Síða 5 af 18

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 17. Júl. 2008 07:46:10
eftir Gaui
Stélið sett á.

Gary Allen, hönnuður vélarinnar benti mér á, að það þarf að breyta áfallshorni stélflatarins upp í +3 til +4 gráður til að ekki þurfi að dæla inn helling af niðurtrimmi til að fljúga rétt. Ég tók mynd af stélsætinu og teiknaði inn tvær línur, en fannst þetta heldur mikil breyting, svo ég sendi Gary myndina og spurði hann ráða. Hann svaraði mér strax og sagðist hafa skorið niður í efri línuna sem ég teiknaði á sínu módeli og það sé mjög gott. Það næsta sem ég þurfti því að gera var að breyta stélsætinu.

Mynd

En fyrst þurfti ég að festa stélkambinn á sinn stað á skrokknum. Ég bjó til festinguna sem þurfti að nota og límdi hana á sinn stað með stélflöt og -kamb á sínum stað:

Mynd

Næst merkti ég 3 gráðu línuna á stélsætið og heflaði og pússaði það þangað til halinn var réttur:

Mynd

Ég límdi 6mm harðviðarkubba undir festiplöturnar og límdi gaddarær niður til að halda stélinu:

Mynd

Hér sjást M4 undirsinkuðu boltarnir sem ég nota. Kambpósturinn er festur með tveim M3 boltum og stoppróm.

Mynd

Ég þurfti að laga til festikrókinn framan á stélkambinum vegna þess að stélflöturinn hallaði núna. Ég var hræddur við að taka of mikið og fá þar með hlaup í festinguna, svo ég pússaði bara lítið í einu og vandaði mig þar til krókurinn passaði alveg rétt. Það kom í ljós að ég þurfti ekki að taka nein ósköp og nú passar þetta eins og flís í rass.

Mynd

Og nú er allt í einu komið gap á milli stélkambs og –flatar þar sem það var ekki áður, nákvæmlega eins og á fyrirmyndinni án þess að pússa neitt af kambrifinu.

Mynd

Hér sést þetta sama gap á módeli í fullri stærð á mynd sem Gary sendi mér. Ég held að þetta hafi bara heppnast ágætlega.

Mynd

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 20. Júl. 2008 21:42:29
eftir Gaui
Og nú förum við í vængina:

Ég byrjaði á efri væng hægra megin eins og leiðbeiningarnar segja. Það fyrsta sem ég þurfti að gera var að líma saman heila skóg af cyparis spýtum í vængbitana...

Mynd

... og splæsa þær saman í þær lengdir sem ég þarf. Ég veit ekki hvers vegna pósturinn vill ekki leyfa mér að senda spýtur af heppilegri lengd í flugpósti!

Hvað um það, þá nota ég stálstykki til að halda við bitana á meðan ég splæsi þá saman. Þannig koma þeir bara ágætlega út.

Mynd

Raunveruleg samsetning á vængnum byrjar á því að maður pinnar niður ræmur sem koma undir rifin (cap strips) og afturbrúnina. Af einhverjum orsökum segja leiðbeiningarnar a maður skuli ekki líma niður stykki LW14 fyrr en seinna, en þar sem það er ekkert stykki LW14, þá gerði ég ráð fyrir að þarna væri átt við LW13, sem er bogið stykki innst á vængnum. Þarna voru leiðbeiningarnar að fara villur vegar, því þegar mér var loks sagt að líma á stykki LW13, þá var ómögulegt að koma því á sinn stað nema skera það í búta fyrst. Næsti vængur verður gerðum með þetta stykki á sínum stað frá upphafi..

Annað sem mér fannst furðulegt var að leiðbeiningarnar sögðu manni að setja 3/32“ þykka krossviðarstyrkingu á bitana og setja gaddarærnar fyrir stífuskóna á sinn stað. Þegar betur var að gá, þá er eins gott að gera það, því að það er ekki nægilegt bil á milli stífanna til að koma gaddaróm fyrir eftirá. ef báðir bitar eru á sínum stað:

Mynd

Þegar búið er að líma bitana niður er annað hvert rif set í. Það er skástífa sem þarf að koma á undan hinum rifjunum:

Mynd

Þegar skástífan er komin eru hin rifin skorin til svo þau passi ofan á hana og svo eru frambrúnarrifin sett á sinnn stað ásamt vængendanum:

Mynd

Nú þarf ég að finna út hvernig vængraufargræjurnar eru saman settar. Raufarnar sjálfar eru gerðar úr tveim lögum af krossviði sem eru límd saman svo þau falli að frambrúninni. Ég límdi saman form sem ég get notað til að forma og líma saman krossviðinn:

Mynd

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 21. Júl. 2008 00:14:48
eftir gudniv
Glæsileg vinnsla á þessu hjá þér Gaui, hrein snilld...

