Endurkast frá málmhlutum.
[quote=Björn Geir]Nú er það þrisvar búið að koma fyrir hjá okkur feðgum að við höfum fengið truflun ("hit") þegar við fljúgum frauðplastflygildinu of nálægt stórri, hárri vírgirðingu sem umlykur fótboltavöllinn bakvið húsið okkar.
Hélt fyrst ég hefði misst vald á henni í gusti eða verið niðurstreymi frá húsunum sem standa fyrir ofan... en þegar þetta gerðist aftur hjá mér og svo í þriðja sinn hjá Hirti þá erum við vissir um að þetta er einhvers konar "interference frá vírnetsgirðingunni sem slekkur boðin þannig að hún verður sambandslaus.[/quote]
Sæll Björn Geir.
Ég minntist á þetta fyrirbæri á fundinum fyrir nokkrum mánuðum þar sem ég fjallaði um fjarstýringar. Sjálfur þekki ég tvö dæmi af eigin reynslu.
Þekktasta dæmið er hliðið við Hamranesflugvöll. Margir lentu í því að módelið kastaðist til þegar flogið var yfir það, nánast eins og einhver truflanavaldur væri þar grafinn í jörðu.
Annað dæmi er vindpokinn við Geysisflugvöll. Þar lenti ég ítrekað í því að módelið missti væng í aðflugi þegar flogið var fram hjá rörinu sem heldur uppi vindpokanum.
Í báðum tilvikum hefur ástæðan verið endurkast radíóbylgja frá rörunum. Ef lengdin á rörinu er margfeldi af hálfri bylgjulengd (hálf bylgjulengd á 35 Mhz er um 4,3m) virkar rörið sérstaklega vel sem loftnet. Í rörinu spanast upp sveiflur á 35 MHz og rörið sendir út radíóbylgjur á þeirri tíðni. Rörið vinnur nánast eins og tónhvísl sem fer að sveifla ef henni er haldið nærri píanói og slegið er á rétta nótu. Módelið fær þannig merki bæði beint frá sendinum og óbeint frá rörinu. Það fer síðan eftir innbyrðis fjarlægðarmismun hvort þessi merki leggjast saman í fasa eða dragast frá hvoru öðru. Ef öldudalur fellur saman við öldutopp "heyrir" viðtækið aðeins dauft merki. Það kemur fram sem truflun.
Stefán Sæm. prófaði að jarðbinda hliðið og hvarf þá truflunin. Vel getur verið að nægt hefði að lemgja aðeins rörið með því að tengja um meterslangan vír í annan endann, þannig að það verði ekki lengur í "resonance" á 35 MHz.
Á Geysisflugvelli prófaði ég að nota aðra senditíðni (72) og hvarf þá sömuleiðis truflunin.
Vírnetið í girðingunni hjá þér virkar sem góður spegill, þó hún sé ekki í resonance. Svipað og spegill í parabóluloftneti, sem oft er bara vírnet.
Vindpokarörinu eða hliðstönginni má aftur á móti líkja við tein í sjónvarpsgreiðu, en lengdin á honum er einmitt höfð hálf bylgjulengd. Í sjónvarpsgreiðunni er aðeins tengt inn á næstaftasta teininn, en hinir virka óbeint og geisla aftur út móttekna merkinu í réttum fasa til að magna upp merkið frá einni stefnu, þ.e. beint fram. (Parasitic reflector og directors, eins og það er kallað í loftnetsfræðunum).
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tvær öldur með sömu tíðni. Við getum hugsað okkur að efra merkið sé beint frá sendinum, en merkið í miðjunni það sem endurkastast frá rörinu eða girðingunni. Merkið neðst er það sem viðtækið sér. Það fer eftir svokölluðum fasamun á merkjunum hvort þau leggjast saman eða dragast frá. Ef merkin eru jafnstór, en út úr fasa, hverfur merkið sem viðtækið sér alveg. Á ákveðnum svæðum nærri speglandi hlut getur þetta gerst, og viðtækið missir samband við sendinn augnablik.
Merkið neðst gæti átt við það merki sem viðtækið heyrir þegar módelið flýgur nærri málmhlut sem endurkastar merkinu. Með nokkurra metra millibili fellur styrkurinn verulega, þannig að í reynd gæti maður orðið fyrir endurtekinni truflun á litlu svæði (einhverjir tugir metra).
(Þó öldurnar virðist á myndinni fara mishratt, þá er það ekki reyndin. Myndin er aðeins til að sýna hvernig merki af sömu tíðni (eða sömu öldulengd) geta magnað hvert annað upp, eða styrkurinn minnkað, eftir því hvernig þau lenda saman. Viðtækið er sífellt að sjá ýmist sterkt eða veikt merki).
Ágúst