Riggingin er búin – loksins.
Stærðin á þessu módeli kemur mér alltaf á óvart þegar ég set það saman:
Nú byrja ég að klæða Tigerinn með Solartexi. Ég byrjaði á neðri vængnum, en áður en ég kláraði það, þá setti ég band þar sem servósnúran á að koma:
Hér er annar neðri vængjanna klæddur:
Svona geri ég þegar ég bý til rifjasauma. Fyrst ríf ég niður fullt af 6mm breiðum ræmum af Solartexi:
Ég strauja þessar ræmur ofan á rifin þar sem rifjabönd eru á fullstóru vélinni. Síðan merki ég staðsetningu rifjasaumanna. Ég geri það með því að strika staðsetninguna með tússpenna á límband. Svo færi ég þessar merkingar á öll rifin með mjúkum blýanti:
Ástæðan fyrir því að ég nota límbandið er að það hreyfist ekki á meðan ég er að merkja og það setur ekki göt á klæðninguna.
Nú nota ég litla plastflösku með holnál til að sprauta hvítu lími og þannig „teikna“ saumana á:
Þegar þetta hefur fengið að þorna í nokkra daga, þá set ég rifjaborðana á.
Þegar ég fór að klæða skrokkinn þá sá ég að það yrði líklega erfitt að koma hæðarstýrisvírunum í. Ég ákvað að setja nokkur rör til að beina þeim á rétta staði. Ég tvöfaldaði skástífur aftarlega á skrokknum og tók svo úr þeim fyrir tveim plaströrum á hvorri hlið. Þessi rör ná yfir rörin sem ég var búinn að setja áður í skrokkinn:
Þegar ég er búinn að stytta þessi rör eins og þarf og klæða skrokkinn, þá sést í þau í gegnum klæðninguna og ég get auðveldlega gert göt á réttum stað með lóðbolta:
Þegar ég var búinn að klæða skrokkinn öðrum megin, þá tók ég eftir að ég myndi aldrei að eilífu ná að setja stýrivírana í þar sem ég gæti ekki komist að rörunum og myndi heldur ekki sjá neitt til þess. Þess vegna ákvað ég að búa til vírana strax og setja þá í áður en ég lauk við klæðninguna.
Og þá er skrokkurinn nokkurn vegin búinn og gerður, svo við skulum kíkja á efri vængina. Áður en þeir eru klæddir þarf ég að setja servóin sem stýra vængraufunum í þá. Ég fékk tvö standard Futaba S3003 servó hjá Þresti og bjó til festingar fyrir þau. Mér finnst ekki líklegt að ég noti þessar vængraufar mikið og muni líklega bara sýna þær á jörðu niðri, enda segir Árni Hrólfur að þau hafi ákveðið VÁ! gildi en annað ekki. Þess vegna ákvað ég að nota ódýr servó.
Það næsta sem ég geri er að klæða botninn á vængnum, setja armana fyrir vængraufina í og athuga að það virki eins og það á að gera og síðan klæða ofan á vænginn.
Þangað til –