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 23. Júl. 2008 15:43:16
eftir Gaui
Síðast hættum við þegar raufarformið var u.þ.b. að klárast. Ég setti plastfilmu á það og setti síðan 30 mín. epoxýlím á krossviðarblöðin tvö, límdi þau saman og vafði þeim síðan á formin með fíberlímbandi:

Mynd

og eftir tvo daga varð þetta til:

Mynd

Og þá er það mekaníkin. Hún er gerð úr koparplötum og krossviði ásamt helling af M2 boltum og róm, sem ekki eru sýnd hér. Stuttir bútar af plaströrum fóðra koparinn svo boltarnir snerti hann ekki og þannig er komið í veg fyrir truflanir vegna málmhljóða.

Mynd

Og hér eru allar þrjár lyfturnar tilbúnar ... eða hvað?

Mynd

Í leiðbeiningunum segir að maður skuli nota tengi úr málmi til að ýta í lyfturnar, en ég var hræddur um að fá málmhljóðstruflanir, svo ég ákvað að setja kúlutengi í staðinn:

Mynd

Ég tók líka eftir því að fremri armurinn á lyftunum virtist vera aðeins of langur, 2 mm of langur nákvæmlega. Það varð til ess að frambrúnin á raufarsætinu lyftist aðeins of mikið frá rifinu:

Mynd

Þetta má laga með því annað hvort að stytta arminn um 2 mm eða lækka gatið í rifinu. Ég valdi að lækka gatið af því það virtist auðveldara (já-já, ég er helv... letingi – ég veit það). Hér er sama rifið eftir breytingar:

Mynd

Nú er búið að setja rifin í vænginn og líma þau með epoxý lími. Til að það sé mögulegt segja leiðbeiningarnar að maður skuli lyfta vængnum um eina tommu en samt athuga að hann verpist ekki. Mér fannst auðveldara að renna vængnum fram á brúnina á smíðabrettinu mínu og þannig gat sá hluti lyfturifjanna sem gengur niður úr vængnum setið frír.

Mynd

Hér er raufin opin á vængnum. Nú er ég að bíða eftir að fá 90° stýrishorn svo ég geti haldið áfram með vænginn og klárað hann.

Mynd

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 31. Ágú. 2008 22:49:07
eftir Gaui
Sumarið hefur verið mjög gott og veðrið það gott að maður hefur frekar viljað fljúga en smíða, svo að smíðin hefur fengið að sitja á hakanum. Ég hef, hins vegar, náð að líma eina og eina límingu og er nú búinn með efri hægri vænginn að mestu. Hann er nú um 90% tilbúinn undir klæðningu og vantar bara að hefla aðeins til og pússa. Ég ætla samt ekki að gera meira í honum fyrr en sá vinstri er kominn líka.

Mynd

Ég er byrjaður á neðri hægri vængnum. Hann er mjög svipaður efri vængnum, nema að það er þetta svakalega 80 sm hallastýri skorið úr honum.

Mynd

Ég ætla að reyna að segja frá hvernig smíðin gengur, en þar sem mín eign stafræna myndavél er biluð (hún viðurkennir ekki að nýjar rafhlöður séu hlaðnar), þá þarf ég að fá að láni myndavélina sem ég nota í vinnunni. Það er bara hægt um helgar, svo myndatakan verður líklega ekki eins ör og áður.

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 7. Sep. 2008 18:29:29
eftir Gaui
Smíðin á neðri vængnum gengur ágætlega:

Mynd

Neðri vængurinn er næstum nákvæmlega eins og sá efri, ef frá er talið hallastýrið, svo ég ætla ekki að eyða tíma okkar allra við að lýsa aftur eins smíði. Mig langar bara að benda á nokkur athyglisverð atriði á neðri vængnum.

Flugvírarnir á þessum Tiger eru ekki festir við skrokkinn eins og á Sopwith Pup. Þeir eru festir við mjög rammgerðar festingar sem eru boltaðar við frambita vængsins rétt utan við rótarrifið.


Mynd

Eitt atriði á neðri vængnum sem leiðbeiningarnar nefna ekki er að fjögur innstu rifin á honum lyftast örlítið upp aftast. Það var mjög áberandi að rifin lögðust ekki niður á balsa ræmurnar og afturbrúnina. Til að laga þetta setti ég 3mm balsa stöng undir allt saman og lyfti þannig ræmunum upp að rifjunum. Þannig gat ég límt allt eins og það átti að vera.

