Síða 1 af 1

Draugahlíðar - 30.apríl 2022 - Iceland Open F3F 2022

Póstað: 1. Maí. 2022 20:52:05
eftir Sverrir
verdlaun_io.jpg
verdlaun_io.jpg (179.54 KiB) Skoðað 642 sinnum

Eins og einhverjir kannski vita þá stóð fyrst til að halda Iceland Open F3F á því herrans ári 2020 en ákveðin lítil veira setti strik í reikninginn eins og með fjölmargt annað á þessari jörð okkar. Aftur var reynt 2021 en enn reyndist veiran á ferðinni en allt er þá þrennt er og í þriðju tilraun 2022 tókst að loksins að halda mótið. Það var þó búið að saxast á keppendahópinn en upphaflega voru 30 keppendur, frá níu þjóðum, skráðir til leiks og fimm á biðlista þegar mest var en þegar upp var staðið þá mættu átta keppendur til leiks.

Gærdagurinn var full rólegur en í dag leit þetta bara þokkalega út í byrjun dags, rúmir 5 metrar í brekkunni en smá dumbungur yfir öllu og nokkrir dropar í loftinu. Við drifum brautina upp og á fyrsta keppnisfund kl. 10 var tilkynnt að keppni hæfist kl. 11 eða þegar droparnir væru búnir. Droparnir kláruðust svo og keppnin hófst kl. 10:50 og þar sem eingöngu voru 8 keppendur þá gekk hver umferð nokkuð hratt fyrir sig. Smá labb var að lendingunni og eftir hverja umferð færðust keppendur til um tvö sæti þannig að keyrslan var talsverð yfir daginn, göngumælirinn minn sýndi eina 15 km.

Um tvö leytið voru svo 12 umferðir búnar þannig að það var orðið ljóst að ef veðrið héldist þá næðist að klára 20 umferðir í dag og þar með lyki mótinu. Gekk það eftir og þó það væri talsverð keyrsla þá var það flott að svona vel gekk því þá þurfti ekki að kalla út aðstoðarmennina daginn eftir en veikindi og aðrar fjarvistir hjuggu stórt skarð í starfsmannahópinn svo einungis um helmingur þeirra var tiltækur þegar á reyndi. Árni, Gunni, Jón og Siggi fá kærar þakkir fyrir að standa vaktina fyrir okkur í hliðunum og við tímavörslu en án þeirra hefði þetta ekki gengið svona vel! Takk fyrir okkur strákar.

Strax frá byrjun lá fyrir að mótið yrði nokkuð sterkt en fjórir af erlendum keppendunum eru fastagestir í topp 10 á alþjóðamótum og flestir verið landsliðsmenn oftar en einu sinni fyrir sína þjóð. Það kom líka á daginn og var ansi gaman að fylgjast með þeim köppum fljúga sem engin væri morgundagurinn. Við stóðum líka aðeins í hárinu á þeim og unnum eina umferð og tókum annað sætið í annarri umferð.

Átta flugmenn sem fljúga í tuttugu umferðum gera hvorki meira né minna en 160 flug án meiriháttar óhappa sem verður bara að teljast ansi gott og sýnir líka að fyrir utan góða flugmenn þá voru toppaðstæður í boði! Mark lenti reyndar í því að klára rafmagnið á sinni vél í síðustu umferðinni en fyrir algjöra hundaheppni lenti hann í snjóhrúgu fyrir neðan brekkuna og rann svo út í urðina fyrir neðan. Fyrir utan smá rispur á lakki þá var eina skemmdin sú að servóbakki fyrir annan flapann losnaði. Við klikkuðum svo á að senda hann út í sjoppu að kaupa lottómiða en það er önnur saga.

Hraðasta flug mótsins átti Mark Treble í elleftu umferð en það var 39,56s en fast á hæla hans kom Siegfried Schedel með 39,92s í tólftu umferð. Það var líka mikið af tímum á bilinu fjörutíu til fimmtíu sekúndur og erlendu gestunum þótti einsýnt að við réttar aðstæður þá mætti fljúga brekkuna undir þrjátíu sekúndum!

En að lokum getur bara verið einn sigurvegari og eftir tuttugum umferðir þá fór keppnin svo:
  1. Siegfried Schedel
  2. John Phillips
  3. Armin Hortzitz
  4. Mark Treble
  5. Sverrir Gunnlaugsson
  6. John Treble
  7. Erlingur Erlingsson
  8. Guðjón Halldórsson
Áhugasamir geta skoðað nánari greiningu á vef F3XVault.

Lokahófið og verðlaunaafhendingin fór svo fram hjá Guðjóni í Dalsbyggðinni að keppni lokinni. Óhætt er að segja að verðlaunagripurinn fyrir Iceland Open F3F hafi vakið mikla lukku á meðal keppenda og þótt víðar væri leitað en heiðurinn af honum á Gunnar yngri og foreldrar hans og svo græjaði Gunnar eldri plattann fyrir okkur. En þar sem mótið var líka hluti af Eurotour, og World Cup sem er á vegum FAI (Alþjóða flugmálafélagið), mótaröðunum þá fá menn líka stig inn á þær og þennan flott væng í verðlaun fyrir Eurotour sigurinn, FAI var með medalíu en því miður hefur því verið hætt.

3. Armin Hortzitz, 1. Siegfried Schedel, 2. John Phillips
Mynd

ice and fire bókin var svo í verðlaun fyrir besta tímann en það var Mark Treble á 39,56s í elleftu umferð.
Mynd

Sérstakar þakkir fá þeir fjölmörgu sem aðstoðuðu við undirbúninginn á einn eða annan hátt en hann hófst 2019 og hefur svo staðið yfir með hléum alla götur síðan. Við lærðum heilmikið á þessu og þegar upp er staðið þá var kannski bara ágætt að fá svona prufurennsli á fyrsta alþjóðlega mótið okkar, þ.e.a.s. mótshaldara ekki Íslendinga en við héldum það sem var heimsmeistaramót í þessari grein árið 1996 sælla minninga. Keppniskerfið reyndist mjög vel, fraus í eitt skiptið í vinnutíma flugmanns en annars gekk það eins og klukka.

Skipting flugvéla sem keppendur notuðu var sem hér segir:
1x Freestyler 5
1x Respect
1x Pitbull
2x Pitbull II
3x Freestyler 6

oll-logoin-med-ramma.png
oll-logoin-med-ramma.png (65.96 KiB) Skoðað 643 sinnum

Re: Draugahlíðar - 30.apríl 2022 - Iceland Open F3F 2022

Póstað: 1. Maí. 2022 20:53:10
eftir Sverrir
Fleiri myndir.

Re: Draugahlíðar - 30.apríl 2022 - Iceland Open F3F 2022

Póstað: 3. Maí. 2022 16:39:16
eftir Sverrir