að líma og smíða hitt og þetta sem Gaui lýsir vel í sínum þræði.
I kvöld kom svo að því að prófa að festa nefþyngdina á. Kjarkinn til þess sótti ég í rúma hálfflösku af ágætu Sikileysku hvítvíni sem ég opnaði til að mýkja frúna sem hafði átt óvenju erfiða vakt í fyrrinótt. Þegar til kom hafði hún ekki lyst á nema einu glasi svo minn helmingur varð heldur stór.
Grunnurinn í HydroMountinu er öflug álplata sem þeir kalla köngurlóna og hér sést hún komin á gúmmípúðana og hljóðkútnum er tillt á sinn stað
Þið spyrjið kannski af hverju þurti kjark til þessa verks en hér sést ástæðan:
Ég hafði uppgötvað sama kvöld og ég fékk græjurnar að mótorinn passaði ekki á þetta sístem.
Aftan úr þessum fína Zenoah gekk stærðar öxulgöndull sem ætlaður er til að festa gormastartara á. Þessi göndull rakst rækilega í hljóðkútinn þegar maður ætlaði að setja sístemið saman.
Minn maður fylltist vægri vandlætingu og spurði Toni og co. kurteislega (meil-leiðis) hvort hann hefði ekki afgreitt vitlausa útgáfu af mótornum en þeir félagar svöruðu um hæl að þeir hefðu bara gleymt að segja frá því að þennan göndul ætti að saga af!!! Með svarinu fylgdi úrkippa úr nýrri útgáfu af leiðarvísinum sem ekki var kominn í gagnið enn.
Hægara sagt en gert. "Nedstrygeren" fékk jafnvel nýtt blað en það var alltof sljótt verkfæri svo Dremillinn góði var tekinn fram og fíber-skurðarblað af fínustu gerð smaug í gegnum þetta eins og til var ætlast.
Eins gott að líma málaralímband yfir öll göt á mótornum til að forðast svarf inn í fíneríið.
Svo var hægt að fara að skrúfa herlegheitin almennilega saman en það reyndist ekki svo blátt áfram.
Þetta er úthugsað og ágætlega hannað sístem og boltarnir vel valdir svo hægt sé að koma við verkfærum en það er eins gott að leika sér með þetta og prófa og finna út í hvaða röð skrúfur og annað á að koma í svo púsluspilið gangi upp. Það er nebbnlega ekki hægt að bara skrúfa kútinn eða mótorinn á fyrst og svo hitt þvi þá lendir maður í klemmu eins og td. hér
Á endanum tók ég innsogsrörið með krabatornum af til þess að komast að og þá gekk þetta.
Ég gleymdi reyndar að geta þess að bogna innsogsgrein þarf maður að panta sér og setja á milli blokkarinnar og karbatorsins. Það er smá föndur og möndl að finna réttu skrúfurnar og passa að pakkningarnar snúi rétt þegar maður setur þetta saman með einangrunarskífu milli greinarinnar og karbatorsins (til að hann hitni ekki um of)
Hér sést þessi útbúnaður vel. Einangrunarskífan er ljósbrún. Í gegnum hana er lítið hliðargat sem þarf að vera réttum megin og tilsvarandi gat í pakkningunum sem þarf að standast á. Einnig þarf að skipta um loftblæðislöngu (rétt nafn?) en hún fylgir með.
Einnig sést á þessari mynd hvernig kælibörðin á blokkinni rekast í köngurlóna. Þess vegna þarf að klippa af þeim lítilsháttar en það er frekar einfalt mál. Hægt að nota góða klíputöng til að kroppa af börðunum því þau eru úr stökkum málmi sem nánast molnar undan tönginni.
Kælibörðin eru misstór og gefa frá sér ágæta tóna við áslátt. Meira að segja hægt að spila lagstúf með þeim. Þetta segir Toni að sé enn ein uppspretta hljóðs frá svona mótor og mælir með því að maður setji búta af eldsneytisslöngu á milli þeirra til að dempa titring í þeim og þar með hljóðið.
Hér eru svo herlegheitin komin saman og á sinn stað:
Svarta snúran er úr "Hall"-skynjaranum sem nemur snúning mótorsins þeas hvenær hann snýr í topp og sendir boð til rafeindakveikjunnar sem þessi útgáfa af 45cc mótornum er útbúin með. Þetta á að vera mun betri kveikja en gamla magnetan.
Þá kemur að einu litlu vandamáli sem ég þarf að ónáða þá Toni og félaga með.
Hraðagangsnálin er á þessum krabator er útbúin með stærðar T-handfangi sem lendir í veg fyrir festinguna á öðrum demparanum og rekst líka í köngurlóna svo það þarf að skipta þessu eða breyta í stuttan arm með rauf fyrir skrúfjárn, skyldi ég halda.
Verður fróðlegt að herya hvað þeir segja. (Ætli það sé ekki bara upp með Dremelinn aftur ?
)
Nóg að sinni.
Sjáfur verð ég í Austurríki næstu viku svo þið eruð lausir við mig í bili.
Gleðileg áramót og innilegar þakkir fyrir árið sem er að verða búið