Mynd

Hallastýrin, eins og vængirnir, eru smíðuð ofan á teikningunni og maður byrjar á því að pinna niður og líma saman 3/32“ balsaræmur (um 2mm) sem allt hitt er síðan límt á. Fargið á myndinni heldur niðri 1/8“ krossviðarfestingu fyrir stýrishornið:

Mynd

Hér er svo hallastýrið komið að mestu, nema það á eftir að hefla það til og pússa.

Mynd

Á teikningunum er þess krafist að maður fái 3/32“ bambus stangir og lími þær á ská á milli rifjanna til að stífa stýrið af. Ég fór í allar búðir sem mér datt í hug á Íslandi og leitaði vandlega í öllum póstverslunum sem ég fann á netinu, en enginn gat selt mér 3/32“ bambus stangir. Fyrst það gekk ekki, þá keypti ég mér bara 2mm beiki díla og notaði þá í staðinn. Ég vona að það verði nóg. Til að styrkja límingarnar, þá yddaði ég dílinn og ýtti honum örlítið inn í frambrúnina á stýrinu. Síðan heflaði ég flata á hinn endann og límdi hann ofan á afturbrúnina. Ég varð að nota hvítt trélím, því sekúndulím virðist ekki virka sérlega vel á beiki.

Mynd

Hallastýrið verður heflað og pússað seinna, þegar ég er búinn að smíða bæði stýrin og allir vængirnir eru tilbúnir.

Ég held að það verði ekki sérlega áhugavert að fá aftur nákvæmlega eins lýsingar á smíði vinstri vængjanna, þannig að ég mun líklega ekki skrifa mikið meira fyrr en vængirnir eru allir tilbúnir og ég get farið að máta þá á skrokkinn.

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 14. Sep. 2008 21:16:03
eftir Gaui
Það er eiginlega ekki hægt að hætta þegar maður er einu sinni byrjaður á þessu. Maður verður eins og fíkill og neyðist til að skrifa bara smá pistil inn á smíðaþráðinn í hverri viku.

Það sem ég er enn að bíða eftir gaddaróm í hitt vængparið, þá datt mér í hug að kíkja á vélarhlífina og athuga hvort ég gæti ekki bara klárað hana. Þegar við slepptum af henni hendinni í júlí var ég búinn að búa til nefið með frauðplast aðferðinni og leggja glertrefjar yfir meginið af henni. Nú kláraði ég að trebba hana með því að setja fíber á hliðarhurðarnar og síðan penslaði ég fylliumferð af epoxý kvoðu á allt:

Mynd

Næsta skref var að sprauta bílagrunni á hlífina og síðan pússa hann allan af aftur og fá þannig glerfíberinn alveg sléttan. Á myndinni sést að ég útbjó eins konar stífur úr spýtum til að hlífin haldi lögun sinni, því það er í raun ekkert sem heldur henni saman þegar búið er að fjarlægja skrokkinn.

Næst límdi ég lamirnar í hurðarnar og fittaði þær á. Svo skrúfaði ég hlífina aftur á skrokkinn svo ég gæti sett epoxy fylli á milli hlífarinnar og nefsins:

Mynd

Þetta er blá plastfilma sem ég nota til að geta náð nefinu aftur af vélarhlífinni þegar ég er búinn að pússa fylliefnið slétt. Þá ætti heldur ekki að vera mikið bil á milli – ef nokkuð. Ég vona bara að ég nái nefinu af aftur.

Til að halda hurðunum niðri bjó ég til hespur eins og sýnt er á teikningunni. Ég hafði þær að vísu aðeins þykkari en sýnt er vegna þess að ég átti ekki minna rör. Sem betur fer pössuðu gormar úr gömlu góðu Bic pennunum á rörin eins og flís í feita vinnukonu, svo ég held að hespurnar verði alveg í fínu lagi.

Mynd

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 14. Sep. 2008 21:38:55
eftir lulli
Snilld! Og ótrúleg þúsund-þjala smíði!
Gaman að sjá hvernig lausnirnar
ýmist leynast í flóknum sérpöntunum.....eða úr gripnir úr þessu daglega.. :D

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 14. Sep. 2008 22:03:18
eftir Björn G Leifsson
[quote]...en enginn gat selt mér 3/32“ bambus stangir...[/quote]
Ég á slatta af sæmilega löngum bambuspinnum með þessu þvermáli cirka, keyptum í matvörubúð sem grillpinnar. Nota það í allt mögulegt, aðallega hræra í dósum og blanda lím...
Kíktirðu í grillhornið í Nettó etc.?

Re: 30% Tiger Moth

Póstað: 14. Sep. 2008 22:39:07
eftir Gaui
Ég verð að skoða þetta með grillpinnana.